Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna dómi

Láttu aðra vita

Fréttatilkynning frá Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna dómi Hæstaréttar frá 23. október 2008 þar sem ritstjóri Blaðsins var dæmur til greiðslu 1.000.000 króna sektar vegna brota á lögum um banni við áfengisauglýsingum sbr. 20. gr áfengislaga. Samtökin vekja einnig athygli á að samkvæmt séráliti Jóns Steinars Gunnlaugssonar Hæstaréttardómara kemur fram að ákærði lagði fram í Héraðsdómi fjórar möppur frá Fjölmiðlavaktinni og benti á 999 sambærileg brot á tímabilinu 1. maí 2005 til 1. júní 2006.Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hvetur yfirvöld til þess að gæta jafnræðis gangvart þeim aðilum sem brjóta með markvissum og einbeittum brotavilja gegn lögum þessum. Það verður einungis gert með fleiri ákærum eins og fyllst tilefni er til og málsgögn þessa máls sýna. Það er með öllu óásættalegt að einungis 0.001% af brotum komi til kasta dómskerfisins.

Dómur Hæstaréttar frá 23. október 2008

K (Karl Garðarsson) var sakfelldur fyrir að hafa sem ritstjóri B (Blaðsins) á árinu 2005 birt í blaðinu fjórar auglýsingar á áfengi og með því brotið gegn 20. gr., sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998, sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Ekki var talið að 20. gr. áfengislaga bryti í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi eða skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, en slíkum vörnum hafði áður verið hafnað í dómum Hæstaréttar. Þá byggði K á því að undantekning frá banni við áfengisauglýsingum í 20. gr. áfengislaganna, er lýtur að auglýsingum í erlendum prentritum sem flutt eru til landsins, bryti í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar. Í niðurstöðu meirihluta Hæstaréttar kom fram að með dómi réttarins í máli nr. 220/2005 hefði verið talið að hliðstætt ákvæði tóbaksvarnarlaga nr. 6/2002 bryti ekki gegn jafnræðisreglu. Að því virtu sem og röksemdum ákæruvaldsins var ekki fallist á að ákvæði 20. gr. áfengislaga bryti gegn áðurnefndu ákvæði stjórnarskrárinnar. Þá var ekki fallist á það með K að rannsókn lögreglu hefði verið ábótavant. Þar sem höfundur auglýsinganna hafði ekki nafngreint sig bar K ábyrgð á birtingu auglýsinganna samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga um prentrétt. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu K og hann dæmdur til greiðslu 1.000.000 króna sektar. (Heimsíða Hæstaréttar)

Dómur Hæstaréttar.

“Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. september 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu.

Í ákæru er varðandi heimfærslu brota ákærða til refsiákvæða, auk tilvísana til ákvæða áfengislaga, vísað til 15. gr. laga nr. 57/1956. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar ber höfundur efnis, sem birtist í blöðum, refsiábyrgð á efninu ef hann hefur nafngreint sig og er auk þess annað hvort heimilisfastur hér á landi þegar ritið kemur út eða undir íslenskri lögsögu þegar mál er höfðað. Ef enginn slíkur höfundur hefur nafngreint sig ber útgefandi rits eða ritstjóri ábyrgðina. Í héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að höfundur auglýsinganna hafi ekki nafngreint sig í merkingu 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956. Verður fallist á þá niðurstöðu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 165/2006, sem kveðinn var upp 8. febrúar 2007. Samkvæmt lagaákvæðinu ber ákærði ábyrgð á birtingu auglýsinganna, en samkvæmt því var heimilt að beina málsókn hvort heldur að útgefanda rits eða ritstjóra. Að því virtu, sem rakið er að framan, verður sakfelling ákærða í málinu staðfest. Refsing hans er hæfilega ákveðin í héraðsdómi, sem verður staðfestur með þeim hætti, sem segir í dómsorði.

Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Karl Garðarsson, greiði 1.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 40 daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 475.418 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur.” (Heimsíða Hæstaréttar)

Í séráliti Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttardómara kemur eftirfarandi fram “Við meðferð málsins í héraði lagði ákærði fram fjórar möppur sem hafa að geyma samantekt Fjölmiðlavaktarinnar ehf. á ætluðum áfengisauglýsingum í innlendum blöðum og tímaritum. Í athugasemd Fjölmiðlavaktarinnar ehf. sem fylgir möppunum segir meðal annars: „Samantekt þessi er afrit af þeim áfengisauglýsingum sem birst hafa í prentmiðlum að Blaðinu undanskildu. Tímabilið miðast við 1. maí 2005 – 2. júní 2006.“ Auglýsingarnar sem ákæran tekur til voru allar birtar á þessu tímabili. Tilvikin, sem samantektin tekur til, eru hvorki fleiri né færri en 999 talsins. Við athugun á þessum gögnum verður ljóst að um er að ræða blaðaefni, sambærilegt við þær auglýsingar sem meirihluti Hæstaréttar sakfellir nú ákærða fyrir að birta.” (Heimsíða Hæstaréttar)

Sjá dóminn í heild HÉR

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/foreldrasamtok-gegn-afengisauglysingum-fagna-domi/