Previous Next

Ritskoðun

Láttu aðra vita

Með Fréttablaðinu í dag kom auglýsingabæklingur frá Hamborgarfarbikkunni. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þá telja Hamborgarfabrikkumenn að augljós og lögvarin réttindi barna og ungmenna til þess að vera laus við áfengisáróður sé ritskoðun? Sorglegt ef viðhorf fyrirtækisins til barna og ungmenna er með þessum hætti?

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/ritskodun/

Foreldrasamtök lýsa yfir vonbrigðum

Láttu aðra vita

Ágæti þingmaður

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum harma það að frumvarp ríkistjórnarinnar um breytingar á 20. grein áfengislaga* nái ekki fram að ganga á yfirstandandi þingi eins og nauðsynlegt hefði verið.

Málið varðar einföld og sjálfsögð réttindi barna og unglinga til þess að vera laus við áfengisáróður og eða eins og nú tíðkast augljósa og ómerkilega útúrsnúninga á siðferðilega skýrum núgildandi lögum.

Áfengisauglýsingum fjölgar stöðugt og þeim er markvisst beint að börnum og ungmennum. Lögreglustjóraembættið tekur ekki sem skyldi á þessum brotum, það eru ekki gefnar út kærur, að virðist, þrátt fyrir mýmörg og augljós brot er varða 20.gr núgildandi laga.

Dómskerfið virðist sætta sig við að hið afar smættaða orð “léttöl” , komi einhverstaðar fyrir í örskotsstund eða í illlesanlegum texta í felulitum viðkomandi áfengisauglýsingar.  Er einhverskonar skálkaskjól, án alls samhengis við annað innihald s.s. mynd- og talmál viðkomandi áfengisauglýsingar, svo ekki sé minnst á hina raunverulegu framleiðslu viðkomandi fyrirtækis.

Það er í þessu ljósi sorglegt að ekki tókst að koma í gegn ágætu frumvarpi ríkistjórnarinnar um breytingar á 20.gr áfengislaga, breytinga í þágu augljósra réttinda barna og ungmenna. Ástand eins og það er nú um stundir er ekki boðlegt í siðuð samfélagi,  skeytingarleysi og fálæti til þess bærra aðila hvað varðar síendurtekin og augljós brot ámælisverð.  

Eitt mikilvægasta og merkilegasta viðfangsefni hvers samfélags hverju sinni er velferð æskunnar. Margt hefur áunnist á þeim vettvangi sem betur fer. Frumvarp um breytingar á 20.gr áfengislaga er málefni sem snýst um velferð barna og unglinga og sem slíkt nauðsynlegt að öðlist gildi . Ábyrgð Alþingis er mikil og leitt að jafn mikilvægt málefni og hér um ræðir nái ekki fram að ganga. Það eru Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum  mikil vonbrigði.    

* (136. Áfengislög (skýrara bann við auglýsingum), innanríkisráðherra, 2. umr. var á dagskrá 105. fundar (ekki rætt).

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/foreldrasamtok-lysa-yfir-vonbrigdum/

Burt með áfengisauglýsingar – frumvarp í sænska þinginu

Láttu aðra vita

Frumvarp um áfengisauglýsingar hefur verið lagt  fram í sænska þinginu . Í frumvarpinu kemur fram að herða beri lög um áfengisauglýsingar. Hér verður greint frá nokkrum þeim helstu rökum fyrir breytingunni.

Rannsókn Evrópusambandsins (EU), Alcohol and Health Forum, leiddi í ljós að áfengisauglýsingar hafa áhrif á unglinga. Í ljós kom að þeir unglingar sem eru byrjaðir í neyslu áfengra drykkja auka neyslu sína á áfengi. Einnig eru skýr fylgni milli þess magns áfengisauglýsinga sem ungt fólks horfir á og hversu mikið þeir auka neyslu sína. Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) hefur kannað áhrif áfengisauglýsinga á neytendur. Stofnunnin dregur athyglinni sérstaklega að ungu fólki í því samhengi. Það má á engan hátt vanmeta þau áhrif sem áfengisauglýsingar hafa á ungt fólk. Alþjóða heilbrigðisstofnun mælir með banni á auglýsingum áfengis í stefnu sinni.

Sjá nánar: http://www.riksdagen.se/sv/Dokument-Lagar/Forslag/Motioner/Ingen-mer-alkoholreklam_GZ02So662/

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/burt-med-afengisauglysingar-frumvarp-i-saenska-thinginu/

Áfengisauglýsingar, börn og ungmenni – staðreyndir

Láttu aðra vita

Nokkrir punktar úr skýrslunni, Building Capacity. Höfundur: Assembly of European Regions, 2010. Verkefnið var styrkt af EU – Public Health Programme.

Áfengisauglýsingar, markaðssetning og skaðsemi áfengis

Ýmsar rannsóknir benda á áfengisframleiðendur leitast eftir því að sýna jákvæða mynd af neysluvörunni. Horft er framhjá þeirri skaðsemi sem hún veldur einstaklingum og samfélaginu. Einnig hefur komið í ljós að bein tengsl eru á milli fjölda áfengisauglýsinga sem ungur einstaklingur horfir á og drykkjavenjur hans. Þannig að því fleiri áfengisauglýsingar sem ungur einstaklingur horfir á því líklegri er hann til þess að byrja fyrr að drekka áfengi. Einnig er líklegra að hann drekki meira (Farke, 2008).

 

Áfengisauglýsingum beint ungu fólki

Dýrum og vel gerðum áfengisauglýsingum er sérstaklega beint að ungu fólki og mikið lagt í sölurnar til þess að ná þeim sem kaupandahóp að vörunni. Þróun á nýjum vörum er til þess eins að selja þessum hóp kaupanda. Mikið er lagt í hönnun og það sem þykir höfða til ungs fólks. Áfengisframleiðendur leitast eftir því að auglýsa í tímaritum þar sem meirihluti lesanda er ungt fólk. Sjónvarpsauglýsingar sýna ungt fólk drekka áfengi yfirleitt undir mjög skemmtilegum kringumstæðum. Auglýsingar þar sem afleiðingar áfengis eru sýndar hafa aldrei verið birtar og verða það væntanlega aldrei – minnkar sölu. Hinir ýmsu íþrótta-  og menningarviðburðir eru oft styrktir af áfengisiðnaðinum. Með tiltölulegum litlum kostnaði þá hefur áfengisiðnaðurinn hreiðrað um sig á samskiptasíðum svo sem Facebook og Twitter. Á þeim vettvangi hefur og á  áfengisiðnaðurinn greiða leið að ungu fólki. En talið er að ungt fólk eyði mun meiri tíma á netinu en t.d. í sjónvarpsáhorf. Þetta veit áfengisiðnaðurinn og má segja með þessu að þeir séu svo sannarlega með á nótunum.

 

Sjá nánar: http://www.aer.eu/fileadmin/user_upload/MainIssues/Health/2010/Alcohol_Factsheets/Factsheet_13_-_Alcohol_Marketing_and_Youth.pdf

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/afengisauglysingar-born-og-ungmenni-stadreyndir/

Verndum æskuna – Já takk

Láttu aðra vita

Ágæti þingmaður  áskorun –  Verndum æskuna – Já takk

Áfengisauglýsingar virka ekki, segja framleiðendur og heildsalar, en hafa þá einstöku sérstöðu, að hafa aðeins þau áhrif,  að þeir sem þegar eru neytendur skipti um tegund?  Viðkomandi auglýsa síðan hvað af tekur í miðlum sem höfða sérstaklega til barna og ungmenna? Samkvæmt  þessu þá eru það yfirlýst  markmið framleiðenda og innflytjenda að fá börn og ungmenni til að skipta um áfengistegund ?

Áfengisauglýsingar hafa enga sérstöðu og eins og aðrar auglýsingar þá virka þær vel. Annars væru viðkomandi ekki að auglýsa dag út og dag inn. Hagsmunaaðilar hafa haldið því fram að ekkert orsakasamhengi sé milli auglýsinga og aukinnar neyslu í samfélaginu, vitandi það að það  er ekki hægt að meta áhrif auglýsinganna með slíkum aðferðum, eins og samfélagið sé lokuð,einangruð og dauðhreinsuð  rannsóknarstofa sem byggir á klassískum rannsóknum um virkni lyfja versus lyfleysu. Slíkar aðferðir er ekki nýtilegar í þessum tilgangi. Hins vegar eru til rannsóknir þar sem kannað hefur verið hvaða þættir hafa áhrif á neyslu barna og ungmenna sem hafa lent illa í áfengisneyslu. Einn af þeim þáttum, sem þar hafa veruleg áhrif, eru áhrif áfengisauglýsinga, bæði hvað varðar aldur er neysla hefst, tegundir, magn og tíðni neyslu.

Önnur rök hagsmunaaðila eru þau  að „allt má erlendis“ þegar að vitað er að í mörgum löndum er ströng löggjöf eða reglur um áfengisauglýsingar sem m.a  byggja að velferðarsjónarmiðum um vernd barna og ungmenna.  Í Noregi er að mörgu leyti sambærileg löggjöf og hérlendis, í Frakklandi gilda ákveðin lög t.d. um algert auglýsingabann á íþróttaleikvöngum, Bretar eru að velta fyrir sér breytingum m.a vegna óhóflegrar áfengisneyslu ungmenna, sama á við um í Danmörku, sem státar af þeim vafasama heiðri að eiga heimsmet í unglingadrykkju. Svíar eru á ný að endurskoða sína löggjöf í ljósi afar misheppnaðra breytinga fyrir nokkrum árum, markmiðið að færa til fyrra horfs sem er í ætt við norsku löggjöfina.   Á vettvangi Evrópusambandsins er umræða um verulega aukið aðhald bæði út frá heilbrigðisjónarmiðum og ekki síður út frá velferðarsjónarmiðum barna og ungmenna og svona mætti lengi telja.  Fullyrðingar um að „allt megi erlendis“ eru því fyrst og fremst byggðar á óskhyggju hagsmunaaðila í áfengisbransanum og sem slíkar með öllu óbrúklegar við uppeldi æskunnar og eða sem siðferðisviðmið í samfélaginu  almennt.

Nýlegar rannsóknir Rannsóknar og greiningar um áfengis – og vímuefnaneyslu framhaldsskólanema sýna að ástand er með ágætum en ef bætt er við niðurstöðum er ná til sama aldurshóps sem eru utan skóla þá gjörbreytast niðurstöður til hins verra svo um munar. Að meta drykkju unglinga á tilteknum tímapunkti/um  þarf ekki að segja allt m.a. vegna þess að unglingar lenda almennt ekki í vanda við fyrsta sopa og forsagan þeirra sem neytenda er stutt. Neysla og neyslumynstur er ferli. Hlutfallslega meiri fjöldi ungs fólks (20+) í meðferð hjá SÁA gæti hugsanlega átt rætur sínar að rekja til „vel heppnaðra“ áfengisauglýsinga fyrri ára.

Kjarni málsins er sá að áfengisauglýsingar eru bannaðar samkvæmt 20. grein áfengislaga. Hinn siðferðilegi boðskapur laganna er afar skýr.  Með grímulausum áfengisauglýsingum og eða heimskulegum útúrsnúningum úr lögum eru þau brotin margsinnis dag hvern. Hagsmunaaðilar sýna í verki afar einbeittan og einlægan brotavilja sem þeir komast upp með tiltölulega óáreittir af hálfu yfirvalda . Það vekur athygli að síðasti  dómur vegna brot á 20. gr áfengislaga er frá 12. júní 2009 sem verður að teljast með ólíkindum og ber ákæruvaldinu dapurt vitni. (Sjá dómasafn www.foreldrasamtok.is og eða dómasafn www.domstolar.is  ).

Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og unglinga sem þau eiga fullan og lögvarðann rétt á að vera laus við. Lögin eru sett á grundvelli velferðarsjónarmiða og í tengslum við réttindi barna og unglinga til þess að verða laus við áróður af þeim toga sem kemur fram í áfengisauglýsingum. Auglýsingarnar stríða og vinna markvisst gegn samfélagslegum markmiðum eins og vímulausum grunnskóla. Markmiðum sem foreldrar, forráðamenn og allir sem að uppeldismálum vinna í þessu landi eru einhuga um. Ýtrustu viðskiptahagsmunir áfengisbransans um frelsi til þess að beina markvissum áfengisáróðri að börnum og ungmennum eru í hróplegu ósamræmi við það. Sorglegt að fólk skuli í opinberri umræðu nefna slíkt sé dæmi um að  „fjandskapur núverandi stjórnvalda gagnvart íslensku atvinnulífi og störfum fyrir vinnufúsar hendur eigi sér engin takmörk“.

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum skora á þig ágæti þingmaður að samþykkja fyrirliggjandi frumvarp um breytingar á áfengislögum sem snúast fyrst og fremst um velferðarsjónarmið,  um vernd barna og ungmenna og rétt þeirra til þess að vera laus við þann einhliða og kostaða áróður sem áfengisauglýsingar eru. Að stuðla slíku er bæði gott og göfugt markmið.

Efni þessu málefni tengt má nálgast á heimasíðu samtakanna www.foreldrasamtok.is

f.h. Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum

Árni Guðmundsson

Formaður

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/verndum-aeskuna-ja-takk/

Þetta vekur mig til umhugsunar

Láttu aðra vita

Það vakti athygli fyrir nokkru þegar að ógæfumaður  var dæmdur til fangelsisvistar eftir að hann varð uppvís að því að stela nokkrum bjórum í ríkinu. Að vísu  átti hann einhver önnur afbrot af svipuðum toga óuppgerð en var eðli málsins settur í steininn. Lögbrot er lögbrot og umfangið sem slíkt skiptir ekki máli – eða hvað? Lögbrot sem slíkt er nákvæmlega sama hvort það er stórt eða lítið. Í siðuðu samfélagi skiptir ekki máli hvort menn stela einu súkkulaðistykki eða 100 allt eru þetta glæpir

Þetta vekur  mig til umhugsunar um ákveðið misræmi hvað varðar önnur lögbrot t..d. eins og brot á 20. gr áfengislaga um bann við áfengisauglýsingum. Í þeim efnum hafa “vettlingatök” verið viðhöfð.  Þó  að dómum fjölgi þá er það umhugsunarvert að í nýlegum Hæstaréttardómi  þar sem ritstjóri Mannlífs var dæmdur til sektar þá skilar einn dómari séráliti þess efnis að þar sem brot séu svo mörg að hinn seki  ætti ekki gjalda þess að vera einn kærður. Jafnræði fælist í því að þessi eini ætti að sleppa? í stað þess þá væntanlega að vinda sér í kæra þá sem lögbrot hafa framið.   Þess má geta að ritstjórinn sakfelldi  lagði fram sér til “málsbóta” fjórar möppur er innihéldu 999 áfengisauglýsingar sem ekki hefðu verið kærðar?

Þetta vekur mig til umhugsnar um hve gríðarlegt virðingarleysi viðkomandi aðilar sýna lögum landsins. Áfengisframleiðendum og innflytjendum áfengis flestum hverjum  virðist vera algerlega sama um  lög landsins sniðganga þau,  brjóta og sýna af sér markvissan og einlægan brotavilja. Dómar þ.e.a.s. fyrir utan það að einn og annar forstjórinn eða ritstjóri lendir á sakaskrá, eru svo vægir að greiðsla sektar er aðeins brotabrot af auglýsingakostnaði  og dómar miðað við fjölda  brota eru allt of fáir.

Þetta vekur mig til umhugsunar um  20. grein áfengislaga sem fyrst og fremst er sett fram sem líður í vernd barna og ungmenna. Það er skynsamlegt enda áfengi engin venjuleg “matavara” . Íslendingar drekka ekki rauðvín með kjötbollunum á miðvikudögum eins og óskhyggja einhverra þingmanna sem vilja leyfa sölu á  áfengi í stórmörkuðum, en eins og kunnugt er þá er verulegur fjöldi starfsmanna unglingar og í einhverjum tilfellum allt niður í  12 ára börn!  Áfengi er viðkvæm vara eins og t.d. lyf og tóbak og lýtur því að sjálfsögðu öðrum lögmálum en vörur almennt.  Börn og unglingar eiga því lagalega og ótvíræðan rétt á því að vera laus við þennan einhliða áróður sem  áfengisauglýsingar eru.  Bann við áfengisauglýsingum er ekki  skerðing á tjáningarfrelsi eins einhverjir brennivínsbransans menn  hafa haldið fram. Samkvæmt skýrum niðurstöðum Hæstaréttar  um það atriði þá er um keyptan einhliða áróður að ræða sem ekkert á skylt við tjáningarfrelsi. Hitt er svo annað mál að það er teljandi á fingrum annarar handar þau tilefni sem fulltrúar áfengisbransans hafa tekið þátt í almennum tjáskiptum – t.d. í fjölmiðlum eða örðum opinberum vettvangi. Því þora menn ekki og kjósa að höndla í samræmi við eigin skoðanir um “tjáningarfrelsi” þ.e. með fleiri áfengisauglýsingum.

Þetta vekur mig til umhugsunar um hve lágt menn leggjast í þessum málum. Ég sagði eitt sinn á fræðslufundi í ónefndu foreldrafélagi að það væru engin mörk og nefndi það að sennilega myndu menn auglýsa bjór á fæðingardeildinni ef menn kæmust upp með það.  Var þá að ýja að því hvernig áfengisbransinn beinir auglýsingum markvisst að börnum og unglingum. Fékk skömm í hattinn fyrir þessi ummæli en viti menn ekki löngu síðar barst mér myndband þar sem hinir dönsku “Gunni og Felix” léku í bjórauglýsingu.  Nær fæðingardeildinni verður vart komist.

Þetta vekur mig til umhugsunar um þá lágkúru þegar að settar voru áfengisauglýsingar inn á bloggsíður barna; eða þegar að Ölgerð Egils Skallagrímssonar lét koma fyrir áfengisauglýsingum í strætóskýlum á stór Reykjavíkursvæðinu í aðdraganda grunnskólaprófa og að stjórn Strætó b.s. skyldi sýna sínum helstu kúnnum, börnum og unglingum slíka vanvirðu; eða þegar að íþróttafélag gerir fullann Lunda  með bjór í hönd að einkennismerki útihátíðar; eða þegar RÚV birti áfengisauglýsingum í kjölfar þess að forseti Íslands  veitti íslensku forvarnarverðlaunin og eins í kjölfar þess þegar að liðsmönnum íslenska handknattleikslandsliðsins voru veittar orður; eða þegar börn eru notuð í áfengisauglýsingar eins og fyrirtækið Vífilfell gerir; eða þegar að útvarpstöðvar sem ætlaðar eru börnum og unglingum útvarpa áfengisauglýsingum; eða þegar að auglýst að ekki sé hægt að horfa á enska boltann nema verða ölvaður; eða þegar að áfengisbransinn segist vera hluti af íþróttaleikum; eða  þegar ungt fólk eignast ekki vini fyrr en það hefur drukkið 12 bjóra.? Svona mætti lengi telja og ljóst að virðing fyrir réttindum barna og unglinga er engin.

Þetta vekur mig til umhugsunar um það að áfengisauglýsingar virka. Hagsmunaaðilar hafa haldið hinu gagnstæða fram og nefnt í því samhengi að ekki sé hægt að finna fylgni milli auglýsinga og aukinnar drykkju t.d. ungmenna. Þetta er útúrsnúningur og ætla sér að nýta rannsóknaraðferð sem einungis er nýtt á tilraunstofum í lokuðu eða tilbúnu umhverfi  eins t.d.  við lyfjarannsóknir virka einfaldlega ekki sem mælitæki hvorki hvað varðar áfengisauglýsingar eða annað í þeim dúr. Slíkt er ekki hægt að mæla í margþættu samfélagi þar sem að óteljandi atriði hafa áhrif sem ekki er hægt að einangra sem gera það að verkum að ekki fæst marktæk fylgni. Þetta vita allir sem fást við rannsóknir.  Grundvallar spurningin er því sú ef auglýsingar virka ekki hvers vegna er þá verið að auglýsa?   Auglýsingar virka og því til sönnunar má nefna að Bandaríkjamenn gerðu könnun sem fólst í því að rannsaka ungmenni sem lent höfðu í áfengis- og vímuefnaneyslu og þar kom greinilega í ljós að gagnvart þessum hópi höfðu áfengisauglýsingar haft veruleg áhrif. ( Journal of Public Health Policy (2005) 26, 296-311)

Þetta vekur mig til umhugsunar  um alla þá vinnu sem foreldrasamfélagið og allir þeir aðilar sem vinna með börnum og unglingum hafa lagt á sig í forvarnaskyni. Á sjöunda og áttunda áratug síðust aldar voru skólaskemmtanir  í unglingadeildum fjarri því að vera áfengislausar og í einhverjum tilfellum þurfti afskipti lögreglu vegna ölvunar. Sem betur fer heyrir þetta fortíðinni til og með sífellt betri samstarfi foreldra með tilkomu  foreldrafélagana og síðar víðtæku samstarfi þeirra aðila sem vinna með börnum og unglingum  breytist ástandið hægt og sígandi til hins betra.  Markmið foreldrasamfélagsins um vímuefnalausan grunnskóla  er raunhæft og með samstilltu átaki allrar þeirra sem bera velferð æskunnar fyrir brjósti það hefur margt áunnist þrátt fyrir gegndarlausan áfengisáróður sem beint hefur verið sérstaklega að börnum og unglingum. Sá sem þetta ritar veit að árangur hefði án alls efna verið betri ef áfengisbransinn léti börn og unglinga í friði. Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og unglinga  sem þau eiga lögvarðann rétt til þess að vera laus við og ganga þvert á öll uppeldismarkmið  foreldrasamfélagsins .

Þetta vekur mig til umhugsunar um  siðferði eða viðskiptasiðferði. Þegar að grjótharðir viðskiptahagsmunir einir ráða algerlega för án nokkurs tillits til laga eða almenns siðferðis vaknar sú áleitna spurning hvort slíkt eigi ekki við alla aðra starfsþætti viðkomandi fyrirtækis? Getur verið að sá hroki sem viðkomandi  fyritæki sýnir  réttindum barna og unglinga sé fyrirtækið í hnotskurn?

Þetta vekur mig til umhugsunar um hvort ekki sé óviðeigandi að eiga viðskipti við slík fyrirtæki. Er forsvaranlegt að eiga í viðskiptum við fyrirtæki sem ota áfengi á börnum manns? Að mati þess sem þetta ritar er engin spurning um að sniðganga auglýstar áfengistegundir. Myndir þú versla við kaupamann sem ýtti tóbaki að börnunum þínum. Held ekki – og því auðvitað sjálfgefið að slíkt gildi einnig við þá aðila sem ota áfengi að börnum og unglingum.

Þetta vekur mig til umhugsunar um hvers vegna við all margir foreldrar og fólk sem ber velferð æskunnar fyrir brjósti stofnuðum  Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum (www.foreldrasamtok.is ). Í meira lagi undarlegt að stofna hafi þurft sérstök samtök í þeim eina tilgangi að freista þess til að farið sé að lögum? Er sennilega einstætt i hinum vestræna heimi og  í raun sorglegt dæmi um lágt viðskiptasiðferði og virðingarleysi gagnvart börnum og unglingum . Bendi fólki á síðu samtakanna  (www.foreldrasamtok.is )þar sem koma má á  framfæri  með rafrænum hætti ábendingum um brot á lögum um bann við áfengisauglýsingum.

Sýnum hug okkar í verki sniðgöngum auglýstar áfengistegundir – sýnum ábyrgð og tilkynnum um brot.

Árni Guðmundsson – Formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/thetta-vekur-mig-til-umhugsunar/

Load more