Umboðsmaður barna bregst við “dulbúnum” áfengisauglýsingum í tengslum við útihátíðir

Láttu aðra vita

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna frumkvæði umboðsmanns barna gagnvart áfengisauglýsingum í tengslum við útihátíðir. Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum berast árlega fjöldi kvartanna af þessum sökum og sorglegt hve margir mótshaldarar eru á siðferðilega lágu plani í þessum efnum og svo hitt hve slælegt eftirlitið er víða . Meðfylgjandi er bréf umboðsmanns barna:

Góðan dag

Með þessu bréfi vill umboðsmaður barna vekja athygli á hagsmunum barna sem sækja munu útihátíðir í sumar og aðrar skemmtanir sem bjóða upp á dagskrá fyrir börn og hvetja forsvarsmenn sveitarfélaga að huga að ábyrgð sinni gagnvart börnum.

Umboðsmaður barna hefur undanfarin ár vakið athygli á nauðsyn þess að takmarka dulbúnar áfengisauglýsingar með virkum hætti. Auglýsingum er almennt ætlað að hafa þann tilgang að hvetja til neyslu og stuðla að jákvæðu viðhorfi til þeirrar vöru sem auglýst er. Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem á rétt á sérstakri vernd, sbr. m.a. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Börn eru auk þess sérstaklega viðkvæm fyrir allri markaðssetningu og hafa auglýsingar því almennt meiri áhrif á þau en aðra. Áfengisauglýsingar hafa þannig áhrif á viðhorf barna til áfengis og stuðla að aukinni neyslu unglinga. Ljóst er að áfengi hefur ýmis skaðleg áhrif á líffæri, þroska og almenna velferð barna.

Umboðsmaður barna vill því leggja áherslu á að áfengis- og léttölsauglýsingar eiga aldrei rétt á sér á viðburðum sem börn sækja. Hagsmunir barna og unglinga af því að njóta verndar gegn áfengisauglýsingum eiga alltaf að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem standa að viðburðum sem ætlaðir eru fjölskyldufólki, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um að það sem er börnum fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn.

Afrit af þessum tölvupósti er sent öllum lögreglustjórum og sýslumönnum.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/umbodsmadur-barna-bregst-vid-dulbunum-afengisauglysingum-i-tengslum-vid-utihatidir/