Vika 43 – Réttur barna

Láttu aðra vita

Réttur barna á Íslandi til lífs án neikvæðra afleiðinga áfengis- og vímuefnaneyslu

Vika 43, vímuvarnavikan, verður 23. – 30. október í ár en þetta er 8. árið sem þessi vika er tileinkuð vímuvörnum. Vika 43 er vettvangur félagasamtaka sem hafa forvarnir að markmiði starfs síns eða vilja leggja vímuvörnum lið, til þess að vekja athygli á forvarnastarfi og áfengis- og vímuefnamálum; varpa ljósi á viðfangsefni forvarna og kynna sérstaklega starf sem unnið er á vettvangi félagasamtaka; vekja athygli landsmanna á mikilvægi forvarna, einkum forvörnum gagnvart börnum og unglingum og; virkja þekkingu, styrk og samstöðu grasrótarsamstarfs til eflingar forvarnastarfs.

Að þessu sinni er í viku 43 athygli beint að rétti barna og ungmenna til vímulauss lífs og verndun þeirra gegn neikvæðum áhrifum neyslu áfengis og annarra vímuefna, eins og mælst er til í yfirlýsingu aðildarríkja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá árinu 2001(1) og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (2). Þennan rétt barna þarf að verja með ýmsum hætti og í vikunni verður kastljósi beint að því í hverju þessi réttur felst og hvernig Íslendingar standa sig hvað þetta varðar.

Dagskrá vímuvarnaviku 2011:
Vikuna 23. til 29. október verður vakið með ýmsum hætti athygli á því hvernig við getum verndað rétt barna fyrir vandamálum vímuefnaneyslu.  Umræðum, greinaskrifum, áskorunum, fundum og auglýsingum verður komið á framfæri með ýmsum hætti í sjónvarpi, útvarpi, dagblöðum og netmiðlum.

Undirritun yfirlýsingar Viku 43 – blaðamannafundur

Undirritun yfirlýsingar Viku 43 fer fram í sal KFUM við Holtaveg föstudaginn 28. október nk. kl. 15.00.  Þangað er fulltrúum félagasamtaka í verkefninu Vika 43 boðið að koma og undirrita yfirlýsingu Viku 43 en að auki munu skrifa nafn sitt á hana við þetta tækifæri velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson og umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir.
Yfirlýsingunni verður í framhaldi dreift til fjölmargra aðila sem fara með málefni forvarna á Íslandi; skóla, stofnana, stjórnenda, heimila, fagaðila og samtaka til hvatningar og upplýsingar um þennan mikilvæga rétt barna til lífs án áreitis neikvæðra afleiðinga áfengis- og vímuefnaneyslu.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/vika-43-rettur-barna/