Breiðfylking forvarnarsamtaka ræðir við ráðherra um lýðheilsu og ólöglega netsölu áfengis

Láttu aðra vita

Forvarnarsamtök afhenda dómsmálaráðherra áskorun þann 14. mars 2024 um að staðinn verði vörður um lýðheilsu og einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis. Frá vinstri: Aðalsteinn Gunnarsson, IOGT, Björn Sævar Einarsson, IOGT, Árni Einarsson, Fræðsla og forvarnir-félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Árni Guðmundsson, Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, Hildur Helga Gísladóttir, SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum og Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra.

Breiðfylking forvarnarsamtaka ræðir við ráðherra um lýðheilsu og ólöglega netsölu áfengis

Þann 14. mars 2024 átti breiðfylking forvarnarsamtaka fund með dómsmálaráðherra til að undirstrika að lýðheilsa gangi framar markaðsvæddri netsölu áfengis. Óskað var eftir að ræða hvernig tryggja megi að landslögum sé fylgt og lýðheilsa varin eins og lög gera ráð fyrir. Á fundinum voru fulltrúar Samtakanna Fræðslu og forvarna-félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum, en sömu samtök stóðu að málþingi um lýðheilsu og áfengi þann 13. febrúar 2024 (upptaka af málþingi).  

Áfengi sent heim á nokkrum mínútum í ólöglegri samkeppni við ÁTVR

Samtökin hafa áhyggjur af því að ekki skuli vera farið að landslögum hvað varðar rekstur netsölu með áfengi á Íslandi. Sú netsala sendir áfengi heim til einstakra neytenda á innan við 30 mínútum úr vöruhúsi sem er innanlands og er því smásala í samkeppni við ÁTVR. Neytendur geta einnig sótt vöruna beint í vöruhúsið. Í svari dómsmálaráðherra til Alþingis þann 11. desember 2023 er staðfest að slík sala sé ólögleg m.a. með staðfestingu á fyrri túlkun ráðuneytisins á lögunum frá 4. desember 2015 og tilkynningu um að til standi að lögleiða söluna. Netsalan fer því ekki fram í lagalegu tómarúmi eins og netsalarnir hafa reynt að halda á lofti.

Samtökin styðja gildandi lýðheilsustefnu og hafna að smásala í gegnum netið verði lögleidd

Ráðherra vill lögleiða heimild til reksturs innlendra vefverslana með áfengi í smásölu til neytenda eins og fram kom í ofangreindu svari ráðherra til Alþingis og leggja ÁTVR niður. Forvarnarsamtökin komu því á framfæri að þau hafna slíku. Lögleiðing væri kúvending á gildandi stefnu þar sem einkasala ríkis á áfengi er fyrirkomulag til að takmarka og stýra aðgengi að áfengi til að draga úr skaðlegum áhrifum og vernda ungt fólk gegn neyslu. Þá væri slíkt í hrópandi mótsögn við lýðheilsustefnu stjórnvalda til 2030 sem samþykkt var samhljóða á Alþingi nýlega. Þar segir m.a. að Íslendingar verði meðal fremstu þjóða í lýðheilsustarfi sem byggist á bestu vísindaþekkingu og reynslu. Þar segir einnig að stjórnvöld skuli hafa lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun.

Einkasala ÁTVR er sterkasta forvörnin ásamt verðlagningu

Vitað er að einkasala ríkis á áfengi er ein virkasta forvörnin ásamt verðlagningu eins og vísindarannsóknir hafa sannað.  Þess vegna er ekkert tilefni fyrir tilslökun við að halda fast í gagnreynda áfengisstefnu eins og WHO bendir á í nýlegu bréfi til heilbrigðisráðherra þann 18. júlí 2023. Á fundinum drógu forvarnarsamtökin fram að gildandi lög og stefnur hafa lýðheilsu og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Slík rök vegi meira en markaðsvæðing áfengissölu með tilheyrandi samkeppni um að selja sem mest áfengi til sem flestra. Verði netsmásalan lögleidd falla því lýðheilsurök Íslands um að einkasala ÁTVR í smásölu sé grundvölluð á lýðheilsu og gangi því upp innan EES/ESB svæðisins.

Ráðherra ræður ekki einn

Samtökin bentu á að þótt ráðherra vonist eftir lagabreytingum í framtíðinni er ekki búið að breyta lögunum enn. Lögin standa. Dómsmálaráðherra ræður ekki einn. Ekkert bendir til þess að lögunum verði breytt á næstunni. Bæði heilbrigðisráðherra sem og varaformaður þingflokks Vinstri grænna og formaður velferðarnefndar Alþingis styðja ekki lögleiðingu smásölu áfengis í gegnum netið. Heilbrigðisráðherra vill þvert á móti herða reglur um áfengissölu. Raunveruleikinn veldur að sjálfsögðu netsölunum hugarangri eins og fram kom í erindi Félags atvinnurekenda til stjórnvalda árið 2021. Raunveruleikinn er sá að ólöglegar netsölur áfengis starfa nú óáreittar í trássi við einkaleyfi ÁTVR á smásölu og afhendingu áfengis á Íslandi. Þeim hefur stórfjölgað og eru nú 15-20 talsins að talið er. Slík staða er óásættanleg. Með þessum hætti er ekkert gefið fyrir lýðheilsu og forvarnir.

Netsala áfengis til ungmenna og eldri borgara

Samtökin telja að netsala áfengis beinist mest að tveimur hópum, eldri borgurum og ungmennum. Samtökin hafa áhyggjur af því að sá góði árangur sem náðst hefur varðandi ungmenni með “íslensku leiðinni“ glutrist niður. Íslenska leiðin felur í sér tvær stoðir. Þær eru takmarkað aðgengi að áfengi með einkasölu ÁTVR ásamt framúrskarandi og faglegu tómstunda- og íþróttastarfi. Ekki má kippa annarri stoðinni undan. Þá eru áhyggjur af vaxandi áfengisneyslu eldra fólks.

Beðið árum saman eftir niðurstöðu lögreglu

Vitað er að ÁTVR kærði netsölu þann 16. júní árið 2020 til lögreglu. Lögreglan hefur ekki komist að niðurstöðu í málinu þótt bráðlega séu liðin fjögur ár. Engar haldbærar skýringar hafa komið fram á þeim drætti. Forvarnarsamtökin hafa viðað að sér gögnum um netsölu áfengis frá ráðuneytum og stofnunum á grundvelli upplýsingalaga. Meðal þeirra gagna er minnisblað lögmannsstofu, unnið fyrir ÁTVR, um dóm Hæstaréttar Svíþjóðar í Winefinder málinu sem féll 7. júlí 2023. Í minnisblaðinu er dómurinn, sem fjallaði um netsölu áfengis, rakinn og komist að þeirri niðurstöðu að „Netsalarnir sem selja áfengi á íslenskum markaði selja vörur sem hafa þegar verið fluttar inn til landsins og tollafgreiddar. Slík sala er smásala hér á landi sem brýtur gegn einkarétti ÁTVR til smásölu áfengis og er því ólögleg.“

Beðið eftir Godot

Forvarnarsamtökin og fleiri lýðheilsuþenkjandi aðilar hafa reynt að fá svör frá stjórnsýslunni, sem helst tengist þessum málum, svo brugðist verði við þeirri ólögmætu stöðu sem nú er uppi. Hvorki lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Halla Bergþóra Björnsdóttir, dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Umboðsmaður Alþingis, Skúli Magnússon, Ríkissaksóknari, Sigríður J. Friðjónsdóttir, né aðrir hafa enn brugðist við. Enginn tekur á þessu máli. Stjórnsýslan hefur ekki í áravís brugðist við þessari stöðu. Í réttarríki á ekki að þurfa að bíða eftir að lögum sé fylgt.

Í lok fundar afhentu samtökin ráðherra framangreind gögn. Einnig var afhent áskorun til alþingismanna frá 13. febrúar 2024 um að standa vörð um lýðheilsu og einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis.

Gögn afhent ráðherra:

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/breidfylking-forvarnarsamtaka-raedir-vid-radherra-um-lydheilsu-og-ologlega-netsolu-afengis/

Kæra frá 2020

Láttu aðra vita

Hér gefur að líta kæru ÁTVR til lögreglunar frá 2020. Viðbrögð af hálfu lögreglunnar virðast engin?

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/kaera-fra-2020/

Hvað er erlend netsala áfengis? – Dómur Hæstaréttar Svíþjóðar

Láttu aðra vita

Meðfylgjandi minnisblað um dóm hæstaréttar Svíþjóðar sýnir ótvírætt að fyrirkomulag “erlendrar netsölu áfengis” hér á landi er bara orðhengilsháttur og útúrsnúningar sem hefur ekkert með erlendan innflutning til einkanota að gera. Hérlendis er einfaldlega um að ræða ólöglega smásölu áfengis.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/hvad-er-erlend-netsala-afengis-domur-haestarettar-svithjodar/

Bréf Innanríkisráðuneytis 2015

Láttu aðra vita

Netsala áfengis af hálfu einstaklinga og fyrirtækja er ólögleg eins og glögglega kemur fram í bréfi innanríkisráðneytisins frá 4. desember 2015. Lagaleg óvissa er engin. Að lögregluyfirvöld skuli ekki hafa brugðist við í samræmi við við álitið er með eindæmum.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/bref-innanrikisraduneytis-2016/

Bréf WHO til Heilbrigðisráðherra (enska útgáfan)

Láttu aðra vita

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/bref-who-til-heilbrigdisradherra-enska-utgafan/

Áskorun til Alþingisfólks

Láttu aðra vita

Meðal virkustu leiða í áfengisforvörnum er að takmarka aðgengi að áfengi eins og kostur er. Einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis er það fyrirkomulag sem Íslendingar hafa valið í þessu skyni

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/askorun-til-althingisfolks/

Load more