Áfengisauglýsing sem hluti vímuefnaumfjöllunar !

Láttu aðra vita

Kastljósið hefur staðið sig einstaklega vel undanfarið í umfjöllun um vímuefnavandann. Af mörgu sem vel hefur verið gert í þessum efnum þá er það mat margra að þessi umfjöllun sé með því betra sem hefur sést, bæði það að efnistök eru góð og úrvinnsla vönduð. Með þessari  umfjöllun hefur Kastljósið svo sannarlega staðið undir nafni og tekist að koma af stað umræðu í samfélaginu um hvernig skuli brugðist við þeirri vá sem vímuefni vissulega eru. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og ljóst að þessi markvissa umfjöllun mun hafa í för með sér að allir sem vettlingi geta valdið bregðast við og freista þess að vinna bug á þessum síaukna vanda. Með samstilltu átaki er vissulega hægt að ná árangri eins og dæmin sanna.

Ritstjórn Kastljóss á þakkir skildar fyrir framtakið. Hitt er svo annað mál að yfirstjórn RÚV og auglýsingadeild „Útvarps allra landsmanna“ er algerlega úr takti við samfélagið sbr. það fádæma virðingarleysi að sýna áfengisauglýsingu í kjölfar annars vandaðrar umfjöllunar Kastljóssins um vímuefnavandann í kvöld 30. maí. Einstaklega óviðeigandi, ólöglegt, siðlaust og sýnir í hnotskurn að yfirstjórn RÚV veldur ekki þeirri miklu ábyrgð sem henni er falin,  skilur ekki samfélagslegt hlutverk sitt og tekst ekki að vera öðrum fjölmiðlum verðug fyrirmynd sbr. endalausar birtingar á misgrímulausum áfengisauglýsingum. Þetta er auðvitað ekki við hæfi og mál að linni.

Stjórn foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/afengisauglysing-sem-hluti-vimuefnaumfjollunar/