Hvenær ætlar RÚV að hætta að birta áfengisauglýsingar

Láttu aðra vita
Ágætu móttakendur og ekki síst stjórn RÚV
Egils Gull okkar bjór, léttöl
Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum harma allt það tillitsleysi og öll þau augljósu lögbrot, sem framin eru dag hvern, gagnvart lögvörðum réttindum barna og ungmenna til þess að vera laus við áfengisáróður. Því miður hefur RÚV gengið fram fyrir skjöldu þeirra aðila sem slíkt ástunda. RÚV sem að öllu jöfnu ætti að vera flaggskip íslenskrar menningar, sýnir einlægan brotavilja og sniðgengur með öllu þau augljósu (og ekki síst þau siðferðilegu) skilaboð sem felast í 20. gr áfengislaga um bann við áfengisauglýsingum. Í stað þess að taka málstað barna- og ungmenna hefur RÚV skipað sér í sveit þeirra sem láta hin ítrustu viðskipatsjónarmið ráða för algerlega óháð almennu siðferði og velsæmi. RÚV hefur tekið sér stöðu andspænis þeim augljósu velferðarsjónarmiðum um vernd barna og ungmenna sem eru grunnur að 20. greinar áfengislaga. Fyrirsögn þessa pósts er sóttur í áfengisauglýsingu sem leikin hefur verið dag út og dag inn á Rás 2 undanfarið og er talandi dæmi um það á hve lágt plan RÚV er komið í þessum efnum (og er að nægu af taka ef út í það er farið). Það vekur óneitanlega þá spurningu um hvort RÚV skilji ekki, eða geri sér grein fyrir samfélagslegri ábyrgð sinni, ekki síst gangvart börnum og ungmennum?

Stjórn Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum skorar á stjórn RÚV að taka í taumanna og stöðva með öllu þessa augljósu brotastarfsemi. Foreldrasamtökin skora einnig á þar til bær yfirvöld að bregðast, með viðeigandi hætti, við brotum af þessum toga. Á því eiga börn og ungmenni þessa lands augljósan rétt á að gert sé og það ber að virða.

Virðingarfyllst

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/hvenaer-aetlar-ruv-ad-haetta-ad-birta-afengisauglysingar/