Áfengisauglýsingar eru boðflennur í lífi barna og unglinga

Láttu aðra vita

Það er auðvitað með eindæmum að stofna hafi þurft sértök samtök til þess eins að berjast fyrir því að farið sé eftir gildandi lögum í landinu? Í þessu tilfelli lögum um banni við áfengisauglýsingum. Markmið samtakanna er einfalt eða eins og fram kemur í 5.gr stofnsamþykktar: “Markmið samtakana er að berjast gegn birtingu ólöglegra áfengisauglýsinga og bættu auglýsingasiðferði með sérstakri áherslu á vernd barna og unglinga”

Íþróttahreyfingin nýtur gríðarlegar aðstoðar og velvildar samfélagsins. Bæjarfélög styrkja íþróttahreyfinguna með verulegum fjármunum í formi rekstrarstyrkja og til uppbyggingar á íþróttamannvirkjum. Hreyfingin hefur því ríkum skyldum að gegna gagnvart samfélaginu sem m.a. felast í því að boða heilbrigðan lífstíl .Það er auðvitað ekki gert í samvinnu við bjórbransann nema síður sé. Áfengisauglýsingar í íþróttahúsum eða á íþróttaleikvöngum eru ekki viðhæfi en um slíkt eru því miður nokkur dæmi um. Það verður ekki bæði haldið eða sleppt í þessum efnum. Áfengisauglýsingar og forvarnir? Eitthvað lætur undan að lokum og eflaust verður það trúverðugleiki viðkomandi félaga. Áfengisauglýsingar á íþróttaleikvöngum eiga ekki að sjást. Íþróttahreyfingin á undantekningalaust að sýna gott fordæmi og gerir það í lang flestum tilfellum.

Auglýsingar á heimasíðum barna. Halda menn að það sé almennur vilji forráðamanna barna að þau auglýsi áfengi á ágætum heimasíðum sínum ? Held nú síður – Þetta er bara “hágæða” lákúra sem að varðar ekki bara við lög um bann við áfengisauglýsingum, heldur einnig vaflítið réttindi viðkomandi barna sem hafa verið þverbrotin með misnotkun af þessu tagi.

Þetta dæmi sýnir að það eru hvorki siðleg né lagalega takmörk fyrir því hve lágt er lagst í áfengisauglýsingum. Gríðarlegur fjöldi barna heldur úti bloggsíðum sem að öllu jöfnu er hið besta mál. Hvernig heilvita fólki dettur í hug að setja inn áfengisauglýsingar á bloggsíður barna eins og gert var hjá www.blog.central.is er ráðgáta.

Áfengisauglýsingar í strætóskýlum. Áfengisauglýsingaherferð Egils Skallgrímsonar s.l. vor var sem endranær beint að börnum og unglingum sérstaklega. Af því tilefni voru strætóskýli á höfuðborgarsvæðinu þakin áfengisauglýsingum við lok grunnskólaprófa! Fullkomin lágkúra og algert virðingarleysi við börn og unglinga, sem eru eins og kunnugt er helstu viðskiptavinar Strætó. Það er einnig með eindæmum að Strætó bs skuli taka þátt í þessu með því að legga biðskýli fyrirtækisins undir ólöglegar áfengisauglýsingar og gefa þar með sínum helstu viðskiptavinum börnum og unglingum langt nef.

Það eru foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum mikil vonbrigði að RÚV skuli með kerfisbundnum birtingum áfengisauglýsinga virða réttindi barna og unglinga í landinu að vettugi og brjóta á lögvörðum rétti þeirra til þess að vera laus við áfengisáróður sbr lög þar um. Samtökin hafa margsinnis skorað á stjórn RÚV ohf að stöðva allar þessar beinu og óbeinu áfengisauglýsingar sem allar eiga það sannmerkt að vera ólöglegar og langt fyrir neðan virðingu fyrirtækisins. Telji fyrirtækið minsta vafa hvað varðar “lögmæti” þessara áfengisauglýsinga þá ber því hlutverki sínu samkvæmt að láta börn og unglinga í landinu njóta þess vafa. Því fer fjarri

Það var með eindæmum að eftir skemmtilega Kastljósútsendingu frá Bessastöðum þar sem okkar bestu synir, handknattleikslandsliðið, og fyrirmyndir æsku þessa lands voru heiðraðir, þá hafi RÚV fundist það viðeigandi að birta langa og ákaflega asnalega áfengisauglýsingu frá Vífilfelli í kjölfarið? Er reyndar ekki í fyrsta sinn sem RUV fer langt yfir strikið og verður sér til skammar í þessum efnum. Marga rekur minni til þess þegar að forseti Íslands veitti í Íslensku forvarnarverðlaunin fyrir nokkrum árum þá var birt enn ein áfengisauglýsingin í kjölfarið og viðhöfninni ,forsetanum og fólkinu í landinu með því sýndur fádæma dónaskapur.

Þetta eru bara nokkur dæmi, nánast af handahófi, um hve illa málum er komið og í þessum efnum hægt væri að nefna mýmörg önnur dæmi. Hér hefur ekki verið fjallað um áfengisauglýsingarútvarpsstöðva sem höfða í dagskrá sinni til barna og unglinga.

Réttindi barna og unglinga eru fótum troðin í þessum efnum og ítrustu viðskiptahagsmunir teknir fram fyrir sjálfsagðan og ótvíræðan rétt æskunnar. Einbeittur brotavilji og síbrot forsvarsmanna fyrirtækja látin nánast átölulaus enda verða brotin sífellt grófari. Sorglegt að slíkt sé látið átölulaust og ekki boðlegt í siðuðu samfélagi. Sýnum börnum og unglingum fordæmi – förum að lögum.

Að lokum bendum við á heimasíðu Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum www.foreldrasamtok.is þar sem má með einföldum hætti senda inn ábendingar og kærur vegna brota á lögum gegn áfengisauglýsingum.

Árni Guðmundsson

Uppeldis- og menntunarfræðingur

Formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/afengisauglysingar-eru-bo%c3%b0flennur-i-lifi-barna-og-unglinga/