Previous Next

Sniðgöngum

Láttu aðra vita

Velferðarsjónarmið og vernd barna og unglinga eru lykilatriði hvað varðar bann við áfengisauglýsingum.  Þrátt fyrir þessa augljósu staðreynd þá virða áfengisframleiðendur og salar lögin að vettugi.  Nú hefur færst í vöxt að auglýstar séu augljósar eftirlíkingar af áfengi og gjarnan án nokkurs samhengis er  orðinu „léttöl“  skeytt við  þó svo að viðkomandi fyrirtæki leggi ekki nokkra áherslu á slíka framleiðslu ef hún er þá yfir höfuð framleidd eða fáanleg.

Sem fyrr er markhópur auglýsenda  börn og unglingar.  Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum  velta fyrir sér hvort fólki þyki við hæfi að eiga viðskipti við fyrirtæki sem virða ekki  sjálfsögð og lögvarin réttindi barna og ungmenna til að vera laus við áfengisáróður,  fyrirtæki sem hvorki virða siðferðileg eða lagaleg mörk.  Slíkt er auðvitað ekki til hæfi og skora Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum  á alla þá sem bera velferð æskunnar fyrir brjósti að sniðganga viðskipti við slík fyrirtæki.

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/snidgongum/

Athyglisverð grein – Þarf að vernda ungmenni?

Láttu aðra vita

Sigurður Ragnarsson Lektor í viðskiptadeild Viðskiptaháskólans Bifröst. skrifaði þessa athyglisverðu grein árið 2004.  Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember 2004 og má einnig finna á vef  Háskólans í Bifröst (http://www.bifrost.is/sidur/frettasidur/i-umraedunni/nr/18172/) .

“Þarf að vernda ungmenni okkar fyrir áfengisauglýsingum?

Nokkrar umræður hafa átt sér stað undanfarið varðandi áhrif áfengisauglýsinga og hafa aðallega snúist um hvort þessar auglýsingar hafi skaðleg áhrif í þá veru að auka heildarneyslu áfengis og/eða stuðli að aukinni misnotkun áfengis.  Ég ætla að skoða þetta sérstaklega með tilliti til áhrifa á börn og unglinga.

Þeir sem segja áhrifin skaðleg telja að áfengisauglýsingar hvetji til neyslu áfengis, að þær leiði til meiri neyslu eða að neysla hefjist fyrr en ella vegna auglýsinganna.  Þess vegna vilja þessir sömu aðilar að lögum vegna áfengisauglýsinga hér á landi verði framfylgt og benda á að í dag séu ýmsar leiðir farnar til að komast hjá því að fara eftir lögum.  Þeir sem telja þessar auglýsingar ekki skaðlegar telja að þær hvorki auki neyslu né stuðli að því að neysla hefjist fyrr.  Það sé takmark auglýsenda með auglýsingunum að ná hærri markaðshlutdeild og þá á kostnað samkeppnisaðila.  Sumsé, fólk kaupi sér eftir sem áður jafn mikið áfengi, hvort sem auglýst er eður ei.

Ljóst er að þrátt fyrir að nefnt hafi verið í umræðunni að rannsóknir sanni að auglýsingar á áfengi hafi ekki neikvæð áhrif á neyslu ungmenna, þá má ljóst vera að slíkar fullyrðingar standast ekki.   Bandarísku læknasamtökin, American Medical Association, hafa t.a.m. kynnt rannsóknir þar sem niðurstöðurnar eru þær að auglýsingar geti haft neikvæð áhrif á börn og unglinga og að þessir hópar séu líklegri til að neyta áfengis vegna áfengisauglýsinga.

Annað mikilvægt atriði sem þarf að hafa í huga er að tilgangur auglýsinga er ekki alltaf að selja strax.  Markmiðið getur t.a.m. verið að vekja áhuga og breyta viðhorfi þeirra sem auglýsingum er beint að.  Þess vegna mætti alveg líta þannig á að áfengisauglýsingum sem beint er til ungmenna sé ætlað að hafa áhrif á viðhorf þeirra til drykkju.  Kannski leiðir það hinsvegar ekki samstundis til meiri neyslu.  Victor Strasburger, prófessor við University of New Mexico, fjallar m.a. annars um í grein frá 2002 að margar rannsóknir hafi skoðað sérstaklega áhrif auglýsinga á börn og unglinga.  Hann fullyrðir að næstum allar þær rannsóknir hafi sýnt fram á að auglýsingar hafi haft mikil áhrif í þá veruna að auka vitund um auglýsta vöru, að leiða til tilfinningalegra viðbragða við auglýstri vöru, að auka þekkingu á ákveðnum vörum eða vörumerkjum og að leiða til löngunar til að eiga eða nota auglýstar vöru.

Ennfremur, Austin og Knaus birtu árið 2000,  í Journal of Health Communication, þær niðurstöður að áfengisauglýsingar og annað kynningarefni hefði áhrif á börn og unglinga í þá veruna að hafa forspárgildi um áfengisneyslu á unglingsárum.  Úrtakið samanstóð af  grunnskólanemum í þriðja, sjötta og níunda bekk í Washington fylki í Bandaríkjunum.  Önnur rannsókn, birt 1998, var framkvæmd yfir 18 mánaða tímabil og náði til 1.500 níundubekkinga í San Jose í Kalíforníu í Bandaríkjunum. Niðurstöður voru þær að áhorf á sjónvarp og tónlistarmyndbönd hafði veruleg áhrif á hvenær drykkja ungmennana hófst.  Það er ekki óvarlegt að álykta að áfengisauglýsingar sem og fyrirmyndir í tónlistarmyndböndum hafi þar haft áhrif.  Það er t.d. ólíklegt að veðurfregnir í sjónvarpi hafi haft þessi áhrif.

Henry Saffer, prófessor í hagfræði við Kean University í Bandaríkjunum, hefur framkvæmt viðamiklar rannsóknir á áhrifum áfengis- og tóbaksauglýsinga.  Meðal niðurstaðna er að bann við áfengisauglýsingum getur dregið úr drykkju ungmenna og að auglýsingar sem hafa það markmið að draga úr drykkju ungmenna hafa áhrif í þá veru að minnka heildarneyslu þessa hóps.  Reyndar eru niðurstöður Saffer þær að í þeim löndum þar sem er bann við áfengisauglýsingum sé áfengisneysla 16% minni en í löndum þar sem áfengisauglýsingar eru leyfðar.

Það er athyglisvert að velta síðan fyrir sér fullyrðingum um að áfengisauglýsingar hafi ekki áhrif á heildar eftirspurn áfengis.  Þar má spyrja sig með hvaða hætti framleiðendur og söluaðilar áfengis skilgreini sinn markað.  Það er m.a. þekkt að framleiðandi ákveðins gosdrykkjar telur sig ekki eingöngu í samkeppni við aðra gosdrykki heldur í samkeppni við nánast allt sem við drekkum og þ.m.t. vatn.  Því mætti alveg ætla að framleiðendur áfengis gætu skilgreint sig með svipuðum hætti og teldu sig í samkeppni við tiltekna óáfenga drykki.  Ef það er raunin er ljóst að áfengisauglýsingum er ætlað að auka eftirspurn eftir áfengi, og þá á kostnað annarra óáfengra drykkja.  Sala á áfengi hefur jú aukist mikið síðasta áratuginn og það hlýtur að segja okkur eitthvað.

Það er auðvitað ekki hægt að kenna auglýsingum eða kynningum á áfengi alfarið um aukna drykkju.  Þar spila ótal margir þættir inn í og margir þeirra hafa miklu meiri áhrif en áfengisauglýsingar.  Hinsvegar, er ekki hægt að neita því að áfengisauglýsingar geta haft neikvæð áhrif í samfélaginu og þ.m.t. á ungmenni okkar.  Það að til séu rannsóknir sem benda á að áfengisauglýsingar hafi ekki neikvæð áhrif, leyfir okkur ekki að hafa að engu þær rannsóknir sem benda til hins gagnstæða, rannsóknir sem eru unnar af virtum fræðimönnum og fagfólki.

Sigurður Ragnarsson Lektor í viðskiptadeild Viðskiptaháskólans Bifröst. Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember 2004.”

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/athyglisverd-grein-tharf-ad-vernda-ungmenni/

Markaðsmanni ofbýður – sjónvarpsþátturinn Alkemistinn

Láttu aðra vita

Sjónvarpsþátturinn Alkemistinn á sjónvarpsstöðinni INN fjallaði um áfengisauglýsingar um daginn – umfjöllun og efnistök voru með þeim hætti að mörgum reyndum markaðsmanninum ofbauð málflutningurinn. Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum  barst afrit að af pósti sem reyndur markaðsmaður sendi   umsjónarmanni þáttarins.

“Sæll Viðar, vona að það sé í lagi að ég sendi þér línu varðandi þáttinn um áfengisauglýsingar og bann við þeim í Alkemistanum.

Svo því sé haldið til haga þá hef ég í 20 ár stjórnað markaðsmálum á Íslandi fyrir vörumerki eins og Nike og Spalding sem og gleraugnadeildir Calvin Klein, Fendi, Michael Kors o.fl.

Ég tel þetta upp því ég ég tel mig markaðsþenkjandi og það kom oft upp í þessum þætti setningin ?…eins og allt markaðsþenkjandi fólk veit…?

Mér finnst ávallt skrítið þegar fólk heldur því fram að auglýsingar séu neysluhamlandi. Það gengur gegn öllum lögmálum markaðsfræðinnar a.m.k. þeirrar sem ég hef lært í námi og starfi.

Í þessum þætti kvartaði viðmælandi yfir því að nú skekktist samkeppnisstaðan af því að innlendir aðilar mættu ekki auglýsa en fór svo í næsta orði að segja frá því hvernig auglýsingar hafa hamlandi áhrif á neyslu.

Er þá ekki bara hið besta mál að auglýsa ekki og leyfa þá erlendu aðilunum, sem greinilega hafa ekki kynnt sér þessa visku í þaula, að grafa sér sína eigin gröf?

Könnunin sem vísað er í sýnir að sögn að þar sem áfengisauglýsingar séu bannaðar sé neyslan meiri og/eða aukist en sé minni og/eða minnki þar sem leyft er að auglýsa.

Að fullyrða að þetta sýni svart á hvítu að auglýsingar minnki neyslu er alveg ótrúleg einföldun.

Það er svo ótalmargt annað sem getur haft áhrif eftir afmörkuðum svæðum, t.d. þjóðfélagsástand almennt verra á þeim stað sem auglýsingar eru bannaðar, lífsgæði þar minni, meira þunglyndi; fólk sækir auðvitað í áfengi af óteljandi mismunandi ástæðum.

Svo eru tengslin á milli minni eyðslu í auglýsingar og meiri neyslu: það er einnig ótrúlega mikil einföldun að setja þarna samasemmerki; á sama hátt getur kreppuástand gert það að verkum að fyrirtæki hafi minni peninga til að auglýsa en þessi sama kreppa gert það að verkum að fólk sæki meira í áfengi (og aðra vímugjafa hugsanlega).

Eins og ?allt markaðsþenkjandi fólk veit? eru auglýsingar gerðar til þess að auka neyslu og skapa ímynd sem selur.

Þessi bransi, eins og allur annar bransi, vinnur og hefur unnið að því öllum árum að gera það kúl að drekka, t.d. einn kaldan með grillinu, með fótboltaleiknum o.s.frv.

Ef þessi stóri sannleikur er hins vegar að koma fram að áfengisauglýsingar minnki neyslu þá hljóta allir markaðsþenkjandi mennirnir hjá stóru fyrirtækjunum úti að klossbremsa allar auglýsingar hið snarasta ekki satt?

Með bestu kveðju,

Björn Leifur Þórisson. “

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/markadsmanni-ofbydur-sjonvarpsthatturinn-alkemistinn/

Umboðsmaður barna bregst við “dulbúnum” áfengisauglýsingum í tengslum við útihátíðir

Láttu aðra vita

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna frumkvæði umboðsmanns barna gagnvart áfengisauglýsingum í tengslum við útihátíðir. Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum berast árlega fjöldi kvartanna af þessum sökum og sorglegt hve margir mótshaldarar eru á siðferðilega lágu plani í þessum efnum og svo hitt hve slælegt eftirlitið er víða . Meðfylgjandi er bréf umboðsmanns barna:

Góðan dag

Með þessu bréfi vill umboðsmaður barna vekja athygli á hagsmunum barna sem sækja munu útihátíðir í sumar og aðrar skemmtanir sem bjóða upp á dagskrá fyrir börn og hvetja forsvarsmenn sveitarfélaga að huga að ábyrgð sinni gagnvart börnum.

Umboðsmaður barna hefur undanfarin ár vakið athygli á nauðsyn þess að takmarka dulbúnar áfengisauglýsingar með virkum hætti. Auglýsingum er almennt ætlað að hafa þann tilgang að hvetja til neyslu og stuðla að jákvæðu viðhorfi til þeirrar vöru sem auglýst er. Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem á rétt á sérstakri vernd, sbr. m.a. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Börn eru auk þess sérstaklega viðkvæm fyrir allri markaðssetningu og hafa auglýsingar því almennt meiri áhrif á þau en aðra. Áfengisauglýsingar hafa þannig áhrif á viðhorf barna til áfengis og stuðla að aukinni neyslu unglinga. Ljóst er að áfengi hefur ýmis skaðleg áhrif á líffæri, þroska og almenna velferð barna.

Umboðsmaður barna vill því leggja áherslu á að áfengis- og léttölsauglýsingar eiga aldrei rétt á sér á viðburðum sem börn sækja. Hagsmunir barna og unglinga af því að njóta verndar gegn áfengisauglýsingum eiga alltaf að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem standa að viðburðum sem ætlaðir eru fjölskyldufólki, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um að það sem er börnum fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn.

Afrit af þessum tölvupósti er sent öllum lögreglustjórum og sýslumönnum.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/umbodsmadur-barna-bregst-vid-dulbunum-afengisauglysingum-i-tengslum-vid-utihatidir/

Áfengisauglýsing sem hluti vímuefnaumfjöllunar !

Láttu aðra vita

Kastljósið hefur staðið sig einstaklega vel undanfarið í umfjöllun um vímuefnavandann. Af mörgu sem vel hefur verið gert í þessum efnum þá er það mat margra að þessi umfjöllun sé með því betra sem hefur sést, bæði það að efnistök eru góð og úrvinnsla vönduð. Með þessari  umfjöllun hefur Kastljósið svo sannarlega staðið undir nafni og tekist að koma af stað umræðu í samfélaginu um hvernig skuli brugðist við þeirri vá sem vímuefni vissulega eru. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og ljóst að þessi markvissa umfjöllun mun hafa í för með sér að allir sem vettlingi geta valdið bregðast við og freista þess að vinna bug á þessum síaukna vanda. Með samstilltu átaki er vissulega hægt að ná árangri eins og dæmin sanna.

Ritstjórn Kastljóss á þakkir skildar fyrir framtakið. Hitt er svo annað mál að yfirstjórn RÚV og auglýsingadeild „Útvarps allra landsmanna“ er algerlega úr takti við samfélagið sbr. það fádæma virðingarleysi að sýna áfengisauglýsingu í kjölfar annars vandaðrar umfjöllunar Kastljóssins um vímuefnavandann í kvöld 30. maí. Einstaklega óviðeigandi, ólöglegt, siðlaust og sýnir í hnotskurn að yfirstjórn RÚV veldur ekki þeirri miklu ábyrgð sem henni er falin,  skilur ekki samfélagslegt hlutverk sitt og tekst ekki að vera öðrum fjölmiðlum verðug fyrirmynd sbr. endalausar birtingar á misgrímulausum áfengisauglýsingum. Þetta er auðvitað ekki við hæfi og mál að linni.

Stjórn foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/afengisauglysing-sem-hluti-vimuefnaumfjollunar/

Augljós réttindi barna og ungmenna

Láttu aðra vita

Ágæti viðtakandi

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna sérstaklega fram komu frumvarpi  innanríkisráðherra og ríkistjórnar Íslands þar sem tekið er á augljósum  útúrsnúningum áfengisframleiðenda á 20 gr. áfengislaga um bann við áfengisauglýsingum. Lögin  snúast um sjálfsögð réttindi barna og ungmenna til þess að vera laus við þann einhliða áróður sem áfengisauglýsingar eru.  Núverandi lög eru siðferðilega skýr, en af einhverjum ástæðum hefur dómskerfið ekki treyst sér til þess að taka með afgerandi hætti  á þeim augljósu lögbrotum og útútsnúningum sem framleiðendur hafa beitt?

Markhópur  áfengisframleiðenda eru börn og ungmenni  eins og dæmin sanna og af þeim sökum er umræða í Evrópu og víðar um auknar takmarkannir og auglýsingabönn.  Hagsmunir framleiðanda fara illa saman við velferðasjónarmið sem og það sjálfssagða  markmið foreldasamfélagsins að halda áfengi frá börnum og ungmennum.  Allur málflutningur sem miðar við lönd hinna lægst gilda og viðmiða í þessum efnum er fyrst og fremst málflutningur hinna ýtrustu hagsmuna- viðskiptasjónarmiða.  Velferðarsjónarmið , vernd barna og unglinga og ekki síst uppeldismarkmið foreldrasamfélagsins vegur mun þyngra, er mun mikilvægara.

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna þessu frumvarpi og hvetja Alþingi  til þess að samþykkja það með afgerandi hætti og sýni þar með hug sinn í verki  gagnvart sjálfsögðum réttindum barna og unglinga til þess að vera laus við  gengdarlausan áfengisáróður.

Virðingarfyllst,

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum

www.foreldrasamtok.is

Varanlegur hlekkur á þessa grein: https://www.foreldrasamtok.is/augljos-rettindi-barna-og-ungmenna/

Load more