Previous Next

Áfengisauglýsingar beinast jafnvel að ungum börnum

Láttu aðra vita

Þegar vara er auglýst þá er tilgangurinn vanalega sá að fá fólk til að muna eftir og langa í vöruna – sem leiðir svo gjarnan til þess að varan er keypt. Auglýsingar hafa sterk áhrif á börn og ungt fólk og því er auglýsingum gjarnan beint að þeim. Þetta gildir t.d. mjög um áfengisauglýsingar, þar sem áfengi og ,,skemmtilegar” stundir er gjarnan sýnt saman. Bannað er með lögum að auglýsa áfengi á Íslandi en ótal dæmi sýna hvernig farið er í kringum þessi lög – nægir að nefna ýmsar verslunarmannahelgarauglýsingar nú í ár. Og nú er meira að segja svo langt gengið að hægt er að kaupa barnaleikföng með áfengisauglýsingum.

Leikfangið sem um ræðir (sjá mynd) var nýlega keypt í leikfangaverslun í Reykjavík og jafnvel þó að tilgangurinn hafi ekki verið að hvetja börn til að drekka bjór þá er þarna bjórauglýsing fyrir augunum á litlum börnum. Það hefur svo vart farið fram hjá landsmönnum að þótt bannað sé með lögum að auglýsa áfengi á Íslandi þá eru áfengisauglýsingar áberandi í flestum fjölmiðlum landsins. Miklu virðist vera til kostað að koma vörunni á framfæri og oftar en ekki virðast auglýsingarnar beinast að ungu fólki.

Til að skoða málið nánar má benda á erlendar kannanir á markaðssetningu áfengis sem beint er að ungu fólki. Í júlíhefti The Archives of Pediatrics and Adolescent Medicine 2004 kemur fram að árið 2002 sáu unglingar í Bandaríkjunum t.a.m. fleiri áfengisauglýsingar en fullorðnir í blöðum og tímaritum. Þar kemur auk þess fram að stúlkur eru berskjaldaðri en drengir hvað varðar áfengisauglýsingar. Áfengisiðnaðurinn í Bandaríkjunum varði árið 2002 1,9 milljörðum dollara í markaðssetningu áfengis með ýmsum hætti. Í áfengiaauglýsingar í tímaritum var t.d. varið 590,4 milljónum dollurum.

Auglýsingunum gjarnan beint að ungum stúlkum

Rannsakendur könnuðu hversu mikið af áfengisauglýsingum er beint að ungu fólki og eftir að hafa farið í gegnum 103 bandarísk tímarit á árunum 2001-2002 fundu þeir alls 6,239 áfengisauglýsingar. Helstu niðurstöður voru þær að á milli áranna sá ungt fólk 45% meira af bjórauglýsingum,og 65% meira af auglýsingum um áfengt gos en 69% minna af vínauglýsingum heldur en fullorðnir. Stúlkur á aldrinum 12-20 eru líklegri til að sjá bjór og áfengt gos auglýst heldur en konur í aldurshópnum 21-34 ára. Greinahöfundar benda á að áfengisauglýsingum sé í miklum mæli beint að ungum stúlkum og að áreitið aukist sífellt.

Samantekt niðurstaðna úr rannsókn á vegum Bandarísku læknasamtakanna (AMA), sem birt var á heimasíðu þeirra (http://www.ama-assn.org/ama/pub/category/14425.html), sýnir að 31% unglingsstúlkna hafi drukkið áfengt gos síðastliðna sex mánuði samanborið við 19% drengja. Helmingur stúlknanna sagðist hafa séð auglýsingar um áfengt gos. Þar kemur einnig fram að ein af hverjum fjórum stúlkum hafa ekið bíl eftir að hafa drukkið áfengi eða verið í bíl þar sem bílstjórinn hefur neytt áfengis. Þá hefur ein af hverjum fimm kastað upp eða fallið í yfirlið eftir áfengisneyslu. Höfundar skýrslunnar telja að áfengisframleiðendur markaðssetji áfengt gos fyrir ungar stúlkur. Talsmaður framleiðenda segir aftur á móti að auglýsingunum sé beint að fullorðum og að þeir deili áhyggjum af ólöglegri unglingadrykkju.

Í samantekt rannsókna sem birtist í Journal of Public Health Policy, vol.26 no 3, komast greinahöfundar að þeirri niðurstöðu að umdeilanlegt hafi verið að alhæfa um áhrif auglýsinga á áfengisneyslu en að nýjustu niðurstöður rannsókna gefi til kynna að áfengisauglýsingar hafi áhrif á áfengisneyslu ungs fólks. Þessu til stuðnings hafa nýverið verið birtar niðurstöður úr bandarískri rannsókn sem styrkir enn frekar þá kenningu að áfengisauglýsingar hafa langtímaáhrif á drykkju ungs fólks. Niðurstöðurnar sýna að bein tengsl eru á milli drykkju og framboðs auglýsinga, þ.e. að sá hópur ungs fólks sem sá meira af áfengisauglýsingum drakk meira en sá hópur sem sá minna af þeim (The Archives of Pediatrics and Adolescent Medicine, janúar 2006).

Íslenskur veruleiki

Hér á landi hefur orðið umtalsverð aukning á áfengisauglýsingum og áfengisumfjöllunum – kynningum- í blöðum, tímaritum og ljósvakamiðlum. Má benda á að samkvæmt niðurstöðum samantektar, sem Lýðheilsustöð fól Háskólanum á Akureyri og Fjölmiðlavaktinni að gera, hefur tíðni áfengisauglýsinga þrefaldast á síðust tíu árum. Oft eru þessar auglýsingar með þeim hætti að þær vekja ákveðnar væntingar til neyslu áfengis; ,,það er gott og gaman” ,,ég á það skilið” og ,,það hjálpar til” eru skilaboð sem fylgja gjarnan þessum auglýsingum. Má því leiða að því getum að þær hafi jákvæð áhrif á væntingar ungs fólks til neyslu áfengis sem getur því leitt til þess að það drekki frekar en ekki.

Því seinna sem byrjað er að drekka því betra – heilans vegna

Nýlegar sem og eldri rannsóknir á áhrifum áfengis á þroska ungs fólks benda m.a. til þess að við neyslu áfengis geti hlotist varanlegur skaði á ákveðnum hluta heilans. Sem dæmi um afleiðingar má nefna skert vinnsluminni, skert sjónsvið og skertan hæfileika til úrlausnar ýmissa vandamála. Þetta kemur meðal annar fram í niðurstöðum bandarískrar rannsóknar (The neurocognitive effects of alcohol on adolescent and college students, í Preventive Medicine 40 (2005)). Niðurstöður sýna að virkni í heilaberki er minni hjá unglingum sem drekka áfengi en þessi hluti heilans er mikilvægur fyrir hugsun, skipulagningu, hömlur og stýringu tilfinninga.

VERNDUM HEILANN

Rík ástæða er til að brýna fyrir ungu fólki – sem og foreldrum og öðrum fullorðnum – að heilinn er að vaxa og þroskast til tvítugs – og í raun aðeins lengur – og hversu mikilvægt sé að skaða hann ekki með áfengisneyslu á þessu þroskaferli: skaðinn er varanlegur sem þýðir að hann er ekki hægt að bæta.

Í ljósi þessa hlýtur að verða að beita öllum tiltækum ráðum til að seinka sem mest því að ungt fólk drekki áfengi. Ein af þeim leiðum hlýtur að vera að draga úr væntingum ungs fólks til áfengis með því að hindra að áfengisauglýsingar nái til þess.

Hagur og heilsa landsmanna að veði

Öllum sem vilja vita er ljóst að aukið aðgengi að áfengi leiðir til aukinnar neyslu þess. Fjölmargar rannsóknir, bæði frá Norðurlöndunum og Bandaríkjunum, gefa til kynna að lækkun áfengiskaupaaldurs, að selja áfengi í almennum verslunum og aukið frelsi til markaðssetningar áfengis leiðir til aukinnar neyslu áfengis. Um leið eykst sá skaði sem fylgir áfengisneyslunni. Það er því hagur og heilsa landsmanna að aðgengi að áfengi sé ekki aukið.

Höfundur:

Rafn M. Jónsson,

verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna Lýðheilsustöð

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/afengisauglysingar-beinast-jafnvel-a%c3%b0-ungum-bornum/

Ákæra ber ritstjóra fyrir ómerktar áfengisauglýsingar í blöðum og tímaritum

Láttu aðra vita

Ákæra ber ritstjóra fyrir ómerktar áfengisauglýsingar í blöðum og tímaritum

Í greiningu sinni á ábyrgð á brotum gegn banni við áfengisauglýsingum í talhorninu í gær kemst talsmaður neytenda að þeirri niðurstöðu að skýrt sé hver beri ábyrgðina: Nafngreindur auglýsandi – en ritstjóri ella.

Í talhorninu að þessu sinni fjallaði Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, um ábyrgð – einkum refsiábyrgð en einnig meðábyrgð fjölmiðla – á brotum gegn banni við áfengisauglýsingum á þrenns konar vettvangi:

  • í prentmiðlum,
  • ljósvakamiðlum og
  • öðrum miðlum.

Farið er yfir ábyrgðarröðina í prentlögum sem tryggi að ávallt beri einhver ábyrgð á efni dagblaða, þ.e.

  • höfundur ef hann er nafngreindur en annars
  • útgefandi eða ritstjóri ef hann er tilgreindur en annars
  • sölu- eða dreifingaraðili (ef í hann næst) en annars
  • prentsmiðjan.

Í pistlinum kemur fram að frá 1963 hafi sú túlkun legið fyrir frá Hæstarétti (H 1963:1) að ef fyrirtæki, sem auglýsir áfengi, sé nafngreint þá beri framkvæmdarstjóri þess ábyrgð sem  höfundur þess efnis sem í auglýsingu felist. Nafngreiningu auglýsanda hafi hins vegar ekki verið til að dreifa í nýjasta dómi Hæstaréttar frá 8. febrúar 2007 þar sem framkvæmdarstjóri íslensks innflutnings- eða umboðsfyrirtækis erlends bjórs var sýknaður þar sem engin nafngreining lá fyrir á umboðsfyrirtækinu – auglýsandanum. Í pistlinum segir: “Þarna hefði verið öruggara og réttara miðað við fordæmi Hæstaréttar frá 1963 að ákæra ritstjóra dagblaðsins en skilja má dóminn þannig að hann hefði þá verið dæmdur sekur fyrir brot gegn auglýsingabanni áfengislaga.”

Þá segir:

“Segja má að Hæstiréttur hafi í dómi sínum 8. febrúar 2007 fengið bakþanka með því að telja nú að ekki sé nóg að nafngreina vöru eins og látið var duga 1999 en þá vísaði nafn bjórsins aðeins óbeint á framleiðandann, auglýsandann. Niðurstaðan er því skýr – eins og hún hefur í raun verið frá því að fyrst reyndi að þessu leyti á prentlögin í Hæstarétti 1963:

Auglýsandi ber ábyrgð á áfengisauglýsingu ef hann er nafngreindur í auglýsingunni. Refsiábyrgðina ber framkvæmdarstjóri eða annar fyrirsvarsmaður fyrirtækis sem er bær til þess að samþykkja auglýsinguna. Ef auglýsandi er ekki nafngreindur ber ritstjóri ábyrgðina (og svo koll af kolli samkvæmtprentlögum).”

Í dómi sínum 8. febrúar 2007 segir Hæstiréttur um bjórauglýsingar í fylgiblaði með dagblaði að birting þeirra hafi brotið í bága við áfengislög. Um það segir í pistlinum: “Þetta þýðir að mínu mati að ef vafi leikur á því hvort auglýsandi er nægilega nafngreindur eigi handhafi ákæruvalds að ákæra ritstjóra dagblaðs eða tímarits.” Í pistlinum segir einnig að sú niðurstaða hljóti að leiða til breytts verklags á dagblöðum – svo tryggt verði að auglýsandi verði nafngreindur. “Annars er hætt við – og bæði rétt og skylt samkvæmt prentlögum – að ritstjóri verði ákærður fyrir brot gegn áfengislögummiðað við þessi skýru fordæmi Hæstaréttar frá 1963 og 2007.”

Gísli Tryggvason Talsmaður neytenda

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/ak%c3%a6ra-ber-ritstjora-fyrir-omerktar-afengisauglysingar-i-blo%c3%b0um-og-timaritum/

Ritstjórar prentmiðla eru ábyrgir fyrir ómerktum áfengisauglýsingum

Láttu aðra vita

Ritstjórar prentmiðla eru ábyrgir fyrir ómerktum áfengisauglýsingum

Að gefnu tilefni áréttar talsmaður neytenda lagareglur og fordæmi sem leiða til þess að ritstjórar prentmiðla séu ábyrgir fyrir auglýsingum sem brjóta í bága við bann við áfengisauglýsingum – þ.e. ef auglýsandi er ekki nafngreindur í auglýsingu.

Að gefnu tilefni vill talsmaður neytenda árétta að af nýlegum dómi Hæstaréttar má ráða að svarið við spurningunni hvort einhver beri ábyrgð á áfengisauglýsingum er jákvætt eins og rakið var í talhorninu fyrr á árinu. Svarið er enn fremur að ritstjórar prentmiðla bera ábyrgð á ómerktum áfengisauglýsingum eins og bent var á í frétt á heimasíðu talsmanns neytenda næsta dag.

Brot á lögum en sýknað þar sem auglýsandi var ekki nafngreindur

Í nefndum hæstaréttardómi segir m.a.

„Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fram komið að birting auglýsinga þeirra sem um getur í ákæru var andstæð ákvæðum 20. gr. áfengislaga. Hins vegar var ákærði hvorki nafngreindur né vísað til fyrirtækis þess, sem hann veitir forstöðu, í merkingu 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt við birtingu auglýsinga samkvæmt 1. til 3. og 5. tölulið ákæru og ber hann því ekki refsiábyrgð á efni þeirra. Ber samkvæmt kröfu ákæruvaldsins að sýkna hann af ákæru samkvæmt þeim liðum.“

Þá er ritstjóri ábyrgur

M.ö.o. fólu auglýsingarnar í sér brot á refsiákvæðum áfengislaga en auglýsandinn var aðeins sakfelldur fyrir sumar auglýsingar en ekki aðrar þar sem tilvísun í nafn hans var ekki á öðrum auglýsingum. Þá er ritstjóri hins vegar ábyrgur og ber að ákæra hann eins og rökstutt hefur verið áður í tilvitnaðri frétt þar sem segir m.a.:

„Í greiningu sinni á ábyrgð á brotum gegn banni við áfengisauglýsingum í talhorninu í gær kemst talsmaður neytenda að þeirri niðurstöðu að skýrt sé hver beri ábyrgðina: Nafngreindur auglýsandi – en ritstjóri ella.

Í talhorninu að þessu sinni fjallaði Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, um ábyrgð – einkum refsiábyrgð en einnig meðábyrgð fjölmiðla – á brotum gegn banni við áfengisauglýsingum á þrenns konar vettvangi:

í prentmiðlum,

ljósvakamiðlum og

öðrum miðlum.“

Í pistlinum segir um áhrif dómanna:

„Þetta þýðir að mínu mati að ef vafi leikur á því hvort auglýsandi er nægilega nafngreindur eigi handhafi ákæruvalds að ákæra ritstjóra dagblaðs eða tímarits.“

Í pistlinum segir einnig að sú niðurstaða hljóti að leiða til breytts verklags á dagblöðum – svo tryggt verði að auglýsandi verði nafngreindur.

„Annars er hætt við – og bæði rétt og skylt samkvæmt prentlögum – að ritstjóri verði ákærður fyrir brot gegn áfengislögum miðað við þessi skýru fordæmi Hæstaréttar frá 1963 og 2007.“

Betur er farið yfir réttarstöðuna í tilvitnuðum pistli talhorninu og bent á að þessi túlkun hafi legið fyrir frá árinu 1963.

Reyna þarf á léttölsfyrirvara

Í áfengislögum segir:

„Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. […] – Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti […]. – […] Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.“

Ekki er að mati talsmanns neytenda nægilegt að fram komi með smáum stöfum orðið „LÉTTÖL“ til að forðast refsiábyrgð en á það hefur líklega ekki reynt nægilega. Um það sagði í nefndum pistli að vonandi reyndi brátt á ábyrgðarreglur útvarpslaga fyrir dómi enda væri bann við áfengisauglýsingum að mati talsmanns neytenda þverbrotið á hverjum degi þegar í lok bjórauglýsinga birtist í vinstra horni neðst með daufum og smáum stöfum, líklega í um eina sekúndu: „Léttöl.“ Þetta stæðist að mati talsmanns neytenda ekki skýrt bann áfengislaga.

Til verndar ungum neytendum og af virðingu við lög í landinu

Ábendingar þessar eru gerðar þar sem hugsanlegt er að brugðist verði við með skipulögðum hætti ef brotið er gegn áfengislögum – einkum ef auglýsingar beinast að ungum neytendum og verður það þá gert í tengslum við samstarfsverkefni með umboðsmanni barna við að leitast við að semja um frekari mörk við markaðssókn sem beinist að börnum en þar er slík opinber og almenn kærustefna nefnd meðal hugsanlegraúrræða. Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hefur ekki almenna skoðun á áfengisneyslu fullorðinna neytenda en vill sporna gegn auglýsingum sem beinast að börnum á óhollri vöru – einkum ef refsivert er að auglýsa hana. Þá grefur það undan virðingu við lög sem eiga öðrum þræði að vernda unga neytendur ef slíkt skýrt bann í lögum er hunsað endurtekið. Við það verður ekki unað

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/ritstjorar-prentmi%c3%b0la-eru-abyrgir-fyrir-omerktum-afengisauglysingum/

Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir

Láttu aðra vita

„Held áfram á meðan að dómarinn flautar ekki“ sagði ungur verðbréfasali eitt sinn aðspurður um hvort tiltekin afar vafasamur viðskiptamáti stæðist lög. Ekki man ég hvort dómarinn „flautaði“ að lokum en veit það eitt að dómarinn flautar lítið ef nokkuð í sumum málum. Eitt af þeim málum er einlæg og sífelld brot á banni við áfengisauglýsingum. Með grímulausum áfengisauglýsingum og eða heimskulegum útúrsnúningum á lögum, sem með skýrum hætti banna auglýsingar af þessum toga, eru lögin brotin margsinnis dag hvern. Áfengisauglýsingar eru boðflenna í tilveru unglinga sem þau eiga fullan rétt á að vera laus við.

Hin siðferðilegi boðskapur laganna sem og innhald er afar skýrt. Lögin eru sett á grundvelli velferðarsjónarmiða og í tengslum við réttindi barna og unglinga til þess að verða laus við áróður af þeim toga sem kemur fram í áfengisauglýsingum. Auglýsingarnar stríða og vinna markvisst gegn samfélagslegum markmiðum eins og vímulausum grunnskóla. Markmiðum sem foreldrar, forráðamenn og allir sem að uppeldismálum vinna í þessu landi eru einhuga um.

Það er eins og engin sé ábyrgur? Áfengisinnflytjendur eða framleiðendur auglýsa hvað af tekur og eyða til þess gríðarlegum fjárhæðum; flestir fjölmiðlar birta þessar auglýsingar átölulaust; auglýsingastofur framleiða þær? Þrátt fyrir einlægan síbrotavilja þessara aðila þá „flautar dómarinn ekki“. Ungt fólk virðist ekki búa við sama rétt og aðrir þegnar þessa lands. Þrengstu viðskiptahagsmunir eru teknir fram fyrir velferð barna og ungmenna..

Núna í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar munu áfengisauglýsingar dynja á börnum og ungmennum og ekki síst í þeim miðlum sem sérstaklega höfða til æskunnar. Réttindi barna og unglinga eru fótum troðin og þau njóta ekki lögvarinna réttinda. Við foreldrar og forráðmenn barna og unglinga og aðrir sem bera hag þeirra fyrir brjósti erum ráðþrota gagnvart þessu. Það er auðvitað illa komið þegar að hagsmunaaðilar í krafti gífurlegs fjármagns fara sínu fram, óháð lögum og almennu siðferði.

Við foreldrar, afar og ömmur og allir þeir sem bera hag æskunnar fyrir brjósti við þurfum að sýna hug okkar í verki gagnvart þessum ólöglegu áfengisauglýsingum og sniðgagna með öllu auglýstar áfengistegundir – Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem otar áfengi að börnum manns með ólöglegum áfengisauglýsingum? Það er ekki við hæfi.

Foreldrar – forráðamenn og allir þeir aðilar sem hafa velferð æskunnar að leiðarljósi – Sýnum hug okkar í verki – Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir

Árni Guðmundsson

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/sni%c3%b0gongum-auglystar-afengistegundir/

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna dómi

Láttu aðra vita

Fréttatilkynning frá Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna dómi Hæstaréttar frá 23. október 2008 þar sem ritstjóri Blaðsins var dæmur til greiðslu 1.000.000 króna sektar vegna brota á lögum um banni við áfengisauglýsingum sbr. 20. gr áfengislaga. Samtökin vekja einnig athygli á að samkvæmt séráliti Jóns Steinars Gunnlaugssonar Hæstaréttardómara kemur fram að ákærði lagði fram í Héraðsdómi fjórar möppur frá Fjölmiðlavaktinni og benti á 999 sambærileg brot á tímabilinu 1. maí 2005 til 1. júní 2006.Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hvetur yfirvöld til þess að gæta jafnræðis gangvart þeim aðilum sem brjóta með markvissum og einbeittum brotavilja gegn lögum þessum. Það verður einungis gert með fleiri ákærum eins og fyllst tilefni er til og málsgögn þessa máls sýna. Það er með öllu óásættalegt að einungis 0.001% af brotum komi til kasta dómskerfisins.

Dómur Hæstaréttar frá 23. október 2008

K (Karl Garðarsson) var sakfelldur fyrir að hafa sem ritstjóri B (Blaðsins) á árinu 2005 birt í blaðinu fjórar auglýsingar á áfengi og með því brotið gegn 20. gr., sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998, sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Ekki var talið að 20. gr. áfengislaga bryti í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi eða skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, en slíkum vörnum hafði áður verið hafnað í dómum Hæstaréttar. Þá byggði K á því að undantekning frá banni við áfengisauglýsingum í 20. gr. áfengislaganna, er lýtur að auglýsingum í erlendum prentritum sem flutt eru til landsins, bryti í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar. Í niðurstöðu meirihluta Hæstaréttar kom fram að með dómi réttarins í máli nr. 220/2005 hefði verið talið að hliðstætt ákvæði tóbaksvarnarlaga nr. 6/2002 bryti ekki gegn jafnræðisreglu. Að því virtu sem og röksemdum ákæruvaldsins var ekki fallist á að ákvæði 20. gr. áfengislaga bryti gegn áðurnefndu ákvæði stjórnarskrárinnar. Þá var ekki fallist á það með K að rannsókn lögreglu hefði verið ábótavant. Þar sem höfundur auglýsinganna hafði ekki nafngreint sig bar K ábyrgð á birtingu auglýsinganna samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga um prentrétt. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu K og hann dæmdur til greiðslu 1.000.000 króna sektar. (Heimsíða Hæstaréttar)

Dómur Hæstaréttar.

“Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. september 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu.

Í ákæru er varðandi heimfærslu brota ákærða til refsiákvæða, auk tilvísana til ákvæða áfengislaga, vísað til 15. gr. laga nr. 57/1956. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar ber höfundur efnis, sem birtist í blöðum, refsiábyrgð á efninu ef hann hefur nafngreint sig og er auk þess annað hvort heimilisfastur hér á landi þegar ritið kemur út eða undir íslenskri lögsögu þegar mál er höfðað. Ef enginn slíkur höfundur hefur nafngreint sig ber útgefandi rits eða ritstjóri ábyrgðina. Í héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að höfundur auglýsinganna hafi ekki nafngreint sig í merkingu 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956. Verður fallist á þá niðurstöðu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 165/2006, sem kveðinn var upp 8. febrúar 2007. Samkvæmt lagaákvæðinu ber ákærði ábyrgð á birtingu auglýsinganna, en samkvæmt því var heimilt að beina málsókn hvort heldur að útgefanda rits eða ritstjóra. Að því virtu, sem rakið er að framan, verður sakfelling ákærða í málinu staðfest. Refsing hans er hæfilega ákveðin í héraðsdómi, sem verður staðfestur með þeim hætti, sem segir í dómsorði.

Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Karl Garðarsson, greiði 1.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 40 daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 475.418 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur.” (Heimsíða Hæstaréttar)

Í séráliti Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttardómara kemur eftirfarandi fram “Við meðferð málsins í héraði lagði ákærði fram fjórar möppur sem hafa að geyma samantekt Fjölmiðlavaktarinnar ehf. á ætluðum áfengisauglýsingum í innlendum blöðum og tímaritum. Í athugasemd Fjölmiðlavaktarinnar ehf. sem fylgir möppunum segir meðal annars: „Samantekt þessi er afrit af þeim áfengisauglýsingum sem birst hafa í prentmiðlum að Blaðinu undanskildu. Tímabilið miðast við 1. maí 2005 – 2. júní 2006.“ Auglýsingarnar sem ákæran tekur til voru allar birtar á þessu tímabili. Tilvikin, sem samantektin tekur til, eru hvorki fleiri né færri en 999 talsins. Við athugun á þessum gögnum verður ljóst að um er að ræða blaðaefni, sambærilegt við þær auglýsingar sem meirihluti Hæstaréttar sakfellir nú ákærða fyrir að birta.” (Heimsíða Hæstaréttar)

Sjá dóminn í heild HÉR

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/foreldrasamtok-gegn-afengisauglysingum-fagna-domi/

Rætt um áfengisauglýsingabann á Alþingi -afdráttalaus dómur

Láttu aðra vita

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, telur óþarft að herða reglur um bann við áfengisauglýsingum eftir nýlegan dóm Hæstaréttar sem hann segir marka þáttaskil í meðferð þessara mála. Hann væri bæði skýr og afdráttarlaus og niðurstaða Hæstaréttar um túlkun laganna því skýr. Þingmenn vilja að lögunum verði fylgt betur eftir.
Hæstiréttur sakfelldi fyrrverandi ritstjóra Blaðsins í síðustu viku fyrir að hafa birt fjórar áfengisauglýsingar í blaðinu og þannig brotið gegn ákvæðum laga um bann við áfengisauglýsingum. Ekki var fallist á það fyrir Hæstarétti að auglýsingabann bryti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/r%c3%a6tt-um-afengisauglysingabann-a-al%c3%beingi-afdrattalaus-domur/

Load more