Góð ráð fyrir þingmenn

Láttu aðra vita

Okkur barst þessi umfjöllun af Skaganum – umræður sem urðu í bæjarstjórn æskunnar árið 2003:

“Una Harðardóttir, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Brekkubæjarskóla, fjallaði um lög um auglýsingar á vímuefnum. Í máli Unu kom fram að á Íslandi væru lög sem segja að ekki megi auglýsa áfengi opinberlega. Samt sjáum við næstum á hverjum degi bjórauglýsingar í sjónvarpi og í blöðum og menn reyna alltaf að ganga aðeins lengra. Það eru meira að segja farnar að sjást auglýsingar í tímaritum um svokallaða áfenga gosdrykki. Una sagði að unglingar og ungt fólk væru augljóslega markhópur þeirra sem eru að  auglýsa áfengi. Flestar eru auglýsingar þessar hressilegar, fyndnar og með myndum af ungu fólki sem skemmtir sér vel. Þar að auki er þeim oft komið fyrir í dagskrá og efni sem ætlað er ungum notendum. Það er greinilega verið að höfða til ungs fólks og að laða að nýja viðskiptavini sagði Una. Þessir svokölluðu áfengu gosdrykkir eru gott dæmi um það hvaða aðferðum menn eru tilbúnir að beita til að fá unglinga til að drekka. Áfengi er dulbúið í þessum drykkjum. Una sagði að með því að blanda því saman við sæta gosdrykki með allskonar ávaxtabragði og til að toppa þetta allt er þessu skellt í ótrúlega flottar og litríkar flöskur. Samkeppnin í því hver sýnir flottustu flöskuna er ekkert smá hörð. Sætasta gosið í flottustu flöskunni laðar náttúrulega að flesta unglingana og vinnur þar með samkeppnina. Það er náttúrulega alveg augljóst að þessir drykkir eru ekki framleiddir fyrir fimmtugt fólk sem er kannski búið að drekka af og til í tugi ára. Þessir drykkir eru einfaldlega framleiddir til að fá ungt fólk til að drekka og helst alltaf yngra og yngra fólk sagði Una. Áður fyrr þurftu unglingar sem voru að prófa í fyrsta sinn að drekka að pína ofan í sig íslensku brennivíni í volgu kóki sem yfirleitt endaði með því að allt kom upp aftur. Áfengisframleiðendur eru svo sannarlega búnir að finna ráðið við þessum vanda og tappa því á flöskur. Una sagði að nú reddi unglingar sér bara sætu og bragðgóðu gosi í litríkum flöskum og drekka eins og ekkert sé. Síðan er lítið mál að skipta yfir í bjórinn og auglýsingarnar í fjölmiðlum láta okkur reglulega vita af því hvaða bjór sé flottast að kaupa í dag.

Eins og fram kom í máli Unu í upphafi þá eru áfengisauglýsingar ólöglegar á Íslandi eða hvað spurði Una? Þessi lög virðast ekki nógu skýr því einhvern vegin tekst mönnum að fá svoleiðis auglýsingar birtar í fjölmiðlum. Það er greinilega mjög auðvelt að fara á svig við þessi lög og örugglega er það meiriháttar mál að kæra menn og draga þá fyrir dómstóla. Það kom fram í máli Unu að Þorgerður Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri áfengis og vímuvarnarráðs segði viðurlögin við brotum á þessum lögum vera ekki harðari en svo að auglýsendur líta bara á þau sem viðunandi fórnarkostnað fyrir vel heppnaða auglýsingu. Markaðurinn skilar fórnarkostnaðinum til baka. Una sagðist vilja leggja það til að bæjaryfirvöld á Akranesi skori á þingmenn kjördæmisins og á Alþingi allt í nafni forvarna að þeir taki þessi lög til endurskoðunar með það að markmiði að þeir geri þau skýrari og skilvirkari. Það er augljóst að þessi lög virka ekki í dag og því þarf að breyta. Hvað barnavínið og áfengu gosdrykkina varðar er kannski erfiðara að gera eitthvað sagði Una. Við getum auðvitað ekki stjórnað því hvað þau í ÁTVR hafa í hillunum hjá sér. Við getum hins vegar sent bréf til stjórnenda ÁTVR og sagt þeim að við höfum áhyggjur af þróun mála og hvatt þá til að passa vel upp á það að ekki sé  verið að kaupa áfengi til að afhenda unglingum. Lögreglan ætti að geta fylgst vel með þessu þeir eru jú í sama húsi sagði Una.”

Vel mælt hjá þessari ungu konu og þarft umhugsunarefni fyrir þá þingmenn sem berjast fyrir því að lögleiða áfengisauglýsingar. Er Það í þágu unglinga – nei það er gegn unglingum eins og skrif Unu bera með sér.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/go%c3%b0-ra%c3%b0-fyrir-%c3%beingmenn/