Foreldrasamtök lýsa yfir vonbrigðum

Láttu aðra vita

Ágæti þingmaður

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum harma það að frumvarp ríkistjórnarinnar um breytingar á 20. grein áfengislaga* nái ekki fram að ganga á yfirstandandi þingi eins og nauðsynlegt hefði verið.

Málið varðar einföld og sjálfsögð réttindi barna og unglinga til þess að vera laus við áfengisáróður og eða eins og nú tíðkast augljósa og ómerkilega útúrsnúninga á siðferðilega skýrum núgildandi lögum.

Áfengisauglýsingum fjölgar stöðugt og þeim er markvisst beint að börnum og ungmennum. Lögreglustjóraembættið tekur ekki sem skyldi á þessum brotum, það eru ekki gefnar út kærur, að virðist, þrátt fyrir mýmörg og augljós brot er varða 20.gr núgildandi laga.

Dómskerfið virðist sætta sig við að hið afar smættaða orð “léttöl” , komi einhverstaðar fyrir í örskotsstund eða í illlesanlegum texta í felulitum viðkomandi áfengisauglýsingar.  Er einhverskonar skálkaskjól, án alls samhengis við annað innihald s.s. mynd- og talmál viðkomandi áfengisauglýsingar, svo ekki sé minnst á hina raunverulegu framleiðslu viðkomandi fyrirtækis.

Það er í þessu ljósi sorglegt að ekki tókst að koma í gegn ágætu frumvarpi ríkistjórnarinnar um breytingar á 20.gr áfengislaga, breytinga í þágu augljósra réttinda barna og ungmenna. Ástand eins og það er nú um stundir er ekki boðlegt í siðuð samfélagi,  skeytingarleysi og fálæti til þess bærra aðila hvað varðar síendurtekin og augljós brot ámælisverð.  

Eitt mikilvægasta og merkilegasta viðfangsefni hvers samfélags hverju sinni er velferð æskunnar. Margt hefur áunnist á þeim vettvangi sem betur fer. Frumvarp um breytingar á 20.gr áfengislaga er málefni sem snýst um velferð barna og unglinga og sem slíkt nauðsynlegt að öðlist gildi . Ábyrgð Alþingis er mikil og leitt að jafn mikilvægt málefni og hér um ræðir nái ekki fram að ganga. Það eru Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum  mikil vonbrigði.    

* (136. Áfengislög (skýrara bann við auglýsingum), innanríkisráðherra, 2. umr. var á dagskrá 105. fundar (ekki rætt).

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/foreldrasamtok-lysa-yfir-vonbrigdum/