Er Ríkisútvarpið eins og óþægur krakki ?

Láttu aðra vita

Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum berst fjöldi kvartanna vegna áfengisauglýsinga í Ríkisútvarpinu. Á bak við eina ábendingu/ kæru frá Foreldrasamtökunum  getur því verið fjöldi ábendinga frá fólki .   Þrátt fyrir einlægar óskir og ábendingar um að Ríkisútvarpið sinni skyldum sínum , sýni gott fordæmi og ábyrgð gagnvart okkar yngstu þegnum þá hafa brot á 20. gr áfengislaga um bann við áfengisauglýsingum verið þverbrotin og ef eitthvað er þá hefur Ríkisútvarpið gengið fram fyrir skjöldu þeirra aðila sem misvirða sjálfsögð og lögvarin réttindi barna og ungmenna til þess að vera  laus við áfengisáróður .

Nú er svo komið að Ríkisútvarpið hirðir ekki lengur um viðskeytið “ léttöl“ enda er það að öllu jöfnu málinu algerlega óviðkomandi.  Nýjast dæmið er að tiltekin vínveitingastaður auglýsir algerlega átölulaust (áfengistegundina) „ XXXX svell kaldur“.   Það þarf engan sérstakan málfarsráðunaut til þess að benda Ríkisútvarpinu á kyn orða en ef þetta á að vera enn ein „léttöls“ auglýsingin þá er ekki bara um brot og útúrsnúning  á 20. gr. áfengislaga að ræða,  því málnotkunin er æðstu menningarstofnun þjóðarinnar  til skammar.

Hvað þarf margar kærur og ábendingar til þess að Ríkisútvarpið fari að lögum? Hvernig samfélag er það eiginlega þegar Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum þarf að standa í erjum við útvarp allra landsmanna vegna algerlega sjálfsagðra réttinda barna og ungmenna. Skilur Ríkisútvarpið ekki samfélagslega ábyrgð sína. Er Ríkisútvarpið eins og óþægur krakki ? Er ekki komin tími til að yfirstjórn Ríkisútvarpsins grípi í taumanna og sjái til þessa að Ríkisútvarpið standi undir nafni sem virðuleg menningarstofnun í siðuðu samfélagi.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/er-rikisutvarpid-eins-og-othaegur-krakki/