Foreldrasamtökin áfrýja

Láttu aðra vita

Hafnarfjörður 1. júni 2010


Ríkissaksóknari

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum kæra hér með ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að vísa frá máli númer M 007-2010-28605 með bréfi dagsettu 11.maí s.l. (sjá meðfylgjandi afrit.) Ákvörðun um að fella niður rannsókn á sölu áfengis (Tilv. Í 4.mgr. 52 gr laga no 88/2008) í verslunum Hagkaupa í þessu tilfelli í verslun þeirra við Garðatorg. Að mati samtakanna er hér um augljósa áfengissölu að ræða í skilningi laganna, bæði hvað varðar auglýsingar, auk þess sem framsetning vörunnar sem áfengis í verslunum gefur ekki tilefni til annars en að svo sé, eins og meðfylgjandi myndir, sem teknar voru í Hagkaupum i Kringlunni, sýna glögglega þar sem óáfengu og áfengi af styrkleikanum 14 -40% er raðað í hillu undir drykkjavörur. Rök Hagkaupa um að hér sé að ferðinni bragðvont áfengi sem einungis eigi að nýta til matargerðar hefur lítið með löggjöf að gera og ekki hægt að fella niður mál með rökum sem byggja fyrst og fremst á huglægu mati viðkomandi verslunareigenda á hvað sé „gott eða vont“ áfengi. Með samsvarandi röksemdarfærslu gæti Hagkaup talið sig með réttu geta selt allar áfengistegundir sem seldar eru í Áfengisverslunum ríkisins í krafti þess og svo fremi að einhverjir viðskiptavinir þeirra telji að um bragðvont áfengi sé að ræða.


4. mgr. 52 gr laga no 88/2008.
„Lögregla vísar frá kæru um brot ef ekki þykja efni til að hefja rannsókn út af henni. Sé rannsókn hafin getur lögregla einnig hætt henni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað. Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut á að máli kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin.“
Í ljósi áfengislaga nr. 75 1998 með áorðnum breytingum.
2. gr. Samkvæmt lögum þessum telst áfengi hver sá neysluhæfur vökvi sem í er að rúmmáli meira en 2,25% af hreinum vínanda. Efni þau sem sundur má leysa í vökva og hafa nefndan áfengisstyrkleika skal fara með sem áfengan drykk.
10. gr. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur einkaleyfi til smásölu áfengis.
Að mati Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum er hér um ótvírætt brot að ræða og óska samtökin hér með eftir því að embætti ríkissaksóknara taki máleið til efnislegrar og formlegrar rannsóknar

Virðingarfyllst, f.h. Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum
Árni Guðmundsson formaður

Afrit: Umboðsmaður Barna, Umboðsmaður Alþingis, Lögmaður FGÁ, Heilbrigðisráðherra, Forsætisráðherra, Félagsmálaráðherra, Heimili og skóli, Barnaheill, Lýðheilsustöð, Barnaverndarstofa og fjölmargri aðrir þeir aðilar sem bera velferð barna og ungmenna fyrir brjósti.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/foreldrasamtokin-afryja/