Previous Next

Umboðsmaður barna bregst við “dulbúnum” áfengisauglýsingum í tengslum við útihátíðir

Láttu aðra vita

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna frumkvæði umboðsmanns barna gagnvart áfengisauglýsingum í tengslum við útihátíðir. Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum berast árlega fjöldi kvartanna af þessum sökum og sorglegt hve margir mótshaldarar eru á siðferðilega lágu plani í þessum efnum og svo hitt hve slælegt eftirlitið er víða . Meðfylgjandi er bréf umboðsmanns barna:

Góðan dag

Með þessu bréfi vill umboðsmaður barna vekja athygli á hagsmunum barna sem sækja munu útihátíðir í sumar og aðrar skemmtanir sem bjóða upp á dagskrá fyrir börn og hvetja forsvarsmenn sveitarfélaga að huga að ábyrgð sinni gagnvart börnum.

Umboðsmaður barna hefur undanfarin ár vakið athygli á nauðsyn þess að takmarka dulbúnar áfengisauglýsingar með virkum hætti. Auglýsingum er almennt ætlað að hafa þann tilgang að hvetja til neyslu og stuðla að jákvæðu viðhorfi til þeirrar vöru sem auglýst er. Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem á rétt á sérstakri vernd, sbr. m.a. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Börn eru auk þess sérstaklega viðkvæm fyrir allri markaðssetningu og hafa auglýsingar því almennt meiri áhrif á þau en aðra. Áfengisauglýsingar hafa þannig áhrif á viðhorf barna til áfengis og stuðla að aukinni neyslu unglinga. Ljóst er að áfengi hefur ýmis skaðleg áhrif á líffæri, þroska og almenna velferð barna.

Umboðsmaður barna vill því leggja áherslu á að áfengis- og léttölsauglýsingar eiga aldrei rétt á sér á viðburðum sem börn sækja. Hagsmunir barna og unglinga af því að njóta verndar gegn áfengisauglýsingum eiga alltaf að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem standa að viðburðum sem ætlaðir eru fjölskyldufólki, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um að það sem er börnum fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn.

Afrit af þessum tölvupósti er sent öllum lögreglustjórum og sýslumönnum.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/umbodsmadur-barna-bregst-vid-dulbunum-afengisauglysingum-i-tengslum-vid-utihatidir/

Áfengisauglýsing sem hluti vímuefnaumfjöllunar !

Láttu aðra vita

Kastljósið hefur staðið sig einstaklega vel undanfarið í umfjöllun um vímuefnavandann. Af mörgu sem vel hefur verið gert í þessum efnum þá er það mat margra að þessi umfjöllun sé með því betra sem hefur sést, bæði það að efnistök eru góð og úrvinnsla vönduð. Með þessari  umfjöllun hefur Kastljósið svo sannarlega staðið undir nafni og tekist að koma af stað umræðu í samfélaginu um hvernig skuli brugðist við þeirri vá sem vímuefni vissulega eru. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og ljóst að þessi markvissa umfjöllun mun hafa í för með sér að allir sem vettlingi geta valdið bregðast við og freista þess að vinna bug á þessum síaukna vanda. Með samstilltu átaki er vissulega hægt að ná árangri eins og dæmin sanna.

Ritstjórn Kastljóss á þakkir skildar fyrir framtakið. Hitt er svo annað mál að yfirstjórn RÚV og auglýsingadeild „Útvarps allra landsmanna“ er algerlega úr takti við samfélagið sbr. það fádæma virðingarleysi að sýna áfengisauglýsingu í kjölfar annars vandaðrar umfjöllunar Kastljóssins um vímuefnavandann í kvöld 30. maí. Einstaklega óviðeigandi, ólöglegt, siðlaust og sýnir í hnotskurn að yfirstjórn RÚV veldur ekki þeirri miklu ábyrgð sem henni er falin,  skilur ekki samfélagslegt hlutverk sitt og tekst ekki að vera öðrum fjölmiðlum verðug fyrirmynd sbr. endalausar birtingar á misgrímulausum áfengisauglýsingum. Þetta er auðvitað ekki við hæfi og mál að linni.

Stjórn foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/afengisauglysing-sem-hluti-vimuefnaumfjollunar/

Augljós réttindi barna og ungmenna

Láttu aðra vita

Ágæti viðtakandi

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna sérstaklega fram komu frumvarpi  innanríkisráðherra og ríkistjórnar Íslands þar sem tekið er á augljósum  útúrsnúningum áfengisframleiðenda á 20 gr. áfengislaga um bann við áfengisauglýsingum. Lögin  snúast um sjálfsögð réttindi barna og ungmenna til þess að vera laus við þann einhliða áróður sem áfengisauglýsingar eru.  Núverandi lög eru siðferðilega skýr, en af einhverjum ástæðum hefur dómskerfið ekki treyst sér til þess að taka með afgerandi hætti  á þeim augljósu lögbrotum og útútsnúningum sem framleiðendur hafa beitt?

Markhópur  áfengisframleiðenda eru börn og ungmenni  eins og dæmin sanna og af þeim sökum er umræða í Evrópu og víðar um auknar takmarkannir og auglýsingabönn.  Hagsmunir framleiðanda fara illa saman við velferðasjónarmið sem og það sjálfssagða  markmið foreldasamfélagsins að halda áfengi frá börnum og ungmennum.  Allur málflutningur sem miðar við lönd hinna lægst gilda og viðmiða í þessum efnum er fyrst og fremst málflutningur hinna ýtrustu hagsmuna- viðskiptasjónarmiða.  Velferðarsjónarmið , vernd barna og unglinga og ekki síst uppeldismarkmið foreldrasamfélagsins vegur mun þyngra, er mun mikilvægara.

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna þessu frumvarpi og hvetja Alþingi  til þess að samþykkja það með afgerandi hætti og sýni þar með hug sinn í verki  gagnvart sjálfsögðum réttindum barna og unglinga til þess að vera laus við  gengdarlausan áfengisáróður.

Virðingarfyllst,

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum

www.foreldrasamtok.is

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/augljos-rettindi-barna-og-ungmenna/

Foreldarsamtök fagna frumvarpi

Láttu aðra vita

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna frumvarpi Innanríkisráðherra um breytingar á 20. grein áfengislaga. Með þeim breytingum sem þar eru lagðar til þykir samtökunum einsýnt að augljósir  útúrsnúningar úr annars siðferðilega skýrum boðskap fyrri laga heyri sögunni til.  Tillögur um fyrirkomulag þ.e.a.s. að fela Neytendastofu eftirlit þessara mála sem og að hækka sektir eru til mikilla bóta.  Réttindi barna og ungmenna til þess að vera laus við áfengisáróður eru lykilatriði þessa máls og þau réttindi ber að virða eins og allt annað í okkar samfélagi sem lýtur að velferð barna og ungmenna.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/foreldarsamtok-fagna-frumvarpi/

Gott framtak hjá umboðsmanni barna

Láttu aðra vita

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna frumkvæði Umboðsmanns barna vegna áfengisauglýsinga innan íþróttahreyfingarinnar. Birtum hér umfjöllun um þetta mál af ágætri heimasíðum UB   www.barn.is

Áfengisauglýsingar íþróttafélaga

Áfengisauglýsingar eiga aldrei rétt á sér á viðburðum sem börn sækja. Hagsmunir barna og unglinga af því að njóta verndar gegn áfengisauglýsingum eiga alltaf að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir íþróttafélaga.

Vegna ábendinga sem bárust umboðsmanni barna í haust vegna áfengisauglýsinga á viðburðum sem haldnir eru á vegum aðildarfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) sem og í tímaritum sem gefin eru út af þeim ákvað umboðsmaður barna að bregðast við með því að senda ÍSÍ bréf til að vekja athygli á málinu og kanna viðbrögð sambandsins. Svar frá ÍSÍ barst nú í byrjun febrúar og er birt neðst á þessari síðu.

Í bréfi umboðsmanns barna til ÍSÍ, dags. 7. janúar 2011, segir:

Annars vegar er um að ræða auglýsingar á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sem Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV) stóð fyrir í ágúst 2010. Á aðalsviðinu í Herjólfsdal var að finna stórar auglýsingar á Tuborg og fóru þær auglýsingar ekki fram hjá neinum sem fylgdist með dagskrá á því sviði. Hins vegar er um að ræða auglýsingar sem birtust í tímaritinu Golf á Íslandi, nánar tiltekið í 4. tbl. 2010. Um var að ræða heilsíðu auglýsingu á Egils Gull öli og hálf síðu auglýsingu á Stellu Artois.

Í öllum tilvikum er um að ræða auglýsingar á „léttöli“ og má því deila um hvort brotið sé gegn 1. mgr. 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Hins vegar er ljóst að um er að ræða auglýsingar sem fara í bága við stefnuyfirlýsingu ÍSÍ frá 2. nóvember 1997 um forvarnir og fíkniefni. Í stefnuyfirlýsingunni eru aðildarfélög hvött til þess að festa í lög sín ákvæði þar sem tekin er einörð afstaða gegn neyslu á áfengi, tóbaki og fíkniefnum. Hvorki Golfsamband Íslands né ÍBV hafa sett slík ákvæði í lög sín. Auk þess má benda á að auglýsingarnar eru ekki í samræmi við 2. gr. reglugerðar ÍSÍ um auglýsingar.

Umboðsmaður barna hefur undanfarin ár vakið athygli á nauðsyn þess að takmarka dulbúnar áfengisauglýsingar með virkum hætti. Bann við áfengisauglýsingum hefur forvarnargildi og er ætlað að draga úr áfengisneyslu. Auglýsingum er almennt ætlað að hafa þann tilgang að hvetja til neyslu og stuðla að jákvæðu viðhorfi til þeirrar vöru sem auglýst er. Umboðsmaður bendir á að stór hluti íþróttaiðkenda eru börn, þ.e. einstaklingar undir 18 ára aldri. Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem á rétt á sérstakri vernd, sbr. m.a. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Börn eru auk þess sérstaklega viðkvæm fyrir allri markaðssetningu og hafa auglýsingar því almennt meiri áhrif á þau en aðra. Áfengisauglýsingar hafa áhrif á viðhorf barna til áfengis og stuðla að aukinni neyslu unglinga. Ljóst er að áfengi hefur ýmis skaðleg áhrif á líffæri og þroska barna. Auk þess er heili ungs fólks ennþá að vaxa og þroskast fram yfir 20 ára aldur. Áfengisneysla á mótunartíma heilans getur því skaðað ákveðnar stöðvar hans fyrir lífstíð. Íþróttafélög spila stóran þátt í uppeldi þeirra barna sem sækja íþróttir. Það samræmist því engan veginn heilsueflandi og uppeldislegu hlutverki íþróttafélaga að hvetja til aukinnar neyslu áfengis.

Umboðsmaður barna vill leggja áherslu á að áfengisauglýsingar eiga aldrei rétt á sér á viðburðum sem börn sækja. Hagsmunir barna og unglinga af því að njóta verndar gegn áfengisauglýsingum eiga alltaf að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir íþróttafélaga, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um að það sem er börnum fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn.

Á undanförnum árum hefur ÍSÍ unnið gott starf varðandi íþróttaiðkun barna og unglinga og ýmis konar forvarnir. Að mati umboðsmanns barna er mikilvægt að ÍSÍ haldi því góða starfi áfram og leitist við að tryggja að aðildarfélög þess séu meðvituð um hlutverk sitt í lífi barna. Umboðsmaður barna hvetur því ÍSÍ að sjá til þess að aðildarfélög þess framfylgi stefnuyfirlýsingu ÍSÍ frá 1997 og taki einarða afstöðu gegn neyslu áfengis, tóbaks og fíkniefna og tryggi að slík efni séu ekki auglýst á vegum þeirra, hvort sem auglýsingarnar eru dulbúnar með léttölsmerkingu eða ekki.

Í ljósi þess sem að framan greinir óskar umboðsmaður barna  eftir upplýsingum um hvernig ÍSÍ framfylgir stefnuyfirlýsingu sinni um forvarnir og fíkniefni og hvernig ÍSÍ tekur á því þegar aðildarfélög þeirra auglýsa áfengi eða léttöl.

Hér má lesa svarbréf frá framkvæmdastjóra ÍSÍ, dags. 1. febrúar 2011, þar sem ÍSÍ greinir frá því að ÍSÍ leggi áherslu á það við sambandsaðila sína að þeir fylgi lögum og taki afstöðu gegn neyslu vímuefna auk þess sem fjallað er um fyrirmyndarfélög ÍSÍ.

Umboðsmaður barna hvetur ÍSÍ til að fylgja þessu máli eftir með virkum hætti með réttindi barna að leiðarljósi.

Hér má lesa umsögn umboðsmanns barna um frumvarp um breytingu á áfengislögum nr. 75/1998, með síðari breytingum, 293. mál en í frumvarpinu er lagt til að 3. mgr. 20. gr. áfengislaga verði breytt þannig að óheimilt verði að auglýsavörur sem hægt er að rugla saman við áfengi, vegna nafns, umbúða eða annarra einkenna.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/gott-framtak-hja-umbo%c3%b0smanni-barna/

Sammála sjálfum sér eða ósammála ?

Láttu aðra vita

Í Fréttablaðinu um daginn var harmsaga, framkvæmdastjóri Ölgerðarinnar bar sig illa vegna ómerkilegra og villandi auglýsinga samkeppnisaðilans Vífilfells. Fréttin var svona:

“Appelsín við fyrstu sýn
Vífilfell setti nýlega á markað nýjan gosdrykk sem ber heitið Hátíðar appelsín.Umbúðirnar eru með svipuðu sniði og Appelsínið frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar, Egils appelsín. Yfir hátíðarnar tíðkast sá siður hér á landi að blanda saman appelsín og Malt Extract, drykkir sem voru fyrst um sinn einungis framleiddir af Ölgerðinni. Ein af auglýsingum fyrirtækisins yfir hátíðarnar ber yfirskriftina: „Ást við fyrstu sýn, Egils malt og appelsín.“ Vífilfell hefur nú tekið vörumerki hins nýja Hátíðar appelsíns skrefinu lengra, þar sem slagorð drykkjarins er: „Þú sérð það strax, við fyrstu sýn, að þetta er Hátíðar appelsín.“ Gunnar B. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Ölgerðarinnar, segist vona að neytendur sjái hversu augljóslegt það sé að verið sé að reyna að plata þá með svo keimlíkri markaðssetningu.
„Samkeppni er vissulega af hinu góða, en neytendur verða að átta sig á því hvað þeir eru að kaupa,“ segir Gunnar. Ölgerðin hefur sett málið í hendur Neytendastofu og eru lögfræðingar þeirra einnig að skoða málið.
„Aðalmálið fyrir okkur er að upplýsa neytendur,“ segir Gunnar.”

Allt eru þetta góð og gild rök og óskandi að ákafi og sterk réttlætiskennd forstjórans gildi einnig í markaðsátaki Ölgerðarinnar (og reyndar Vífilfells einnig) á áfengi t.d. varðandi hinar sk. “léttöls” auglýsingar.  Öll rök forstjórans virka ágætlega gagnvart því og væri því ekki ráð fyrir forstjórann að ganga fram með góðu fordæmi og fara eftir því sem hann segir sjálfur. Nema kannski að viðkomandi “taki Ragnar Reykás á þetta”. Hitt gæti þó orðið öllu verra ef Vífilfell auglýsti “létt” Hátíðarappelsín. Dómkerfið er svakalega svag fyrir slíku og hefur nýtt þetta misnotaða viðskeyti  sem lögfræðilegt skálkaskjól til að vísa frá augljósum lögbrotum  sbr. “létt”öl sem er ekki til í annari mynd en áfengi og hvað þá sem íslenskt hugtak yfir áfengislausa drykki.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/sammala-sjalfum-ser-eda-osammala/

Load more