Previous Next

Foreldarsamtök fagna frumvarpi

Láttu aðra vita

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna frumvarpi Innanríkisráðherra um breytingar á 20. grein áfengislaga. Með þeim breytingum sem þar eru lagðar til þykir samtökunum einsýnt að augljósir  útúrsnúningar úr annars siðferðilega skýrum boðskap fyrri laga heyri sögunni til.  Tillögur um fyrirkomulag þ.e.a.s. að fela Neytendastofu eftirlit þessara mála sem og að hækka sektir eru til mikilla bóta.  Réttindi barna og ungmenna til þess að vera laus við áfengisáróður eru lykilatriði þessa máls og þau réttindi ber að virða eins og allt annað í okkar samfélagi sem lýtur að velferð barna og ungmenna.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/foreldarsamtok-fagna-frumvarpi/

Gott framtak hjá umboðsmanni barna

Láttu aðra vita

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna frumkvæði Umboðsmanns barna vegna áfengisauglýsinga innan íþróttahreyfingarinnar. Birtum hér umfjöllun um þetta mál af ágætri heimasíðum UB   www.barn.is

Áfengisauglýsingar íþróttafélaga

Áfengisauglýsingar eiga aldrei rétt á sér á viðburðum sem börn sækja. Hagsmunir barna og unglinga af því að njóta verndar gegn áfengisauglýsingum eiga alltaf að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir íþróttafélaga.

Vegna ábendinga sem bárust umboðsmanni barna í haust vegna áfengisauglýsinga á viðburðum sem haldnir eru á vegum aðildarfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) sem og í tímaritum sem gefin eru út af þeim ákvað umboðsmaður barna að bregðast við með því að senda ÍSÍ bréf til að vekja athygli á málinu og kanna viðbrögð sambandsins. Svar frá ÍSÍ barst nú í byrjun febrúar og er birt neðst á þessari síðu.

Í bréfi umboðsmanns barna til ÍSÍ, dags. 7. janúar 2011, segir:

Annars vegar er um að ræða auglýsingar á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sem Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV) stóð fyrir í ágúst 2010. Á aðalsviðinu í Herjólfsdal var að finna stórar auglýsingar á Tuborg og fóru þær auglýsingar ekki fram hjá neinum sem fylgdist með dagskrá á því sviði. Hins vegar er um að ræða auglýsingar sem birtust í tímaritinu Golf á Íslandi, nánar tiltekið í 4. tbl. 2010. Um var að ræða heilsíðu auglýsingu á Egils Gull öli og hálf síðu auglýsingu á Stellu Artois.

Í öllum tilvikum er um að ræða auglýsingar á „léttöli“ og má því deila um hvort brotið sé gegn 1. mgr. 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Hins vegar er ljóst að um er að ræða auglýsingar sem fara í bága við stefnuyfirlýsingu ÍSÍ frá 2. nóvember 1997 um forvarnir og fíkniefni. Í stefnuyfirlýsingunni eru aðildarfélög hvött til þess að festa í lög sín ákvæði þar sem tekin er einörð afstaða gegn neyslu á áfengi, tóbaki og fíkniefnum. Hvorki Golfsamband Íslands né ÍBV hafa sett slík ákvæði í lög sín. Auk þess má benda á að auglýsingarnar eru ekki í samræmi við 2. gr. reglugerðar ÍSÍ um auglýsingar.

Umboðsmaður barna hefur undanfarin ár vakið athygli á nauðsyn þess að takmarka dulbúnar áfengisauglýsingar með virkum hætti. Bann við áfengisauglýsingum hefur forvarnargildi og er ætlað að draga úr áfengisneyslu. Auglýsingum er almennt ætlað að hafa þann tilgang að hvetja til neyslu og stuðla að jákvæðu viðhorfi til þeirrar vöru sem auglýst er. Umboðsmaður bendir á að stór hluti íþróttaiðkenda eru börn, þ.e. einstaklingar undir 18 ára aldri. Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem á rétt á sérstakri vernd, sbr. m.a. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Börn eru auk þess sérstaklega viðkvæm fyrir allri markaðssetningu og hafa auglýsingar því almennt meiri áhrif á þau en aðra. Áfengisauglýsingar hafa áhrif á viðhorf barna til áfengis og stuðla að aukinni neyslu unglinga. Ljóst er að áfengi hefur ýmis skaðleg áhrif á líffæri og þroska barna. Auk þess er heili ungs fólks ennþá að vaxa og þroskast fram yfir 20 ára aldur. Áfengisneysla á mótunartíma heilans getur því skaðað ákveðnar stöðvar hans fyrir lífstíð. Íþróttafélög spila stóran þátt í uppeldi þeirra barna sem sækja íþróttir. Það samræmist því engan veginn heilsueflandi og uppeldislegu hlutverki íþróttafélaga að hvetja til aukinnar neyslu áfengis.

Umboðsmaður barna vill leggja áherslu á að áfengisauglýsingar eiga aldrei rétt á sér á viðburðum sem börn sækja. Hagsmunir barna og unglinga af því að njóta verndar gegn áfengisauglýsingum eiga alltaf að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir íþróttafélaga, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um að það sem er börnum fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn.

Á undanförnum árum hefur ÍSÍ unnið gott starf varðandi íþróttaiðkun barna og unglinga og ýmis konar forvarnir. Að mati umboðsmanns barna er mikilvægt að ÍSÍ haldi því góða starfi áfram og leitist við að tryggja að aðildarfélög þess séu meðvituð um hlutverk sitt í lífi barna. Umboðsmaður barna hvetur því ÍSÍ að sjá til þess að aðildarfélög þess framfylgi stefnuyfirlýsingu ÍSÍ frá 1997 og taki einarða afstöðu gegn neyslu áfengis, tóbaks og fíkniefna og tryggi að slík efni séu ekki auglýst á vegum þeirra, hvort sem auglýsingarnar eru dulbúnar með léttölsmerkingu eða ekki.

Í ljósi þess sem að framan greinir óskar umboðsmaður barna  eftir upplýsingum um hvernig ÍSÍ framfylgir stefnuyfirlýsingu sinni um forvarnir og fíkniefni og hvernig ÍSÍ tekur á því þegar aðildarfélög þeirra auglýsa áfengi eða léttöl.

Hér má lesa svarbréf frá framkvæmdastjóra ÍSÍ, dags. 1. febrúar 2011, þar sem ÍSÍ greinir frá því að ÍSÍ leggi áherslu á það við sambandsaðila sína að þeir fylgi lögum og taki afstöðu gegn neyslu vímuefna auk þess sem fjallað er um fyrirmyndarfélög ÍSÍ.

Umboðsmaður barna hvetur ÍSÍ til að fylgja þessu máli eftir með virkum hætti með réttindi barna að leiðarljósi.

Hér má lesa umsögn umboðsmanns barna um frumvarp um breytingu á áfengislögum nr. 75/1998, með síðari breytingum, 293. mál en í frumvarpinu er lagt til að 3. mgr. 20. gr. áfengislaga verði breytt þannig að óheimilt verði að auglýsavörur sem hægt er að rugla saman við áfengi, vegna nafns, umbúða eða annarra einkenna.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/gott-framtak-hja-umbo%c3%b0smanni-barna/

Sammála sjálfum sér eða ósammála ?

Láttu aðra vita

Í Fréttablaðinu um daginn var harmsaga, framkvæmdastjóri Ölgerðarinnar bar sig illa vegna ómerkilegra og villandi auglýsinga samkeppnisaðilans Vífilfells. Fréttin var svona:

“Appelsín við fyrstu sýn
Vífilfell setti nýlega á markað nýjan gosdrykk sem ber heitið Hátíðar appelsín.Umbúðirnar eru með svipuðu sniði og Appelsínið frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar, Egils appelsín. Yfir hátíðarnar tíðkast sá siður hér á landi að blanda saman appelsín og Malt Extract, drykkir sem voru fyrst um sinn einungis framleiddir af Ölgerðinni. Ein af auglýsingum fyrirtækisins yfir hátíðarnar ber yfirskriftina: „Ást við fyrstu sýn, Egils malt og appelsín.“ Vífilfell hefur nú tekið vörumerki hins nýja Hátíðar appelsíns skrefinu lengra, þar sem slagorð drykkjarins er: „Þú sérð það strax, við fyrstu sýn, að þetta er Hátíðar appelsín.“ Gunnar B. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Ölgerðarinnar, segist vona að neytendur sjái hversu augljóslegt það sé að verið sé að reyna að plata þá með svo keimlíkri markaðssetningu.
„Samkeppni er vissulega af hinu góða, en neytendur verða að átta sig á því hvað þeir eru að kaupa,“ segir Gunnar. Ölgerðin hefur sett málið í hendur Neytendastofu og eru lögfræðingar þeirra einnig að skoða málið.
„Aðalmálið fyrir okkur er að upplýsa neytendur,“ segir Gunnar.”

Allt eru þetta góð og gild rök og óskandi að ákafi og sterk réttlætiskennd forstjórans gildi einnig í markaðsátaki Ölgerðarinnar (og reyndar Vífilfells einnig) á áfengi t.d. varðandi hinar sk. “léttöls” auglýsingar.  Öll rök forstjórans virka ágætlega gagnvart því og væri því ekki ráð fyrir forstjórann að ganga fram með góðu fordæmi og fara eftir því sem hann segir sjálfur. Nema kannski að viðkomandi “taki Ragnar Reykás á þetta”. Hitt gæti þó orðið öllu verra ef Vífilfell auglýsti “létt” Hátíðarappelsín. Dómkerfið er svakalega svag fyrir slíku og hefur nýtt þetta misnotaða viðskeyti  sem lögfræðilegt skálkaskjól til að vísa frá augljósum lögbrotum  sbr. “létt”öl sem er ekki til í annari mynd en áfengi og hvað þá sem íslenskt hugtak yfir áfengislausa drykki.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/sammala-sjalfum-ser-eda-osammala/

Ríkissaksóknari – hvílík lausatök í augljósu máli !

Láttu aðra vita

Embætti ríkissaksóknara fellir niður rannsókn á áfengisauglýsingum á Þjóðhátíð í Eyjum 2010?

Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum bárust fjöldi ábendinga um áfengisauglýsingar í tengslum við hátíðina. Ábendingum var komið á framfæri við sýslumanninn í Vestmanneyjum sem sá enga ástæðu til aðgerða? Vakti mikla undrun Foreldrasamtakanna enda í hróplegu ósamræmi við þær upplýsingar sem við höfum frá fjölda fólks sem þarna var statt og hefur sent okkur ábendingar. Annað varðandi þessa meintu rannsókn er hæfi þess lögreglumanns sem f.h. sýslumanns rannsakaði málið en viðkomandi er félagsmaður og fyrrum leikmaður ÍBV sem er aðili að hátíðinni. Það sem síðan gerir málið öllu verra er að ríkissaksóknari gerir, eftir áfrýjun af hálfu Foreldarsamtaka gegn áfengisauglýsingum, álit viðkomandi að sínu sbr meðfylgjandi bréf. Foreldarsamtök gegn áfengisauglýsingum íhuga stjórnsýslukæru af þessu tilefni enda með ólíkindum hvers lags lausatök hafa verið viðhöfð að hálfu viðkomandi embætta í eins augljósu máli og hér um ræðir.

Fyrstu viðbrögð Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum var eftirfarandi póstur til embættis ríkissaksóknara

“Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum undrast þessa niðurstöðu embættisins vegna áfengisauglýsinga á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 2010. Það liggja fyrir vitnisburðir fjölda fólks um áfengisauglýsingar út um allt svæðið m.a . skjáauglýsingar sem voru skýlaus brot á 20 gr. áfengisalaga, auglýsingum þar sem í engu var hirt um að koma þessu orðskrípi „léttöl“ fyrir. Hitt er svo annað mál að orðið léttöl, í illlæsilegu og smáu letri, oft nánast samlitu bakgrunni, séu talin gild rök til frávísunar máls, en ekki meðhöndlaður sem augljós og saknæmur útúrsnúningur á 20 gr. áfengislaga þar sem m.a.segir: „enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.“ Þessi tiltekni framleiðandi leggur akkúrat enga áherslu á að selja þetta „léttöl „ enda er það í besta falli illfáanlegt. Öll framsetning auglýsinganna, myndmál, letur, litir og orðfæri vísa til hinnar áfengu framleiðslu.
Hugtakið „Léttöl“ er auki þess hvergi skilgreint sem sérstakt íslenskt hugtak yfir óáfenga drykki nema hjá áfengisframleiðendum, lögreglustjóraembættum, ríkissaksóknara og dómskerfinu og sorglegt það skuli í þeim skilningi vera orðið lögfræðilegt skálkaskjól . Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum skora á embættið að endurskoða þessa afstöðu sína enda ljóst að einungis var tekið á tilteknum atriðum og hluta þeirra brot sem þarna voru framin og málavextir fjarri því kannaðir til hlítar.

f.h Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum.
Árni Guðmundsson
formaður

Afengisauglýsingar -thjohatið Vestmannaeyjum

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/rikissaksoknari-hvilik-lausatok-i-augljosu-mali/

Áfengiskaup foreldra viðbót við aðra drykkju

Láttu aðra vita

Þetta athyglisverða viðtal birtist í Morgunblaðinu

Andri Karl andri@mbl.is

Sú hugmynd að foreldrar geti komið í veg fyrir neikvæðar afleiðingar áfengisneyslu með því að kaupa áfengi fyrir börn sín á ekki við nein rök að styðjast. Þetta segir Kjartan Ólafsson, lektor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri. Þau ungmenni sem keypt er fyrir eru líklegri til að drekka meira og lenda í vandræðum.

Kjartan hélt erindi á ráðstefnu um íslenskar æskulýðsrannsóknir í gærmorgun. Fjallaði hann um uppruna áfengis sem unglingar drekka og tengsl við drykkjumynstur þeirra. „Ég skoðaði fyrst og fremst hvort foreldrar geti komið í veg fyrir að unglingarnir drekki heimabrugg, smyglað áfengi eða álíka, með því að kaupa áfengi fyrir þá sjálfir. Meginniðurstaðan er sú, að það virkar ekki þannig. Ungmenni sem eiga foreldra sem kaupa fyrir þau áfengi eru einnig líklegri til að fá áfengi eftir öðrum leiðum,“ segir Kjartan en könnunin beindist að nemendum í tíunda bekk grunnskóla, þ.e. 15-16 ára unglingum.

Lenda í vandræðum

Af þeim ungmennum sem höfðu einhvern tíma orðið drukkin árið á undan voru 13% sem áttu foreldra sem keypt höfðu fyrir þau áfengi. Langalgengast var hins vegar að unglingarnir kæmust yfir áfengi í gegnum vinskap, t.d. að einhver eldri færi í Vínbúðina fyrir þá. Um þrjátíu prósent þeirra sem höfðu orðið ölvuð drukku heimabruggað áfengi.

Ekki nóg með að þau ungmenni sem fengið höfðu áfengi hjá foreldrum sínum drykkju meira heldur voru þau mun líklegri til að lenda í alls kyns vandræðum. „Viðkomandi unglingar voru fjór- til fimmfalt líklegri til að lenda á slysadeild vegna drykkjunnar, tvöfalt líklegri til að lenda í slagsmálum og þrefalt líklegra var að einhverju hefði verið stolið af þeim vegna drykkjunnar. Það eru því allar tegundir vandræða sem ungmennin í hópnum sem foreldrar keyptu áfengi fyrir voru líklegri til að lenda í.“

Áhugavert fyrir foreldra

Að mati Kjartans er hugsanlegt að það séu þau skilaboð sem foreldrarnir senda börnunum sínum sem hafi þessi áhrif. „Ekki er hægt að segja að ungmennin drekki meira eða lendi í vandræðum vegna þess að áfengi er keypt fyrir þau. En með því að kaupa fyrir þau áfengi eru foreldrarnir að viðurkenna að það sé hluti af þeirra lífi að drekka áfengi. Það eru mjög sterk skilaboð og leiðir hugsanlega til þess að unglingarnir drekka meira og lendi því frekar í vandræðum.“

Kjartan segir að niðurstöðurnar ættu að vera mjög áhugverðar fyrir foreldra sem velta fyrir sér hvort ekki sé betra að kaupa sjálf áfengi fyrir börn sín en að þau nálgist það eftir öðrum leiðum. „Þeir krakkar eru líklegri til að ná sér í áfengi eftir öllum öðrum leiðum. Líklegri til að fá einhvern til að kaupa fyrir sig og drekka heimabrugg. Það sem foreldrarnir kaupa virðist vera lagt í púkkið.“

Æskulýðsrannsóknir
» Kjartan studdist við evrópsku vímuefnakönnunina sem Ísland hefur verið aðili að frá upphafi, árinu 1995.
» Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og Æskulýðsráð í samvinnu við Tómstunda- og félagsmálafræðibraut Menntavísindasviðs Háskóla Íslands stóðu að ráðstefnunni í gærmorgun.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/afengiskaup-foreldra-vi%c3%b0bot-vi%c3%b0-a%c3%b0ra-drykkju/

Frábært framtak ráðherranna

Láttu aðra vita

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna frumkvæði ráðherra heilbrigðis- og dómsmála um að skerpa verulega á 20. grein áfengislaga um bann við áfengisauglýsingum. Þó svo að lögin sé að mati flestra afar skýr og ekki síst hinn siðferðilegi boðskapur laganna þá hafa mörg fyrirtæki virt slíkt að vettugi og farið fram með þeim hætti í áfengisauglýsingum að flestu fólki ofbýður. Markhópur áfengisauglýsenda eru  börn og ungmenni eins og dæmin sanna, sem gengur algerlega þvert að markmið foreldrasamfélagsins sem er m.a. að halda grunnskólanum vímuefnalausum og draga almennt úr neyslu áfengis meðal barna og unglinga.

Bann gegn áfengisauglýsingum snýst um vernd barna og ungmenna og rétt þeirra til þess að vera laus við eins ómerkilegt áreiti  og áfengisauglýsingar eru. Lögin snúast því um velferð æskunnar og réttindi hennar fremur en ítrustu viðskiptasónarmiða áfengisframleiðenda og sala.

Ráðherrarnir Álfheiður Ingadóttir og Ragna Árnadóttir og Ríkisstjórn Íslands hafa með boðuðum breytingum í formi frumvarps á haustþingi sýnt afar gott fordæmi og ekki síst í verki tekið einarða afstöðu með sjálfsögðum réttindum barna og ungmenna. Þessu ber að fagna og það er von Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum að vel takist til.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/frab%c3%a6rt-framtak-ra%c3%b0herranna/

Load more