Áfengisauglýsingar í íþróttahúsum !

Láttu aðra vita

Fréttatilkynning

Áfengisauglýsingar hanga uppi á íþróttarsvæðum þar sem börn og unglingar eru við leik og störf víðs vegar um landið. Um er að ræða fótboltavallasvæði, golfvelli, íþróttahús og eflaust fleiri íþróttasvæði. Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hafa sent öllum stærri sveitarfélögum landsins hvatningarbréf, sjá neðar, þar sem sveitarfélög eru hvött til þess að tryggja að börn sem stundi íþrótta-, æskulýðs- og forvarnastarf á íþróttasvæðum geti það án þess að verða fyrir áreiti af þessum auglýsingum.

Samkvæmt lögum er bannað að auglýsa áfengi sama hvaða nöfnum auglýsendur kalla það, sama gildir um tóbak og gengur vel að framfylgja því banni. Sveitastjórnir eiga ekki að sýna umburðarlyndi gagnvart því að leyfa auglýsingar á íþróttasvæðum frekar en að leyfa léttöls- eða tóbaksauglýsingar í skólum eða æskulýðsheimilum landsins.

Foreldrasamtökin hafa sent lögreglustjóranum í Reykjavík margar kærur þar sem bent er á hvar sé verið að brjóta á lögvernduðum rétti barna og á áfengislögum, en síðustu ár án árangurs. Foreldrasamtökin hvetja því sveitarstjórnir landsins og þá sem sjá um að farið sé að landslögum að skoða þessi mál og sporna gegn þessum auglýsingum.

Til sveitarstjórna vegna áfengisauglýsinga á íþróttasvæðum

Áfengisauglýsingar hanga uppi á íþróttarsvæðum þar sem börn og unglingar eru við leik og störf víðs vegar um landið. Um er að ræða fótboltavallasvæði, golfvelli, íþróttahús svo eitthvað sé nefnt.

Samkvæmt lögum er bannað að auglýsa áfengi á Íslandi rétt eins og það er bannað að auglýsa tóbak. Söluaðilar áfengis hafa farið til hliðar við lögin og auglýsa „léttöl“ í stað bjórs. Hins vegar eru þeir oft að auglýsa vörur sem eru illfáanlegar. Það sjá allir í gegnum þetta og átta sig á því að það er verið að auglýsa bjór og ekkert annað. Þessar auglýsingar eru því meðvitaðar ákvarðanir þeirra sem auglýsa áfengið og þeirra sem bera ábyrgð á íþróttasvæðum landsins.

Sveitarfélög styðja bakvið íþróttafélögin meðal annars af því að íþróttir hafa forvarnagildi og sveitafélög eiga oftast megnið af þeim fasteignum og lóðum þar sem íþróttastarfið fer fram á. Því viljum við hvetja sveitastjórnin til að vernda börnin og koma í veg fyrir að áfengi sé auglýst á íþróttasvæðum hvort sem þau séu rekin á vegum sveitarfélaga eða íþróttafélaga. Sveitastjórnir eiga að skilyrði framlag sitt og tryggja að velferð barna sé höfð að leiðarljósi á íþróttasvæðum.

Auglýsingar hafa áhrif. Ef þær hefðu ekki áhrif þá væri varla verið að auglýsa. Börn og unglingar eiga að hafa lögverndaðan rétt til að vera laus undan áfengisáróðri. Ef menn eru ekki sammála því hvort auglýsingar virki eða hvort landslög eigi að tryggja vernd barnanna, ættu menn ekki samt að láta börnin njóta vafans í þessu samhengi. Það dettur engum í hug að vera með áfengisauglýsingu eða léttölsauglýsingu í skóla, skátaheimilinu eða á þeim stað þar sem æskulýðsstarf fer fram á.

Til eru íþróttafélög sem tekið hafa meðvitaða ákvörðun að auglýsa ekki áfengi á íþróttasvæðum sínum. Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum vill hrósa þeim fyrir framlag sitt og hvetur sveitastjórnin til að taka undir það.

Með von um jákvæð viðbrögð og aðgerðir

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum

 

 

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/afengisauglysingar-i-ithrottahusum/