Löghlýðin þjóð ?

Láttu aðra vita

Auðvitað erum við Íslendingar löghlýðin þjóð. Það væri nú annaðhvort. En við erum líka býsna slyng að fara í kringum lögin, þegar okkur ekki líkar efni laganna. Það er bannað að auglýsa áfengi.

Daglega dynja á okkur bæði í blöðum og sjónvarpi bjórauglýsingar með tælandi texta og myndum sem lofa ágæti bjórs.Okkar fremsti leikari les textann,sem eykur enn áhrifin. En til þess að allir viti að ekki verið er að auglýsa áfengan bjór birtist orðið “léttöl” í 2 eða 3 sekúndur með örsmáu letri í einu skjáhorninu.

Löglegt? Efamál. Það er líka bannað að setja upp auglýsingaskilti við þjóðvegi landsins. Fyrirtæki fara í kringum þetta bann með því að leggja merktum bílum sínum með máluðum auglýsingaskiltum á hliðum við fjölförnustu þjóðvegi til og frá höfuðborginni og raunar víðar. Löglegt? Efamál. Það er líka bannað að tala í síma í akstri. Það er ekkert hægt að fara í kring um það. Ótrúlega margir ökumenn láta samt eins og þetta lagaboð,þessi mikilvæga öryggisregla eigi ekki við í þeirra tilviki og blaðra í bílsíma með hálfan huga við aksturinn. Nú er til ágætis handfrjáls búnaður sem ekkert er að því að nota og ýmsir vissulega notfæra sér. En það er svolítið sérkennilegt að horfa á menn og konur aka um götur borgarinnar 16 milljón króna jeppum sem greinilega haf ekki haft ráð á því að kaupa handfrjálsan búnað. Lögreglan er of lin við að taka á þessum lögbrotum.

Eiður Svanberg Guðnason

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/loghly%c3%b0in-%c3%bejo%c3%b0/