feb 03

Mesta afturför í lýðheilsumálum frá lýðveldisstofnun

Danir státa af þeim vafasama heiðri að eiga heimsmet í unglingadrykkju. Slíkt er ekki til eftirbreytni og í raun ekki boðleg staða. Hérlendis státum við af ágætis árangri í forvörnum enda verið sátt í samfélaginu um árabil um að búa börnum og ungmennum eins uppbyggilegt umhverfi og aðstæður og frekast er kostur. Slíkt er ekki sjálfgefið, staðan í dag byggir á sátt um markmið sem vörðuð eru velferðarsjónarmiðum um vernd barna og ungmenna. Opinber markmið eins lýðheilsustefna er mikilvægur hlekkur í þessari jákvæðu þróun og sama á við um markvisst forvarnarstarf. Foreldrasamfélagið er einhuga í sinni afstöðu. Starf æskulýðsfélaga, æskulýðsstarf almennt, félagsmiðstöðvarnar, íþróttahreyfingin og skólarnir hafa lagst á eitt árum saman í þeim tilgangi að búa æskunni heilbrigt og uppbyggilegt umhverfi. Það hefur að mörgu leiti tekist en slíkt er ekki sjálfgefið, vinna á þessum vettvangi er og þarf að vera samfelld.

Nú liggur, enn eina ferðina, fyrir frumvarp á Alþingi um sölu áfengis í verslunum. Slíkt er vart lengur fréttnæmt nema ef vera skyldi fyrir þær sakir að nú fjallar frumvarpið ekki eingöngu um sölu áfengis í verslunum, viðbætur eru þær að einnig er gert ráð fyrir að auglýsingabann á áfengi verði afnumið. Það eru engin ný sannindi að aukið aðgengi og auglýsingar eru þeir þættir sem hafa hve mest áhrif hvað varðar neyslu. Aukið aðgengi með tilheyrandi auglýsingaskrumi mun auk þess hafa hve mest áhrif á þá hópa samfélagsins sem eru hvað viðkvæmastir fyrir slíku ekki síst gagnvart börnum og ungmennum. Frumvarpið er því ákall um afturför í lýðheilsumálum, aðför að sjálfsögðum réttindum barna og ungmenna til að vera laus við áfengisáróður og gengur í öllum meginatriðum gegn öllum markmiðum í forvarnarstarfi og í berhögg við opinbera lýðheilsustefnu sem almenn sátt hefur verið um. Danskar „lausnir“ í áfengismálum er þekktar sem og afleiðingar þeirrar stefnu hvað varðar börn og ungmenni. Slíkt frumvarp er ekki í þágu barna og ungmenna hérlendis og með miklum ólíkindum að lagt sé fram frumvarp í þeim anda, sem verður, ef af verður, mesta afturför í lýðheilsumálum hérlendis a.m.k. frá lýðveldisstofnun.

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum skora á Alþingi að veita þessu frumvarpi ekki brautargengi. Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum minnir þingmenn á ríka ábyrgð sína og skyldur gagnvart velferð barna og ungmenna í samfélaginu. Ábyrgð og skyldur sem vega mun þyngra en þeir ítrustu viðskiptahagsmunir sem þetta frumvarp gengur út á að innleiða.

Stjórn Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum

Varanlegur hlekkur á þessa grein: http://www.foreldrasamtok.is/2017/02/mesta-afturfor-i-lydheilsumalum-fra-lydveldisstofnun/

3 comments

  • Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt on 12/02/2017 at 13:24
  • Svara

  Við mótmælum öll þessu áfengisfrumvarpi.
  Hér er líka verið að gera ungum og óreyndum þingmönnum grikk að láta þá, nýkosna á þing vera í forsvari fyrir þessu frumvarpi ásamt nýgræðingi Sjálfstæðisflokksins frá 2013.

  • Jónína Gunnarsdóttir on 16/02/2017 at 10:51
  • Svara

  Þetta frumvarp er sjálfstæðismönnum til skammar. Hér er enn einu sinni verið að þjóna hagsmunum heildsala og peninga afla en heildarinnar. Meirihluti þjóðarinnar vill nefnilega ekki áfengi í matvöruverslanir.

  • Jóhann M Þorvaldsson on 31/03/2017 at 03:33
  • Svara

  Skora á þingið að fella frumvarp um áfengissölu í verslunum.

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

Captcha Captcha Reload