Ber einhver ábyrgð á áfengisauglýsingum?

Láttu aðra vita

Í talhorninu vekur talsmaður neytenda athygli á að ábyrgð á áfengisauglýsingum er ekki eins óljós og halda mætti. Auglýsandi – og jafnvel fjölmiðill – er ábyrgur. Ritstjóri, ber refsiábyrgð á ómerktum auglýsingum.

Áfengisauglýsingar hafa verið bannaðar á Íslandi í 80 ár. Bannið er að finna í áfengislögum. Samt virðist manni sem meira fari fyrir sýknudómum vegna þeirra – í þeim fáu tilvikum sem ákært er vegna sífjölgandi áfengisauglýsinga. Fjöldi ábendinga berst um þetta á hverju ári til þeirra sem hafa með neytendavernd, áfengisvernd og hagsmuni og réttindi barna að gera. Hvað er til ráða? Ber einhver ábyrgðina?

Í erindi mínu á morgunverðarfundi samstarfshópsins Náum áttum sl. þriðjudag spurði ég: “Hver ber ábyrgðina?” Svör mín þar voru byggð á drögum að þessum pistli en auk þess voru þar fróðleg erindi sem unnt verður að finna á heimasíðu hópsins. Þar var m.a. bent á að viðskiptasjónarmið væru látin vega þyngra en velferð barna og ungmenna en bann við áfengisauglýsingum styðst ekki síst við barnaverndar- og heilbrigðissjónarmið.

Hver ber ábyrgðina?

Ber einhver ábyrgðina? Ég var farinn að halda að svo væri ekki en eftir athugun á dómaframkvæmd og stjórnsýslu, sem mér er kunnugt um, virðist mér svarið vera jákvætt. Það ber einhver ábyrgð á áfengisauglýsingum. En hver?

Þó að sumar ábyrgðarreglurnar hér að neðan fjalli bæði um refsiábyrgð og skaðabótaábyrgð, svo og aðra ábyrgð, mun ég einkum fjalla um refsiábyrgð og aðra ábyrgð. Skaðabótaábyrgð fjalla ég ekki um í pistli þessum en að gefnu tilefni benti ég á það á fyrrgreindum fundi að skaðabótaábyrgð auglýsanda kemur vel til greina ef einstaklingur er sýndur á myndum í tengslum við vöru á borð við áfengi ef sannanlegs leyfis hans – eða forráðamanns – hefur ekki verið aflað.

Fyrst er til að telja að samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 1999 stenst bann íslenskra áfengislaga við áfengisauglýsingum ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála.

Í Svíþjóð hefur málið ekki verið talið svona einfalt enda komst Marknadsdomstolen að þeirri niðurstöðu 2003 í dómi í svonefndu Gourmet-máli að bann þar í landi við áfengisauglýsingum stæðist ekki enda væri bannið í þáverandi mynd tæplega skilvirkt og gengi allt of langt til þess að ná réttlætanlegu markmiði. Með því var talið brotið gegn meðalhófsreglu og mætti ekki beita banninu gegn áfengisauglýsingum í tímaritum. Á þetta sjónarmið hefur enn ekki reynt beinlínis fyrir Hæstarétti Íslands svo vitað sé.

Þá komst dómstóll ESB að þeirri niðurstöðu í forúrskurði í áðurtilvitnuðu Gourmet-máli að bann við áfengisauglýsingum stæðist og teldist ekki óheimil hindrun gegn frjálsu flæði vöru og þjónustu. Rökin voru þau að bannið gæti staðist ef það styddist við lýðheilsusjónarmið en þá mætti það ekki ganga lengra en nauðsyn væri til vegna þeirra sjónarmiða. Það samhengi yrðu innlendir dómstólar að meta eftir aðstæðum og lagaumhverfi í hverju ríki. Sjá nánar tilvitnaða frétt á sænsku um dóminn og fordæmi á sviði Evrópuréttar.

Mun ég nú víkja að ábyrgð á brotum gegn banni við áfengisauglýsingum á þrenns konar vettvangi:

  • í prentmiðlum,
  • ljósvakamiðlum og
  • öðrum miðlum.

Prentmiðlar

Með prentlögum er annars vegar ætlunin að tryggja prentfrelsi í raun og þá helst með því að ekki sé verið að grennslast fyrir um raunverulegan höfund efnis ef annar vill vera „skjöldur“ hans. Styðst þetta við söguleg rök. Því ber aðeins einn ábyrgð á efni blaða og tímarita; af þeim sökum eiga að jafnaði ekki við þar almennar reglur um hlutdeild og meðábyrgð í refsiverðum brotum, þ.e. að fleiri en einn geti talist refsiábyrgur.

Hins vegar er með prentlögum tryggt að ávallt beri einhver ábyrgð á efni dagblaða, þ.e.

  1. höfundur ef hann er nafngreindur en annars
  2. útgefandi eða ritstjóri ef hann er tilgreindur en annars
  3. sölu- eða dreifingaraðili (ef í hann næst) en annars
  4. prentsmiðjan.

Frá 1963 hefur sú túlkun legið fyrir frá Hæstarétti (H 1963:1) að ef fyrirtæki, sem auglýsir áfengi, er nafngreint þá ber framkvæmdarstjóri þess ábyrgð sem  höfundur þess efnis sem í auglýsingu felst; það þýðir líka að ritstjórinn ber ekki ábyrgð – ef auglýsandi er nafngreindur. Í dómi Hæstaréttar sagði:

„Eins og í héraðsdómi greinir, er ákærði […] ritstjóri mánudagsblaðsins og ákærði […] framkvæmdastjóri veitingahússins Glaumbæjar í Reykjavík.

Í auglýsingu þeirri, sem birtist í Mánudagsblaðinu hinn 30. apríl 1962 og mál þetta er af risið, er mynd af vínbar veitingahússins Glaumbæjar. Sjást þar birgðir vínfanga og veitingaþjónn að fylla vínglas. Til hliðar við myndina er orðið: Drekkið. Mynd þessi kynnir á einhæfan hátt framboð veitingahússins á áfengi, og í beinu sambandi við hana er í orði hvatt til drykkju þar. þegar þetta er virt, þykir auglýsingin verða að teljast áfengisauglýsing í merk ingu 16. gr., sbr. 41. gr. áfengislaga nr. 58/1954.

Yfir greindri auglýsingu er heitið Glaumbær og undir henni orðin: Skemmtið ykkur í Glaumbæ, auk talsíma númera fyrirtækisins. Er veitingahús það, sem áður getur, þannig nafngreint sem auglýsandi. Ákærði [framkvæmdarstjórinn], sem samþykkti gerð auglýsingarinnar og hlutaðist til um birtingu hennar, ber því refsiábyrgð á efni hennar, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956, en ákærði [ritstjórinn] þá eigi, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar.

Með skírskotun til þess, sem nú var rakið, verður ákærða [ritstjóranum] dæmd sýkna, en ákærða [framkvæmdarstjóranum] samkvæmt nefndum ákvæðum laga nr. 58/1954 refsing.“

Nafn fyrirtækisins – skemmtistaðar í borginni – var þannig skýrlega tilgreint í umræddri auglýsingu.

Þessi ábyrgðarregla var áréttuð með tilvísuðum dómi Hæstaréttar frá 1999 en þar var framkvæmdarstjóri bjórgerðarfyrirtækis dæmdur sekur fyrir brot á áfengislögum, m.a. með birtingu bjórauglýsinga í dagblaði. Ritstjóri var ekki ákærður. Skilja má niðurstöðuna þannig að vörumerki bjórtegundarinnar hafi óbeint vísað til fyrirtækisins enda þótt nafn auglýsanda hafi alls ekki verið að finna í auglýsingunni.

Sama niðurstaða – sektardómur – varð í tveimur dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá október 2006, öðrum varðandi léttvínsauglýsingu í tímariti og hinum varðandi auglýsingar á áfengum bjór í dagblaði og tímariti. Auglýsendur, innflutnings- eða umboðsfyrirtæki erlendra áfengistegunda, báru ábyrgð – eða öllu heldur fyrirsvarsmenn þeirra sem voru ákærðir. Mér er kunnugt um að hinum síðarnefnda hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Miðað við atvikalýsingu dóma héraðsdóms er reyndar hætt við að mennirnir verði sýknaðir í Hæstarétti samkvæmt því fordæmi sem nú skal vikið að.

Ritstjóri ber ábyrgð til vara

Nafngreiningu auglýsanda var hins vegar ekki til að dreifa í nýjasta dómi Hæstaréttar frá 8. febrúar 2007 þar sem framkvæmdarstjóri íslensks innflutnings- eða umboðsfyrirtækis erlends bjórs var sýknaður þar sem engin nafngreining lá fyrir á umboðsfyrirtækinu – auglýsandanum; hann telst, sem sagt, höfundur í skilningi prentlaga. Þarna hefði verið öruggara og réttara miðað við fordæmi Hæstaréttar frá 1963 að ákæra ritstjóra dagblaðsins en skilja má dóminn þannig að hann hefði þá verið dæmdur sekur fyrir brot gegn auglýsingabanni áfengislaga.

Í dóminum sagði (áhersla GT):

„Hæstiréttur hefur í þeim tveimur dómum [frá 1963 og 1999] sem að framan er vísað til markað þá stefnu að minni kröfur séu gerðar til að höfundur teljist hafa nafngreint sig í skilningi 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 þegar auglýsingar eiga í hlut en ella gildir um annað efni. Auglýsingar þær sem ákæra í máli þessu varðar bera hvorki með sér nafn höfundar né auglýsanda. Á bjórdós þeirri sem birtist í auglýsingunum kemur fram vörumerkið […], en það var skráð hér á landi 29. júlí 1992. Er eigandi þess skráður […] Danmörku. Í auglýsingum þessum eru þannig, andstætt því sem gilti um auglýsingar þær sem um var fjallað í áður tilvitnuðum dómum, engin auðkenni sem beint eða óbeintvísa til ákærða eða fyrirtækis þess, A ehf., sem hann er framkvæmdastjóri  hjá. Verður þar af leiðandi að telja að ákærði hafi ekki nafngreint sig í merkingu 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 og beri því ekki refsiábyrgð á efni auglýsinganna. Samkvæmt því verður að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.“

Framkvæmdarstjóri auglýsanda hins erlenda bjórs var sýknaður.

Segja má að Hæstiréttur hafi í dómi sínum 8. febrúar 2007 fengið bakþanka með því að telja nú að ekki sé nóg að nafngreina vöru eins og látið var duga 1999 en þá vísaði nafn bjórsins aðeins óbeint á framleiðandann, auglýsandann. Niðurstaðan er því skýr – eins og hún hefur í raun verið frá því að fyrst reyndi að þessu leyti á prentlögin í Hæstarétti 1963:

  • Auglýsandi ber ábyrgð á áfengisauglýsingu ef hann er nafngreindur í auglýsingunni. Refsiábyrgðina ber framkvæmdarstjóri eða annar fyrirsvarsmaður fyrirtækis sem er bær til þess að samþykkja auglýsinguna.
  • Ef auglýsandi er ekki nafngreindur ber ritstjóri ábyrgðina (og svo koll af kolli samkvæmtprentlögum).

Ég minni á að í dómi sínum 8. febrúar 2007 segir Hæstiréttur um bjórauglýsingar í fylgiblaði með dagblaði:

„Birting framangreindra auglýsinga braut því í bága við bann 20. gr. áfengislaga við áfengisauglýsingum.“

Þetta þýðir að mínu mati að ef vafi leikur á því hvort auglýsandi er nægilega nafngreindur eigi handhafi ákæruvalds að ákæra ritstjóra dagblaðs eða tímarits. Er það reyndar í samræmi við meðábyrgð fjölmiðla á augljósum lögbrotum sem beinast gegn neytendum sem vikið er lauslega að hér að neðan. Á hinn bóginn er ekki útilokað að slíkt mál veki upp að nýju álitamál um svonefnda hlutlæga refsiábyrgð, sbr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og dóma Hæstaréttar í H 1995:3149 og frá 27. janúar 2000.

Breytt verklag á fjölmiðlum!

Sú niðurstaða hlýtur að leiða til þess verklags á dagblöðum og öðrum ritum að tryggt verði að áfengisauglýsandi verði nafngreindur – ef á annað borð verður haldið áfram þeim ósið að birta áfengisauglýsingar meðan þær eru bannaðar með áfengislögum. Annars er hætt við – og bæði rétt og skylt samkvæmt prentlögum – að ritstjóri verði ákærður fyrir brot gegn áfengislögum miðað við þessi skýru fordæmi Hæstaréttar frá 1963 og 2007.

Aðrir auglýsingamiðlar

Í sama dómi Hæstaréttar frá 1999 og ofan er nefndur var einnig ákært fyrir bjórauglýsingar á flettiskilti við stóra umferðargötu í borginni. Annað fyrirtæki átti flettiskiltið og leigði bjórgerðarfyrirtækinu það að hluta til birtingar á umræddri bjórauglýsingu. Um þetta sagði í dóminum:

„Auglýsingin var samin og sett upp af starfsmönnum fyrirtækisins, er lutu stjórn ákærða og verður að líta svo á framburð hans fyrir dómi að hann hafi ákveðið að birta umrædda auglýsingu með þessum hætti. Með vísan til þess, sem áður hefur verið rakið, telst ákærði brotlegur við þau ákvæði áfengislaga, sem tilgreind eru í ákæru, og skiptir eignarhald á umræddu flettiskilti ekki máli varðandi refsiábyrgð hans.“

Líklegt er að telja að sama regla gildi annars staðar – þar sem sérreglur prentlaga og útvarpslagagilda ekki – svo sem á netinu en ekki er vitað til þess að á það hafi reynt hérlendis að þessu leyti.

Almenna reglan er því að auglýsandi eða framkvæmdarstjóri þess fyrirtækis, sem auglýsir áfengi, ber refsiábyrgð á broti gegn banni áfengislaga.

Ljósvakamiðlar

Ljósvakamiðlar samkvæmt útvarpslögum eru útvarp og sjónvarp. Þar eru líka sérreglur um refsiábyrgð sem tryggja að einhver einn beri ábyrgð. Í sama dómi Hæstaréttar frá 1999 og ofan er nefndur var einnig ákært fyrir brot á áfengislögum með bjórauglýsingu í sjónvarpi. Um það segir Hæstiréttur:

„Er óumdeilt að auglýsingin var birt á ábyrgð ákærða. Braut hann með því tilgreind ákvæði áfengislaga í ákæru og bakaði sér refsiábyrgð“

samkvæmt tilgreindu ákvæði þágildandi útvarpslaga sem er óbreytt og hljóðar svo:

„Auglýsandi ber ábyrgð á auglýsingu.“

Þetta ákvæði útvarpslaga gildir um refsi- og fébótaábyrgð og er mjög skýrt. Vonandi reynir brátt á það fyrir dómi enda er bann við áfengisauglýsingum að mínu mati þverbrotið á hverjum degi þegar í lok bjórauglýsingar birtist í vinstra horni neðst með daufum og smáum stöfum, líklega í um eina sekúndu: „Léttöl.“ Þetta stenst að mínu mati ekki skýrt bann áfengislaga (áhersla GT):

Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum […].

Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, […].

[…] Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.

Önnur ábyrgð

Spurningin er hvort einhver önnur ábyrgð en refsiábyrgð er fyrir hendi. Lýðheilsustöð, talsmaður neytenda og umboðsmaður barna héldu því fram í sameiginlegu erindi til útvarpsréttarnefndar, dags. 10. janúar 2006, sbr. fréttatilkynningu frá 17. janúar 2006. Erindið var þríþætt og beindist í öllum tilvikum að því að áminna ljósvakamiðlana sem áttu í hlut en áminning er undanfaristjórnvaldssekta eða mögulegrar afturköllunar útvarpsleyfis; þannig var óskað eftir að beitt yrði vægasta úrræðinu sem lög leyfa. Því hafnaði útvarpsréttarnefnd í öllum tilvikum á fundi sínum.

Beinar áfengisauglýsingar

Í fyrsta lagi var því haldið fram í erindinu að með beinum áfengisauglýsingum væri brotið gegnáfengislögum. Útvarpsréttarnefnd bar ekki brigður á það en sagðist aðeins geta aðhafst vegna brota á útvarpslögum og vísaði málinu til lögreglu. Ég er enn ósammála þessari röksemdafærslu og tel að stjórnvöld megi – og eigi í sumum tilvikum að – líta til annarra laga en þeirra sem þau hafa sérstakt forræði yfir. Þarna þarf að bæta úr í nýju „fjölmiðlalagafrumvarpi“ sem er til meðferðar á Alþingi.

Kostun með áfengistegundum

Í öðru lagi var kvartað yfir kostun tiltekins sjónvarpsþáttar með vísan til tiltekinnar bjórtegundaren útvarpsréttarnefnd hafnaði þeim lið kvörtunarinnar þar sem til sölu var óáfengur bjór með sama nafni. Í áfengislögum segir hins vegar að til þess að auglýsing sé heimil frá aðila sem einnig selur áfengi verði að vera

„augljóst […] að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.“

Einföld samræmislögskýring við tilvitnað ákvæði áfengislaga hefði átt að duga til þess að útvarpsréttarnefnd hefði geta áminnt vegna kostunarinnar á grundvelli svohljóðandi ákvæðisútvarpslaga:

„Útvarpsdagskrár mega ekki vera kostaðar af aðilum sem bannað er að auglýsa vöru sína eða þjónustu.“

Þarna er sama meinlokan greinilega á ferðinni – að útvarpsréttarnefnd eigi aðeins að byggja á „sínum“ lögum.

Nýlega hafnaði lögregla að hefja sakamál út af kostun sjónvarpsdagskrár með vísan til áfengra drykkja og benti réttilega á að refsiákvæði vanti í útvarpslög hvað varðar kostun; sérstakt bann við kostun skortir hins vegar í áfengislög þó að leiða megi það af þeim. Lögreglan vísaði á útvarpsréttarnefnd. Þarna er greinilega þörf á samræmingu á lögum; hvaða afleiðingar aðrar á brot að hafa gegn tilvitnuðu ákvæði útvarpslaga um bann við kostun af hálfu þeirra sem ekki mega auglýsa vöru sína eða þjónustu? Ef bannið hefur engar afleiðingar er um að ræða svonefnt lex imperfecta og það getur ekki verið tilgangur löggjafans.

Áberandi sýningar

Í þriðja lagi var kvartað yfir áberandi sýningu á áfengisvörumerkjum í tilteknum sjónvarpsþáttum á fleiri en einni stöð. Í öðru tilvikinu taldi útvarpsréttarnefnd ekki ástæðu til þess að athuga hvort rétt væri að ekki hefði hefði verið greitt fyrir þá birtingu. Í hinu tilvikinu fann útvarpsréttarnefnd að því að ekki hefði verið gefið til kynna að dagskrárliðurinn væri kostaður. Var því beint til hlutaðeigandi aðila að fara að lögum en annars tekið fram að íhuga mætti viðurlög samkvæmt útvarpslögum.

Meðábyrgð fjölmiðla

Með öðrum orðum tel ég eins og raunin er með ritstjóra dagblaða þegar auglýsandi er ekki nafngreindur að ljósvakamiðlar beri ábyrgð – ekki aðeins siðferðilega heldur lagalega samkvæmt þeim úrræðum sem útvarpsréttarnefnd hefur. Þar er hið vægasta, sem sagt, áminning. Áminning ljósvakamiðils gæti samt í raun verið virkari en sakamál gagnvart auglýsanda enda hætta útvarps- og sjónvarpsstöðvar vart á stjórnvaldssektir hvað þá afturköllun verðmætra leyfa. Forsenda virkrar (með)ábyrgðar fjölmiðla er hins vegar öflugt aðhald og kann að vera tilefni til þess að gera breytingar á stjórnsýslu þeirra mála í þessu ljósi.

Eins og dæmi erlendis frá sýna er unnt að gera fjölmiðla meðábyrga fyrir brotum gegn neytendum ef fjölmiðlum má vera augljóst að auglýsing er ekki í samræmi við lög. Mun ég fjalla síðar sérstaklega um það efni og að líkindum gera tillögur um úrbætur í því efni til réttra aðila.

Svarið

Svarið við spurningunni hvort einhver – og hver – beri ábyrgð á brotum gegn banni við áfengisauglýsingum er því: Auglýsandi (framkvæmdarstjóri) ber ábyrgðina. Auglýsandi er sá sem kaupir auglýsingarými í dagblaði, ljósvakamiðli, á flettiskilti, á netinu eða annars staðar. Sá sem kaupir slíkt rými er yfirleitt innlendur áfengisframleiðandi eða innlendur innflutnings- eða umboðsaðili erlendrar áfengistegundar. Eini fyrirvarinn er að ef auglýsing er í dagblaði þá þarf auglýsandinn að vera nafngreindur; ef ekki – þá er ritstjóri ábyrgur og ber að ákæra hann fyrir brot gegn áfengislögum.

Utan gildissviðs sérreglna prentlaga og útvarpslaga geta auk þess komið til álita almennar reglur refsiréttar um meðábyrgð á brotum.

En refsiábyrgð er ekki eina ábyrgðin. Eins og ég tel mig hafa rökstutt hér að ofan með gagnrýni á útvarpsréttarnefnd er unnt að gera ljósvakamiðla ábyrga fyrir augljósum brotum gegn lögbundnu banni við áfengisauglýsingum, áfengiskostunum og annarri flöggun áfengis í þessum áhrifaríku miðlum, útvarpi og sjónvarpi. Úr því að það var ekki gert þarf að laga lög um fjölmiðla og mun ég væntanlega leggja það til við menntamálanefnd Alþingis sem er með til meðferðar svonefnt „fjölmiðlalagafrumvarp.“ Hugsanlegt er að til þurfi að koma öflug fjölmiðlastofnun.

Þá má ekki gleyma ábyrgð okkar sem eigum að standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda og sérstaka hópa eða hagsmuni – annað hvort almennt eða samkvæmt sérstökum lögum. Þar á meðal er lögreglan. Auk þess má nefna heilbrigðisstéttir, Lýðheilsustöð, landlækni, Neytendastofu, talsmann neytenda, umboðsmann barna og margnefnda útvarpsréttarnefnd, svo og almannasamtök á borð við Neytendasamtökin og Heimili og skóla. Séu ekki virk viðurlög við brotum gegn hagsmunum eða réttindum neytenda og þeim viðurlögum framfylgt dregur enn úr virðingu við lögin eins og ég fjallaði óbeint um í talhorninu 14. janúar sl.

Loks má ekki gleyma ábyrgð neytenda sjálfra – sem hafa mikil áhrif, eins og ég vék að í talhorninu21. janúar sl. og 28. janúar sl.

Annað mál

Reyndar hef ég í umsögn til allsherjarnefndar Alþingis um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum ekki tekið afstöðu til þess hvort banna eigi eða leyfa áfengisauglýsingar. Ég lagði áherslu á að slíku banni þurfi að fylgja virk viðurlög enda er það samkvæmt sænskadómafordæminu í svonefndu Gourmet-máli ekki aðeins forsenda þess að bannið standist; það er réttur neytenda, ekki síst barna og ungmenna – sem mikilvægast er að vernda gegn slíku markaðsáreiti varðandi óhollar vörur.

Hins vegar hafa aðrir neytendur – þeir sem nota áfengi og mega það – hagsmuni af því að geta kynnt sér vöruna en það er annað mál sem ég vík lauslega að í umsögninni um áðurnefnt frumvarpsem varð ekki að lögum en þar er einnig að finna umfjöllun um forsögu og fleiri dóma. Tilgangur þess frumvarps virðist mér að létta á almennu banni við áfengisauglýsingum en gera bannið um leið virkara til verndar börnum og ungmennum. Það er þess virði að íhuga – en þá verður bannið að virka.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/ber-einhver-abyrg%c3%b0-a-afengisauglysingum/