Ályktun frá aðgerðarhóp í forvörnum í Árborg

Láttu aðra vita

Ályktun frá aðgerðarhóp í forvörnum í Árborg.

Sveitarfélagið Árborg hefur nýlega samþykkt forvarnastefnu og aðgerðaáætlun. Eitt af leiðarljósum stefnunnar eru heilbrigðir lífshættir barna og ungmenna, líf án vímuefna.

Aðgerðahópur um forvarnir í Árborg beinir því til veitinga- og skemmtistaða í Árborg að fara að lögum og auglýsa aldrei áfengi í tengslum við markaðssetningu dansleikja eða annarra samkvæma. Með banni við áfengisauglýsingum í áfengislögum er leitast við að sporna gegn misnotkun á áfengi og ekki síst hindra að því sé haldið að börnum og ungmennum með hvers kyns tilkynningum til almennings, hvort heldur er í máli eða myndum.  Því miður eru dæmi þess að veitinga- og skemmtistaðir í Árborg auglýsi áfengi í tengslum við markaðssetningu á dansleikum og skemmtunum bæði í staðarblöðum og á heimsíðum viðkomandi fyrirtækja. Sem dæmi má nefna auglýsingu sem veitingahúsið 800 bar á Selfossi sendi frá sér í tilefni af dansleik föstudagskvöldið 12. desember sl. og birtist í Sunnlenska fréttablaðinu og Dagskránni, sem dreift er ókeypis inn á öll heimili á Suðurlandi. Í umræddri  auglýsingu kemur fram að boðið séu upp á ókeypis “Jager” og einnig er í auglýsingunni  mynd af vínflösku, nánar tiltekið Jagermeister, sem er með 35% vínanda. Umrædd  skemmtun sem kynnt var sem “próflokadjamm” var  sérstaklega beint að þeim mikla fjölda ungmenna sem á þessum tíma voru að ljúka prófum.

Aðgerðahópurinn fordæmir auglýsingar af þessu tagi harðlega og beinir því til rekstraraðila veitinga- og skemmtistaða  og ritstjóra staðarblaða að þau styðji sveitarfélagið í að búa börnum og ungmennum í Árborg  þroskavænleg uppeldisskilyrði og líf án vímuefna og  birta því framvegis ekki auglýsingar sem gætu varðar við áfengislög. Athygli er vakin á því að ritstjóri Blaðsins var í Hæstarétti Íslands þann 23. október sl. dæmdur í 1.000.000 króna sekt auk sakarkostnaðar fyrir birtingu áfengisauglýsinga.

Aðgerðahópur um forvarnir í Árborg er skipaður fulltrúum Fjölskyldumiðstöðvar Árborgar, lögreglunnar á Selfossi, leik-og grunnskóla Árborgar, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Skólaskrifstofu Suðurlands.

Selfossi / Sveitarfélagið Árborg            18.12.2008.

F.h. Aðgerðarhóps um forvarnir í Árborg

Andrés Sigurvinsson,
verkefnisstjóri íþrótta-, forvarna- og menningarmála í Árborg.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/alyktun-fra-a%c3%b0ger%c3%b0arhop-i-forvornum-i-arborg/