Ríkissaksóknari – hvílík lausatök í augljósu máli !

Láttu aðra vita

Embætti ríkissaksóknara fellir niður rannsókn á áfengisauglýsingum á Þjóðhátíð í Eyjum 2010?

Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum bárust fjöldi ábendinga um áfengisauglýsingar í tengslum við hátíðina. Ábendingum var komið á framfæri við sýslumanninn í Vestmanneyjum sem sá enga ástæðu til aðgerða? Vakti mikla undrun Foreldrasamtakanna enda í hróplegu ósamræmi við þær upplýsingar sem við höfum frá fjölda fólks sem þarna var statt og hefur sent okkur ábendingar. Annað varðandi þessa meintu rannsókn er hæfi þess lögreglumanns sem f.h. sýslumanns rannsakaði málið en viðkomandi er félagsmaður og fyrrum leikmaður ÍBV sem er aðili að hátíðinni. Það sem síðan gerir málið öllu verra er að ríkissaksóknari gerir, eftir áfrýjun af hálfu Foreldarsamtaka gegn áfengisauglýsingum, álit viðkomandi að sínu sbr meðfylgjandi bréf. Foreldarsamtök gegn áfengisauglýsingum íhuga stjórnsýslukæru af þessu tilefni enda með ólíkindum hvers lags lausatök hafa verið viðhöfð að hálfu viðkomandi embætta í eins augljósu máli og hér um ræðir.

Fyrstu viðbrögð Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum var eftirfarandi póstur til embættis ríkissaksóknara

“Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum undrast þessa niðurstöðu embættisins vegna áfengisauglýsinga á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 2010. Það liggja fyrir vitnisburðir fjölda fólks um áfengisauglýsingar út um allt svæðið m.a . skjáauglýsingar sem voru skýlaus brot á 20 gr. áfengisalaga, auglýsingum þar sem í engu var hirt um að koma þessu orðskrípi „léttöl“ fyrir. Hitt er svo annað mál að orðið léttöl, í illlæsilegu og smáu letri, oft nánast samlitu bakgrunni, séu talin gild rök til frávísunar máls, en ekki meðhöndlaður sem augljós og saknæmur útúrsnúningur á 20 gr. áfengislaga þar sem m.a.segir: „enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.“ Þessi tiltekni framleiðandi leggur akkúrat enga áherslu á að selja þetta „léttöl „ enda er það í besta falli illfáanlegt. Öll framsetning auglýsinganna, myndmál, letur, litir og orðfæri vísa til hinnar áfengu framleiðslu.
Hugtakið „Léttöl“ er auki þess hvergi skilgreint sem sérstakt íslenskt hugtak yfir óáfenga drykki nema hjá áfengisframleiðendum, lögreglustjóraembættum, ríkissaksóknara og dómskerfinu og sorglegt það skuli í þeim skilningi vera orðið lögfræðilegt skálkaskjól . Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum skora á embættið að endurskoða þessa afstöðu sína enda ljóst að einungis var tekið á tilteknum atriðum og hluta þeirra brot sem þarna voru framin og málavextir fjarri því kannaðir til hlítar.

f.h Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum.
Árni Guðmundsson
formaður

Afengisauglýsingar -thjohatið Vestmannaeyjum

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/rikissaksoknari-hvilik-lausatok-i-augljosu-mali/