Previous Next

Af þreyttasta frumvarpi Íslandssögunnar

Láttu aðra vita

Um þessar mundir liggja fyrir Alþing tvö áfengisfrumvörp sem bæði ganga, að sögn, út á að „frelsa“ áfengið, eins og það sé í einhverri ánauð. Annað þeirra, frumvarp um að heimila „vefsölu“ áfengis, er til umfjöllunar í þessu greinarkorni. Ekki hefur sá sem þetta ritar tölu á öllum þeim sambærilegum frumvörpum sem lögð hafa verið fram á Alþingi síðustu ár eða áratug en þau eru sennilega vel á annan tuginn.

Tímasetningar í þessu sérhagsmuna vafstri hafa ekki alltaf verið heppilegar. Fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins  ætlaði að mæla fyrir slíku frumvarpi í upphafi hrunsins þegar að vart heyrðist mannsins mál í þingsal vegna mótmælanna fyrir utan þinghúsið. Þegar að covid faraldurinn skall á með miklum þunga og samfélagið var allt á öðrum endanum þá taldi þ.v. dómsmálaráðherra ástandið sýna að mikil þörf væri fyrir netverslun með áfengi? Árangur af þessu vafstir er engin, eins og dæmin sanna og  tíma þingsins örgugglega betur varið í önnur mál og mikilvægari.

Meintur „vandi“ kristallast sennilega í þeim fleygu ummælum stjórnmálamanns eins um að það væri slæmt að geta ekki kippt með sér hvítvínsflösku/m í stórmarkaðinum á sunnudögum til að hafa með humrinum. Það sé frelsismál, en ekki minnst einu orði á humarinn, sem er með öllu ófrjáls eins og mest af okkar sjávarfangi, sem býr við helsi fiskveiðistjórnunarkerfisins? Og svo hinu að áfengi sé löglega vara (eins og tóbak) og því eigi framleiðendur og  seljendur allan rétt á því að sýsla með áfengið eins þeim og þeirra hagsmunum henti best.

Hagmunaaðilar háværir

Hagmunaaðilar, helstu og háværustu talsmenn breytinga, eru orðnir óþreyjufullir. Ýmsir í þeirra ranni nenna ekki lengur að bíða. Í þágu sinna ítrustu sérhagsmuna, auglýsa þeir áfengi eins og engin sé morgundagurinn og selja áfengi í smásölu þvert á  lög, lýðheilsu- og forvarnasjónarmið svo ekki sé minnst á almennt velsæmi.  

Í þessu samhengi þá veldur „ákvörðun“ ÁTVR um að draga til baka, áfrýjun til Landsréttar, mál vegna ólöglegrar sölu áfengis, mikilli furðu svo ekki sé meira sagt. Fingraförin sjást reyndar langar leiðir. Fulltrúi löggjafa- og framkvæmdavaldsins, fjármálaráðherra, beitir sér af alefi gegn því að dómsvaldið úrskurði efnislega í algerlega augljósu máli. Tæknileg frávísun byggð á skoðun eins  héraðsdómara er látin nægja.  Slíkt er algerlega óboðlegt og framganga fjármálaráðherra í þessu máli honum lítt sæmandi.  Áfengisbransinn  andar léttar um skeið enda búið að afstýra því að úrskurðað verði efnislega um algerlega augljósa ólöglega áfengissölu. Fyrirliggjandi frumvarp um að heimila vefsölu áfengis er auk þess ekkert annað en formleg viðurkenning á því að núverandi „vefsala“ sé með öllu ólögleg. 

Markmiðið er klárt. Nú á skal þess freistað með öllum tiltækum ráðum, enn eina ferðina, að brjóta á bak aftur fyrirkomulag sem ríkt hefur nokkuð almenn sátt um í samfélaginu.

Dómsmálaráðherra

Dómsmálaráðherra hefur látið þau boð út ganga að hann ætli að fá til liðs við sig, í ráðuneytið, þrjá eða fjóra  lögfræðinga, sérfræðinga í Evrópurétti, til þess að kanna hvort við þurfum ekki að taka upp reglur Evrópusambandsins, sem að hans mati virðast ganga út á það að við verðum að selja áfengi út um allt, alltaf. Evrópusambandið vill hann að öðru leyti ekkert með hafa, finnur því reyndar flest allt til foráttu. Skynsamara væri að nýta þessa fjármuni í að láta gera lýðheilsumat á afleiðingum þessara frumvarpa, fremur en að eyða stórfé í spurningu sem þegar er búið svara. Eitt símtal til Evrópusambandslandsins Svíþjóðar nægir, það þarf enga fjóra lögfræðinga í það. Lýðheilsu- og velferðarmarkmið þjóða ganga einfaldlega framar viðskiptahagsmunum. Fyrirkomulag áfengissölu á augljóslega við í þeim efnum, þjóðir geta því haft það fyrirkomulag sem þær kjósa.  Fullkomið verkleysi ráðherrans, sem yfirmanns löggæslumála, gagnvart augljósum lögbrotum, bæði hvað varðar áfengisauglýsingar og ólöglega sölu áfengis, vekja furðu og spurningu um hvort ráðherra telji sig hafa ríkar skyldur gagnvart áfengissölum  en almenning í landinu, ekki síst börnum og ungmennum?

Vefsala er almennt söluform

Að heimila „vefsölu“ áfengis þýðir ekkert annað en að leyfa almenna sölu áfengis. Á því leikur engin vafi og kemur einkar vel fram í úttekt Rannsóknaseturs verslunarinnar á áhrifum  stafrænnar tækni á verslunarrekstur:

„Vegna samruna hefðbundinnar verslunar við net og stafrænar tæknilausnir getur reynst erfitt að aðgreina umfang hefðbundinnar verslunar frá umfangi  netverslunar eða öðrum nýjum verslunarháttum.  

Til samanburðar má líkja samruna hefðbundinnar verslunar við netverslun við þá breytingu sem varð um miðja síðustu öld þegar tekin var upp sjálfsafgreiðsla í stað afgreiðslu yfir búðarborð. Erfitt reyndist að aðgreina magn þess sem selt var í sjálfsafgreiðslu og vörur sem voru á bakvið búðarborðið.

Á sama hátt getur reynst erfitt að aðgreina veltu í hefðbundnum verslunum núna og netverslunum, því þessar tvær tegundir renna sífellt meira saman“

(Emil Karlsson, 2018. Íslensk netverslun– áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni, bls 9 .RANNSÓKNASETUR VERSLUNARINNAR)

Stórmarkaðir eins og Costco, Hagkaup, Bónus, Krónan, og nánast allir þeir sem það kjósa, munu geta hafið sölu áfengis án verulegra takamarkanna og munu gera verði frumvarp af þessum toga einhvern tímann að lögum. Útsölustöðum mun fjölga um mörg hundruð prósent frá því sem nú er. Stórmarkaðir verða ráðandi og þessir fáu aðilar sem hæst hafa um þessar mundir verða eins og síli innan um laxanna, fórnalömb eigin hugmyndafræði.

Allt hefur þetta verið keyrt áfram á forsendum ítrustu viðskiptahagsmuna. Framboð af áfengi verður gríðarlegt, sölustöðum fjölgar margfalt, opnunartímar verða alltaf, áfengisauglýsingar og algerlega óheft markaðssókn verður viðvarandi og mun eins og dæmin sanna ekki síst bitna á og beinast að börnum og ungmennum.

Vernd barna og ungmenna

Allt gengur þetta þvert á lýðheilsu- og forvarnarmarkmið samfélagsins, sem nokkuð almenn sátt hefur ríkt um. Ágætur árangur okkar Íslendinga í forvörnum gagnvart börnum og ungmennum er afsprengi margra áratuga vinnu. „Íslenska módelið“ er m.a. afrakstur þess og er gagnreynd aðferðarfræði (Rannsókn og greining) og er mörgum öðrum löndum fyrirmynd á þessu sviði. Nálgun sem byggir á nokkrum meginstoðum. Samveru foreldra, barna og ungmenna, virkri þátttöku í æskulýðs- og íþróttastarfi,  forvarnarfræðslu foreldra, barna og ungmenna, aðgengi og sölufyrirkomulagi áfengis, svo dæmi séu nefnd. Árangurinn í forvarnarstafi er ekki sjálfsprottinn og varir ekki nema stöðugt sé haldið áfram. Forvarnir eru ferskvara.  Gott ástand einnar kynslóðar er ekki ávísun á að það þurfi ekkert að vinna gagnvart næstu kynslóð. Gott ástand er ekki heldur nein skiptimynt eða réttlæting fyrir breytingum sem ganga þvert á öll lýðheilsu- og forvarnarmarkmið.

Lýðheilsumat

Í fyrstu frumvörpum um áfengismál var smávegis um að auka fé til lýðheilsu- og forvarnamála til mótvægis við þær neikvæðu afleiðingar sem svona frumvörp hafa.  Síðustu ár er ekki minnst á slíkt svo neinu nemi og þá helst persónlegum hugmyndum flutningsmanna, og eða þeirra lögfræðinga sem frumvörpin semja, um að frumvarpið hafi lítil sem engin áhrif á lýðheilsu? Eigi ekki við eins og einn ráðherra orðaði það. Í síðustu tveimur til þremur tilraunum við að koma svona frumvarpi í gegn þá hefur umræðan auk þess verði afar einhliða og nánast algerlega á forsendum hinna ítrustu viðskiptahagsmuna.  Það sem verra er að framlag í Lýðheilsusjóð hefur verið lækkað frá því sem áður var, er nú föst upphæð í stað hlutfalls af áfengisgjaldi eins og áður var.

Engum af flutningsmönnum þessara frumvarpa, í gegnum árin, virðast detta til hugar að leggja til að fram fari lýðheilsumat á afleiðingum þeirra breytinga sem frumvörpin kunna að hafa í för með sér. Í þeim efnum má nefna rannsókn sem birtist á vef BMC Public Health í desember 2018.  Lýðheilsufræðileg rannsókn á áhrifum þess að breyta sölufyrirkomulagi áfengis í Svíþjóð í þá veru að leggja niður Systembolaget (sænska ÁTVR) Estimating the public health impact of disbanding a government alcohol monopoly: application of new methods to the case of Sweden. Innan Félags Lýðheilsufræðinga og Landlæknisembættisins eru sérfræðingar á þessu sviði sem hafa þekkingu til þess að gera svona mat með gagnreyndum vísindalegu aðferðum. Undarlegt að ekki hafi verið leita til viðkomandi aðila í tengslum við þetta frumvarp?

Fyrirkomulag áfengisölu á ekki að lúta forsendum ítrustu  sérhagsmuna.

Örfá aukaspor, ef einhver eru, til þess að versla áfengi er á alla leggjandi. Þær breytingar sem dómsmálaráðherra berst fyrir eru fyrst og fremst í þágu  ítrustu viðskiptahagsmuna og yrðu eitt mesta lýðheilsuslys síðustu áratuga. Að mati þess sem þetta ritar er grundvallaratriði og kjarni þessa máls, auk lýðheilsu- og velferðarsjónarmiða, vernd barna og ungmenna. Ekki bara vernd þeirra gegn  áfengisáróðri eins og áfengisauglýsingar eru. Ekki síður vernd gagnvart sölufyrirkomulagi sem er afar ótryggt hvað varðar börn og ungmenni. Samfélagið getur og setur sér ýmis lög og reglur í þágu almannahagsmuna sem betur fer. Áfengismál eru dæmi um slíkt, ákveðin samfélagssáttmáli sem flestir virða og vonandi verður það áfram svo. Fyrirkomulag áfengisölu, áfengisstefna á ekki að lúta forsendum ítrustu  sérhagsmuna, slíkt er einstakt óráð.

Árni Guðmundsson

Félagsuppeldisfræðingur/ Tómstunda- og félagsmálfræðingur

Grein þessi birtistí Kjarnanum vorið 2022

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/af-threyttasta-frumvarpi-islandssogunnar/

Stöndum vörð um velferð barna og ungmenna

Láttu aðra vita

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/690-2/

Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og ungmenna

Láttu aðra vita

Erindi formans Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum á málfundi Vímulausrar æsku og IOGT í Bústaðakirkju þ. 3. desember 2018

Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og ungmenna

"Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og ungmenna" Erindi formanns Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum á málfundi Vímulausrar æsku og IOGT í Bústaðakirkju þ. 3. desember s.l.

Posted by Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum on Friday, December 7, 2018

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/afengisauglysingar-eru-bodflennur-i-tilveru-barna-og-ungmenna/

Mesta afturför í lýðheilsumálum frá lýðveldisstofnun

Láttu aðra vita

Danir státa af þeim vafasama heiðri að eiga heimsmet í unglingadrykkju. Slíkt er ekki til eftirbreytni og í raun ekki boðleg staða. Hérlendis státum við af ágætis árangri í forvörnum enda verið sátt í samfélaginu um árabil um að búa börnum og ungmennum eins uppbyggilegt umhverfi og aðstæður og frekast er kostur. Slíkt er ekki sjálfgefið, staðan í dag byggir á sátt um markmið sem vörðuð eru velferðarsjónarmiðum um vernd barna og ungmenna. Opinber markmið eins lýðheilsustefna er mikilvægur hlekkur í þessari jákvæðu þróun og sama á við um markvisst forvarnarstarf. Foreldrasamfélagið er einhuga í sinni afstöðu. Starf æskulýðsfélaga, æskulýðsstarf almennt, félagsmiðstöðvarnar, íþróttahreyfingin og skólarnir hafa lagst á eitt árum saman í þeim tilgangi að búa æskunni heilbrigt og uppbyggilegt umhverfi. Það hefur að mörgu leiti tekist en slíkt er ekki sjálfgefið, vinna á þessum vettvangi er og þarf að vera samfelld.

Nú liggur, enn eina ferðina, fyrir frumvarp á Alþingi um sölu áfengis í verslunum. Slíkt er vart lengur fréttnæmt nema ef vera skyldi fyrir þær sakir að nú fjallar frumvarpið ekki eingöngu um sölu áfengis í verslunum, viðbætur eru þær að einnig er gert ráð fyrir að auglýsingabann á áfengi verði afnumið. Það eru engin ný sannindi að aukið aðgengi og auglýsingar eru þeir þættir sem hafa hve mest áhrif hvað varðar neyslu. Aukið aðgengi með tilheyrandi auglýsingaskrumi mun auk þess hafa hve mest áhrif á þá hópa samfélagsins sem eru hvað viðkvæmastir fyrir slíku ekki síst gagnvart börnum og ungmennum. Frumvarpið er því ákall um afturför í lýðheilsumálum, aðför að sjálfsögðum réttindum barna og ungmenna til að vera laus við áfengisáróður og gengur í öllum meginatriðum gegn öllum markmiðum í forvarnarstarfi og í berhögg við opinbera lýðheilsustefnu sem almenn sátt hefur verið um. Danskar „lausnir“ í áfengismálum er þekktar sem og afleiðingar þeirrar stefnu hvað varðar börn og ungmenni. Slíkt frumvarp er ekki í þágu barna og ungmenna hérlendis og með miklum ólíkindum að lagt sé fram frumvarp í þeim anda, sem verður, ef af verður, mesta afturför í lýðheilsumálum hérlendis a.m.k. frá lýðveldisstofnun.

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum skora á Alþingi að veita þessu frumvarpi ekki brautargengi. Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum minnir þingmenn á ríka ábyrgð sína og skyldur gagnvart velferð barna og ungmenna í samfélaginu. Ábyrgð og skyldur sem vega mun þyngra en þeir ítrustu viðskiptahagsmunir sem þetta frumvarp gengur út á að innleiða.

Stjórn Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/mesta-afturfor-i-lydheilsumalum-fra-lydveldisstofnun/

RÚV sektað vegna áfengisauglýsinga

Láttu aðra vita

Fjölmiðlanefnd hefur lagt stjórnvaldsekt á RÚV vegna birtinga á áfengisauglýsingum. Hér að neðan er tilvísun í ákvörðun Fjölmiðlanefndar í heild. Greinargerðin er vönduð, ígrunduð og vel rökstudd. “Málsvörn” RÚV og Ölgerðarinnar segir allt sem segja þarf og ekki laust við að það hvarfli að Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum að RÚV, öflugast menningarstofnun landsins, geri sér í engu grein fyrir ábyrgð sinni sem slík og ekki síst gagnvart augljósum og lögvörðum  réttindum barna og ungmenna til þess að vera laus við áfengisáróður eins og áfengisauglýsingar eru. Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hvetja landsmenn til þess að kynna sér ákvörðun Fjölmiðlanefndar en  lokaorð ákvörðunarinnar eru þessi:

IV. Ákvörðunarorð
Ríkisútvarpið braut gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með birtingu auglýsingar
fyrir Egils Gull í Ríkissjónvarpinu þann 14. október 2015. Ríkisútvarpið greiði 250.000 kr. í stjórnvaldssekt.

Ákvörðun-2_2016

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/ruv-sektad-vegna-birtingu-afengisauglysinga/

Áfengi er ekki matvara – aðsend grein – Einar Áskelsson

Láttu aðra vita

Ég drekk ekki og hef ofnæmi gegn áfengi og öðrum vímuefnum. Ef ég drekk getur það leitt mig til geðveiki eða dauða. Nei ýki ekki. Ég hef horft á eftir allt of mörgu góðu fólki deyja fyrir aldur fram. Sem betur fer geta flestir stýrt áfengisneyslu sinni sér og öðrum að skaðlausu. Vill sá hópur bæta aðgengi sitt að áfengi? Er það meginástæðan? Keypt mjólk og hvítvín í sömu búð? Ég hef persónulega ekkert á móti áfengi og stend ekki í vínbúðum ÁTVR og mótmæli áfengisneyslu. Sjálfsagt vita þingmenn á bak við þetta frumvarp að áfengi er vímuefni. Hættulegt vímuefni eins kókain, kannabisefni,róandi lyf og svefnlyf svo dæmi sé tekið. Svo kallað “læknadóp” eru lögleg vímuefni eins og áfengi. Það er lyfseðilskylt og fæst einungis í apótekum. Líkt og áfengi í vínbúðum sem er ekki lyfseðilskylt. Ef flestir kunna með áfengi að fara, kunna þá ekki flestir með læknadóp að fara? Eða ólöglegu vímuefnin. Hver er munurinn á að selja áfengi í kjörbúð og svefnlyf? Geta bæði valdið vímu og líkur á misnotkun svipaðar. Ímynda mér það. Af hverju að gera þá áfengi hærra undir höfði? Jú jú ég veit að það er ekkert gaman að skála með pilluboxum! Ef rökin við að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum séu betra aðgengi að vímuefninu þá get ég ekki skilið né fallist á að salan verði leyfð. Börnin okkar. Ég myndi helst vilja að mín börn létu vera að nota áfengi og tóbak. Það er hollast og bætir lýðheilsu þjóðarinnar. Þess vegna væri fróðlegt að vita hversu margir, af þeim sem styðja frumvarpið, myndu vilja að börnin þeirra létu áfengi vera? Þeir sem eru sammála mér vilja samt bæta aðgengi að veigunum?! Fyrir hverja? Ja gæti það fólk verið að hugsa um sig sjálft. Segir svo kannski börnunum sínum að gera aldrei það sama. Minnir á þegar fullorðið fólk var að vara mig sem ungling við skaðsemi tóbaks, og reykti á meðan! Ég veit að ýmislegt sem ég set fram er ekki svona einfalt og fleiri hliðar til. Gott og blessað. Ég mun geta verslað í matinn þó áfengi sé þar til sölu. Snýst ekki um það. Ef bæta á aðgengi að áfengi þá myndi ég vilja slíkt hið sama með önnur lögleg lyf. Ég gæti verið eitthvað spenntur og væri gott að geta keypt sér ró ró í kjörbúðinni. Ekki líku við að jafna? Hvers vegna ekki? Neí ég vil ekki leyfa sölu áfengis né annarra vímuefna í matvöruverslunum. Þó reynslan sýni að fólk bjargi sér með sitt vín þó aðgengi sé ekki auðvelt (sem það er ekki. Vínbúð er eins og hver önnur sérverslun) þá vill ég ekki auðvelda aðgengið. Ergo. Punktur. Þetta eru bara vangaveltur. Kannski er ég bara miðaldra grumpy kalll sem vill engu breyta og veit ekki neitt? Varðandi þetta mál er ég glaður í því hlutskipti. Góðar stundir.

Höfundur: Einar Áskelsson

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/afengi-er-ekki-matvara-adsend-grein-einar-askelsson/

Load more