Ráðherrar hafa athafnaskyldu

Láttu aðra vita

Forvarnarsamtök senda ráðherrum bréf

Reykjavík, 27. mars 2024.


Erindi til dómsmálaráðherra um athafnaskyldu ráðherra.


Erindi þetta er sent til að leita skriflegra svara við því af hverju ráðherra hefur ekki brugðist við þeirri
ólöglegu netsölu áfengis sem fram hefur farið í landinu um langt skeið. Sú netsala sendir áfengi heim
til einstakra neytenda á innan við 30 mínútum úr vöruhúsi sem er innanlands og er því smásala í
samkeppni við ÁTVR og á skjön við lög á málefnasviði ráðherra. Netsalar þessir hafa ekki leyfi til
smásölu áfengis. Neytendur geta einnig sótt vöruna beint í vöruhúsið og fengið hana afhenta þar, en
slíkt er einnig á skjön við lög á málefnasviði ráðherra. Langt skeið hefur liðið án viðbragða ráðherra
við þessari ólöglegu framkvæmd.

Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 bera ráðherrar ábyrgð á málefnasviðum
sínum. Ráðherrar bera athafnaskyldu gagnvart því að farið sé að lögum á málefnasviðum sem undir
þá heyra. Þeim ber með öðrum orðum lagaleg skylda til viðbragða ef lögum er ekki framfylgt.
Málið er mikilvægt fyrir hagsmuni alls almennings að okkar mati. Við bendum því einnig á lög um
ráðherraábyrgð nr. 4/1963. Þar segir að krefja megi ráðherra ábyrgðar fyrir sérhver störf eða
vanrækt starfa, er hann hafi orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hafi annaðhvort af
ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins eða önnur landslög.
Nánari upplýsingar um mál þetta eru hér.


Sem fyrr segir er óskað skriflegra skýringa á athafnaleysi ráðherra á málefnasviði sínu.
Með fyrir fram þökkum,

Árni Einarsson, framkvæmdastjóri Fræðslu og forvarna-félags áhugafólks um forvarnir og
heilsueflingu, Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, Aðalsteinn
Gunnarsson framkvæmdastjóri IOGT og Hildur Helga Gísladóttir, fulltrúi SAFF-Samstarfs
félagasamtaka í forvörnum.
                                                                                    
Sambærilegt erindi var sent fjármála- og efnahagsráðherra.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/radherrar-hafa-athafnaskyldu/