Frábært framtak ráðherranna

Láttu aðra vita

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna frumkvæði ráðherra heilbrigðis- og dómsmála um að skerpa verulega á 20. grein áfengislaga um bann við áfengisauglýsingum. Þó svo að lögin sé að mati flestra afar skýr og ekki síst hinn siðferðilegi boðskapur laganna þá hafa mörg fyrirtæki virt slíkt að vettugi og farið fram með þeim hætti í áfengisauglýsingum að flestu fólki ofbýður. Markhópur áfengisauglýsenda eru  börn og ungmenni eins og dæmin sanna, sem gengur algerlega þvert að markmið foreldrasamfélagsins sem er m.a. að halda grunnskólanum vímuefnalausum og draga almennt úr neyslu áfengis meðal barna og unglinga.

Bann gegn áfengisauglýsingum snýst um vernd barna og ungmenna og rétt þeirra til þess að vera laus við eins ómerkilegt áreiti  og áfengisauglýsingar eru. Lögin snúast því um velferð æskunnar og réttindi hennar fremur en ítrustu viðskiptasónarmiða áfengisframleiðenda og sala.

Ráðherrarnir Álfheiður Ingadóttir og Ragna Árnadóttir og Ríkisstjórn Íslands hafa með boðuðum breytingum í formi frumvarps á haustþingi sýnt afar gott fordæmi og ekki síst í verki tekið einarða afstöðu með sjálfsögðum réttindum barna og ungmenna. Þessu ber að fagna og það er von Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum að vel takist til.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/frab%c3%a6rt-framtak-ra%c3%b0herranna/