Ákæra ber ritstjóra fyrir ómerktar áfengisauglýsingar í blöðum og tímaritum

Láttu aðra vita

Ákæra ber ritstjóra fyrir ómerktar áfengisauglýsingar í blöðum og tímaritum

Í greiningu sinni á ábyrgð á brotum gegn banni við áfengisauglýsingum í talhorninu í gær kemst talsmaður neytenda að þeirri niðurstöðu að skýrt sé hver beri ábyrgðina: Nafngreindur auglýsandi – en ritstjóri ella.

Í talhorninu að þessu sinni fjallaði Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, um ábyrgð – einkum refsiábyrgð en einnig meðábyrgð fjölmiðla – á brotum gegn banni við áfengisauglýsingum á þrenns konar vettvangi:

  • í prentmiðlum,
  • ljósvakamiðlum og
  • öðrum miðlum.

Farið er yfir ábyrgðarröðina í prentlögum sem tryggi að ávallt beri einhver ábyrgð á efni dagblaða, þ.e.

  • höfundur ef hann er nafngreindur en annars
  • útgefandi eða ritstjóri ef hann er tilgreindur en annars
  • sölu- eða dreifingaraðili (ef í hann næst) en annars
  • prentsmiðjan.

Í pistlinum kemur fram að frá 1963 hafi sú túlkun legið fyrir frá Hæstarétti (H 1963:1) að ef fyrirtæki, sem auglýsir áfengi, sé nafngreint þá beri framkvæmdarstjóri þess ábyrgð sem  höfundur þess efnis sem í auglýsingu felist. Nafngreiningu auglýsanda hafi hins vegar ekki verið til að dreifa í nýjasta dómi Hæstaréttar frá 8. febrúar 2007 þar sem framkvæmdarstjóri íslensks innflutnings- eða umboðsfyrirtækis erlends bjórs var sýknaður þar sem engin nafngreining lá fyrir á umboðsfyrirtækinu – auglýsandanum. Í pistlinum segir: “Þarna hefði verið öruggara og réttara miðað við fordæmi Hæstaréttar frá 1963 að ákæra ritstjóra dagblaðsins en skilja má dóminn þannig að hann hefði þá verið dæmdur sekur fyrir brot gegn auglýsingabanni áfengislaga.”

Þá segir:

“Segja má að Hæstiréttur hafi í dómi sínum 8. febrúar 2007 fengið bakþanka með því að telja nú að ekki sé nóg að nafngreina vöru eins og látið var duga 1999 en þá vísaði nafn bjórsins aðeins óbeint á framleiðandann, auglýsandann. Niðurstaðan er því skýr – eins og hún hefur í raun verið frá því að fyrst reyndi að þessu leyti á prentlögin í Hæstarétti 1963:

Auglýsandi ber ábyrgð á áfengisauglýsingu ef hann er nafngreindur í auglýsingunni. Refsiábyrgðina ber framkvæmdarstjóri eða annar fyrirsvarsmaður fyrirtækis sem er bær til þess að samþykkja auglýsinguna. Ef auglýsandi er ekki nafngreindur ber ritstjóri ábyrgðina (og svo koll af kolli samkvæmtprentlögum).”

Í dómi sínum 8. febrúar 2007 segir Hæstiréttur um bjórauglýsingar í fylgiblaði með dagblaði að birting þeirra hafi brotið í bága við áfengislög. Um það segir í pistlinum: “Þetta þýðir að mínu mati að ef vafi leikur á því hvort auglýsandi er nægilega nafngreindur eigi handhafi ákæruvalds að ákæra ritstjóra dagblaðs eða tímarits.” Í pistlinum segir einnig að sú niðurstaða hljóti að leiða til breytts verklags á dagblöðum – svo tryggt verði að auglýsandi verði nafngreindur. “Annars er hætt við – og bæði rétt og skylt samkvæmt prentlögum – að ritstjóri verði ákærður fyrir brot gegn áfengislögummiðað við þessi skýru fordæmi Hæstaréttar frá 1963 og 2007.”

Gísli Tryggvason Talsmaður neytenda

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/ak%c3%a6ra-ber-ritstjora-fyrir-omerktar-afengisauglysingar-i-blo%c3%b0um-og-timaritum/