Previous Next

Með lögum skal land byggja – láttu vita af lögbrotum

Láttu aðra vita

Hér hægra megin á síðunni er með einföldum hætti hægt að senda inn ábendingar um brot á banni við áfengisauglýsingum. Formið er einfalt og  tilkynning berst viðkomandi lögregluyfirvöldum fljótt og skilmerkilega. Margir hafa notfært sér þetta sem er hið besta mál.

Það er einnig mögulegt að senda okkur ábendingar um brot sem við komum áfram í nafni Foreldrasamtakanna. Það er margir sem notfæra sér þessa leið.  Í slíkum tilfellum er hægt að senda ábendingu til okkar í póstfangið foreldrasamtok@foreldrasamtok.is merkt “Ábending”.  Æskilegt er að með ábendingum fylgi rafræn gögn s.s. myndir, myndskeið og eða  annað sem sýnir brotið sé þess kostur.  Í þeim tilfellum sem slíku er ekki að skipta þá nægir að senda okkur lýsingu.  Dæmi  um slíkt væri: Xx auglýsing í sjónvarps/útvarpsstöðinni x  12 janúar 2011  klukkan xx í þættinum x .

Láttu þig málið varða – láttu vita af augljósum lögbrotum – Með lögum skal land byggja

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/med-logum-skal-land-byggja-lattu-vita-af-logbrotum/

Áfengisauglýsingar og HM í knattspyrnu

Láttu aðra vita

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður skrifar athyglisverðan pistill á heimasíðu sína sjá: http://blog.eyjan.is/sigurgeirorri/2010/08/26/kauptu-lettolid-okkar/

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/afengisauglysingar-og-hm-i-knattspyrnu/

Hvenær á að bregðast við þessum ósóma?

Láttu aðra vita

Agnes Bragdóttir blaðamaður á MBL spyr með réttu.  Hvenær á að bregðast við þessum ósóma? Greinin sem birtist í Sunnudags Mogganum 24. júlí fjallar m.a.  um auglýsingar í RÚV í tengslum við íþróttakappleiki.  Í niðurlagi greinarinnar segir Agnes:

“…Hitt atriðið, sem pirraði mig óumræðilega og beinist að auglýsendum, var að í kringum beinar útsendingar RÚV á leikjunum, birtist, ég veit ekki hvað oft, auglýsing frá danska bjórframleiðandanum Carlsberg mikið sjónarspil frá leikstúku í Danmörku, með fylgitextanum: »Þetta kallar á Carlsberg.« Flestir áhorfendur að þessum leikjum voru sjálfsagt ungmenni og margir undir lögaldri. Áfengisauglýsingar eru bannaðar í öllum fjölmiðlum á Íslandi, en samt sem áður leyfa Carlsberg og RÚV sér í sameiningu birtingu sem þessa, þar sem markhópurinn er augljóslega unga fólkið. Hvenær á að bregðast við þessum ósóma?”

Orði í tíma töluð og undarlegt umburðarlyndi gagnvart þessum augljósu brotum.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/hvenaer-a-ad-bregdast-vid-thessum-osoma/

Sniðgöngum

Láttu aðra vita

Velferðarsjónarmið og vernd barna og unglinga eru lykilatriði hvað varðar bann við áfengisauglýsingum.  Þrátt fyrir þessa augljósu staðreynd þá virða áfengisframleiðendur og salar lögin að vettugi.  Nú hefur færst í vöxt að auglýstar séu augljósar eftirlíkingar af áfengi og gjarnan án nokkurs samhengis er  orðinu „léttöl“  skeytt við  þó svo að viðkomandi fyrirtæki leggi ekki nokkra áherslu á slíka framleiðslu ef hún er þá yfir höfuð framleidd eða fáanleg.

Sem fyrr er markhópur auglýsenda  börn og unglingar.  Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum  velta fyrir sér hvort fólki þyki við hæfi að eiga viðskipti við fyrirtæki sem virða ekki  sjálfsögð og lögvarin réttindi barna og ungmenna til að vera laus við áfengisáróður,  fyrirtæki sem hvorki virða siðferðileg eða lagaleg mörk.  Slíkt er auðvitað ekki til hæfi og skora Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum  á alla þá sem bera velferð æskunnar fyrir brjósti að sniðganga viðskipti við slík fyrirtæki.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/snidgongum/

Athyglisverð grein – Þarf að vernda ungmenni?

Láttu aðra vita

Sigurður Ragnarsson Lektor í viðskiptadeild Viðskiptaháskólans Bifröst. skrifaði þessa athyglisverðu grein árið 2004.  Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember 2004 og má einnig finna á vef  Háskólans í Bifröst (http://www.bifrost.is/sidur/frettasidur/i-umraedunni/nr/18172/) .

“Þarf að vernda ungmenni okkar fyrir áfengisauglýsingum?

Nokkrar umræður hafa átt sér stað undanfarið varðandi áhrif áfengisauglýsinga og hafa aðallega snúist um hvort þessar auglýsingar hafi skaðleg áhrif í þá veru að auka heildarneyslu áfengis og/eða stuðli að aukinni misnotkun áfengis.  Ég ætla að skoða þetta sérstaklega með tilliti til áhrifa á börn og unglinga.

Þeir sem segja áhrifin skaðleg telja að áfengisauglýsingar hvetji til neyslu áfengis, að þær leiði til meiri neyslu eða að neysla hefjist fyrr en ella vegna auglýsinganna.  Þess vegna vilja þessir sömu aðilar að lögum vegna áfengisauglýsinga hér á landi verði framfylgt og benda á að í dag séu ýmsar leiðir farnar til að komast hjá því að fara eftir lögum.  Þeir sem telja þessar auglýsingar ekki skaðlegar telja að þær hvorki auki neyslu né stuðli að því að neysla hefjist fyrr.  Það sé takmark auglýsenda með auglýsingunum að ná hærri markaðshlutdeild og þá á kostnað samkeppnisaðila.  Sumsé, fólk kaupi sér eftir sem áður jafn mikið áfengi, hvort sem auglýst er eður ei.

Ljóst er að þrátt fyrir að nefnt hafi verið í umræðunni að rannsóknir sanni að auglýsingar á áfengi hafi ekki neikvæð áhrif á neyslu ungmenna, þá má ljóst vera að slíkar fullyrðingar standast ekki.   Bandarísku læknasamtökin, American Medical Association, hafa t.a.m. kynnt rannsóknir þar sem niðurstöðurnar eru þær að auglýsingar geti haft neikvæð áhrif á börn og unglinga og að þessir hópar séu líklegri til að neyta áfengis vegna áfengisauglýsinga.

Annað mikilvægt atriði sem þarf að hafa í huga er að tilgangur auglýsinga er ekki alltaf að selja strax.  Markmiðið getur t.a.m. verið að vekja áhuga og breyta viðhorfi þeirra sem auglýsingum er beint að.  Þess vegna mætti alveg líta þannig á að áfengisauglýsingum sem beint er til ungmenna sé ætlað að hafa áhrif á viðhorf þeirra til drykkju.  Kannski leiðir það hinsvegar ekki samstundis til meiri neyslu.  Victor Strasburger, prófessor við University of New Mexico, fjallar m.a. annars um í grein frá 2002 að margar rannsóknir hafi skoðað sérstaklega áhrif auglýsinga á börn og unglinga.  Hann fullyrðir að næstum allar þær rannsóknir hafi sýnt fram á að auglýsingar hafi haft mikil áhrif í þá veruna að auka vitund um auglýsta vöru, að leiða til tilfinningalegra viðbragða við auglýstri vöru, að auka þekkingu á ákveðnum vörum eða vörumerkjum og að leiða til löngunar til að eiga eða nota auglýstar vöru.

Ennfremur, Austin og Knaus birtu árið 2000,  í Journal of Health Communication, þær niðurstöður að áfengisauglýsingar og annað kynningarefni hefði áhrif á börn og unglinga í þá veruna að hafa forspárgildi um áfengisneyslu á unglingsárum.  Úrtakið samanstóð af  grunnskólanemum í þriðja, sjötta og níunda bekk í Washington fylki í Bandaríkjunum.  Önnur rannsókn, birt 1998, var framkvæmd yfir 18 mánaða tímabil og náði til 1.500 níundubekkinga í San Jose í Kalíforníu í Bandaríkjunum. Niðurstöður voru þær að áhorf á sjónvarp og tónlistarmyndbönd hafði veruleg áhrif á hvenær drykkja ungmennana hófst.  Það er ekki óvarlegt að álykta að áfengisauglýsingar sem og fyrirmyndir í tónlistarmyndböndum hafi þar haft áhrif.  Það er t.d. ólíklegt að veðurfregnir í sjónvarpi hafi haft þessi áhrif.

Henry Saffer, prófessor í hagfræði við Kean University í Bandaríkjunum, hefur framkvæmt viðamiklar rannsóknir á áhrifum áfengis- og tóbaksauglýsinga.  Meðal niðurstaðna er að bann við áfengisauglýsingum getur dregið úr drykkju ungmenna og að auglýsingar sem hafa það markmið að draga úr drykkju ungmenna hafa áhrif í þá veru að minnka heildarneyslu þessa hóps.  Reyndar eru niðurstöður Saffer þær að í þeim löndum þar sem er bann við áfengisauglýsingum sé áfengisneysla 16% minni en í löndum þar sem áfengisauglýsingar eru leyfðar.

Það er athyglisvert að velta síðan fyrir sér fullyrðingum um að áfengisauglýsingar hafi ekki áhrif á heildar eftirspurn áfengis.  Þar má spyrja sig með hvaða hætti framleiðendur og söluaðilar áfengis skilgreini sinn markað.  Það er m.a. þekkt að framleiðandi ákveðins gosdrykkjar telur sig ekki eingöngu í samkeppni við aðra gosdrykki heldur í samkeppni við nánast allt sem við drekkum og þ.m.t. vatn.  Því mætti alveg ætla að framleiðendur áfengis gætu skilgreint sig með svipuðum hætti og teldu sig í samkeppni við tiltekna óáfenga drykki.  Ef það er raunin er ljóst að áfengisauglýsingum er ætlað að auka eftirspurn eftir áfengi, og þá á kostnað annarra óáfengra drykkja.  Sala á áfengi hefur jú aukist mikið síðasta áratuginn og það hlýtur að segja okkur eitthvað.

Það er auðvitað ekki hægt að kenna auglýsingum eða kynningum á áfengi alfarið um aukna drykkju.  Þar spila ótal margir þættir inn í og margir þeirra hafa miklu meiri áhrif en áfengisauglýsingar.  Hinsvegar, er ekki hægt að neita því að áfengisauglýsingar geta haft neikvæð áhrif í samfélaginu og þ.m.t. á ungmenni okkar.  Það að til séu rannsóknir sem benda á að áfengisauglýsingar hafi ekki neikvæð áhrif, leyfir okkur ekki að hafa að engu þær rannsóknir sem benda til hins gagnstæða, rannsóknir sem eru unnar af virtum fræðimönnum og fagfólki.

Sigurður Ragnarsson Lektor í viðskiptadeild Viðskiptaháskólans Bifröst. Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember 2004.”

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/athyglisverd-grein-tharf-ad-vernda-ungmenni/

Markaðsmanni ofbýður – sjónvarpsþátturinn Alkemistinn

Láttu aðra vita

Sjónvarpsþátturinn Alkemistinn á sjónvarpsstöðinni INN fjallaði um áfengisauglýsingar um daginn – umfjöllun og efnistök voru með þeim hætti að mörgum reyndum markaðsmanninum ofbauð málflutningurinn. Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum  barst afrit að af pósti sem reyndur markaðsmaður sendi   umsjónarmanni þáttarins.

“Sæll Viðar, vona að það sé í lagi að ég sendi þér línu varðandi þáttinn um áfengisauglýsingar og bann við þeim í Alkemistanum.

Svo því sé haldið til haga þá hef ég í 20 ár stjórnað markaðsmálum á Íslandi fyrir vörumerki eins og Nike og Spalding sem og gleraugnadeildir Calvin Klein, Fendi, Michael Kors o.fl.

Ég tel þetta upp því ég ég tel mig markaðsþenkjandi og það kom oft upp í þessum þætti setningin ?…eins og allt markaðsþenkjandi fólk veit…?

Mér finnst ávallt skrítið þegar fólk heldur því fram að auglýsingar séu neysluhamlandi. Það gengur gegn öllum lögmálum markaðsfræðinnar a.m.k. þeirrar sem ég hef lært í námi og starfi.

Í þessum þætti kvartaði viðmælandi yfir því að nú skekktist samkeppnisstaðan af því að innlendir aðilar mættu ekki auglýsa en fór svo í næsta orði að segja frá því hvernig auglýsingar hafa hamlandi áhrif á neyslu.

Er þá ekki bara hið besta mál að auglýsa ekki og leyfa þá erlendu aðilunum, sem greinilega hafa ekki kynnt sér þessa visku í þaula, að grafa sér sína eigin gröf?

Könnunin sem vísað er í sýnir að sögn að þar sem áfengisauglýsingar séu bannaðar sé neyslan meiri og/eða aukist en sé minni og/eða minnki þar sem leyft er að auglýsa.

Að fullyrða að þetta sýni svart á hvítu að auglýsingar minnki neyslu er alveg ótrúleg einföldun.

Það er svo ótalmargt annað sem getur haft áhrif eftir afmörkuðum svæðum, t.d. þjóðfélagsástand almennt verra á þeim stað sem auglýsingar eru bannaðar, lífsgæði þar minni, meira þunglyndi; fólk sækir auðvitað í áfengi af óteljandi mismunandi ástæðum.

Svo eru tengslin á milli minni eyðslu í auglýsingar og meiri neyslu: það er einnig ótrúlega mikil einföldun að setja þarna samasemmerki; á sama hátt getur kreppuástand gert það að verkum að fyrirtæki hafi minni peninga til að auglýsa en þessi sama kreppa gert það að verkum að fólk sæki meira í áfengi (og aðra vímugjafa hugsanlega).

Eins og ?allt markaðsþenkjandi fólk veit? eru auglýsingar gerðar til þess að auka neyslu og skapa ímynd sem selur.

Þessi bransi, eins og allur annar bransi, vinnur og hefur unnið að því öllum árum að gera það kúl að drekka, t.d. einn kaldan með grillinu, með fótboltaleiknum o.s.frv.

Ef þessi stóri sannleikur er hins vegar að koma fram að áfengisauglýsingar minnki neyslu þá hljóta allir markaðsþenkjandi mennirnir hjá stóru fyrirtækjunum úti að klossbremsa allar auglýsingar hið snarasta ekki satt?

Með bestu kveðju,

Björn Leifur Þórisson. “

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/markadsmanni-ofbydur-sjonvarpsthatturinn-alkemistinn/

Load more